Jörðin er samsett úr ýmsum lögum, jarðlögum – allt frá innri kjarna til jarðskorpunnar – og hvolfum – allt frá veðrahvolfi til úthvolfs áður en geimurinn tekur við. Í öllum þessum ólíku lögum togast á gríðarlegir kraftar og þar er að finna orkukerfi sem valda gífurlegum umbreytingum, svo sem veðrun vatns og vinda á yfirborði jarðar eða hræringar jarðlaganna, þar sem gamalt berg þrýstist niður og umbreytist en brýst síðan upp sem kvika á nýjan leik.
Frá okkar sjónarhorni á yfirborði jarðar sjáum við aðeins brot af þeim efnum sem finnast á jörðu niðri eða himni uppi. Berg birtist okkur aðeins að hluta til, í fjöllum og landslagi, sem oft er hulið gróðri að stórum hluta. Þá verðum við vör við sameindir og frumeindir í efri lögum andrúmsloftsins sem sjást aðeins þegar hlaðnar agnir frá sólinni skella á þeim og örva þær. Örvað súrefni ljómar í grænu en örvað köfnunarefni ljómar í rauð-fjólubláum. Þetta eru einmitt norðurljós.
Við mannvirkjagerð eða virkjunarframkvæmdir, þar sem verið er að nýta orku og efni jarðar, hugsum við oft lítið um sárin sem verða til. Við hugum lítið að aðstæðum mannvirkjanna, nema helst til að aðlaga undirstöður svo mannvirkin falli ekki saman við jarðskjálfta eða flóð og útbúa kápu eða hjúp sem gerir mannvirkin veðurþolin.
Hvað ef mannvirki myndu spretta upp úr jarðlögunum eða verða til fyrir tilstilli veðurfarsins á því svæði sem þau eru staðsett? Hvað ef byggingar framtíðarinnar yrðu til úr þeim efnum sem til staðar eru og umbreyttust í krafti þeirrar orku og þeirra auðlinda sem finna má í nánasta umhverfi þeirra? Hvernig litu náttúrulegustu mannvirki jarðar út, laus við skaðlega námuvinnslu og óendurnýtanlega orkuöflun?
Sums staðar vaxa kristallar, annars staðar vaxa bakteríur og sveppir. Ákeðin efni verða auðveldlega hol og gljúp og mynda hella eða sprungur vegna áhrifa veðurs og vinda, efnabreytinga eða jarðvegshreyfinga. Á slíkum stöðum, og með slíkum efnum, væri ef til vill hægt að „rækta“ mannvirki upp úr jörðinni.
Um er að ræða tilgátuverkefni sem byggir á vísindalegum staðreyndum. Þar sem ekki er búið að þróa alla þá tækni og þær rannsóknir sem þarf til að gera verkefnið að raunveruleika hlýtur það að vera skáldskapur að sinni. Afrakstur tilgátuverkefnisins eru texti og þrívíð módel mannvirkja eða skúlptúrar sem byggja á eftirfarandi tillögum.
PETRI DISKUR
Hringlaga borgin er samsett úr fjölda misstórra hringja. Jarðvegurinn er sífreri sem hlaðinn er riðstraumi og gengur í hringlaga bylgjum, eins og þegar steini er kastað í vatn. Rafstraumurinn orsakast af metani sem verður til sem úrgangsefni örvera sem nærast á efnum í jarðveginum. Íbúar borgarinnar búa á mótum hringjanna vegna þess að við miðju þeirra bráðnar sífrerinn og jarðvegurinn sígur vegna hlýnunar jarðar.Af þessu hlýst óbærileg lykt, eins og af rotnandi eggjum. Yfir miðju hringjanna eru hvelfingar sem safna gasinu sem sleppur úr jarðveginum, bæði til þess að nýta jarðvegsgasið sem eldsneyti en einnig til þess að koma í veg fyrir enn frekari hlýnun jarðar, sleppi það allt út í andrúmsloftið.
Al2O3
Stöðuga borgin er álgrá yfirlitum en yfirbragð hennar breytist með tímanum þegar húðir mannvirkjanna í borginni þykkna og veðrast í fjölmörgum litum. Borgin liggur í landslaginu eins og teppi og íbúar hennar ferðast eftir brautum sem liggja eins og ofnir þræðir, ofan á og undir teppinu. Í regni safnast vatn í dældum teppisins sem síðan er leitt ofan í tanka neðanjarðar. Þar sem útjaðrar borgarinnar þrýstast niður myndast útfellingar úr safír og rúbín í glitrandi röndum sem afmarka borgina. Það er því mikifengleg sýn sem mætir gestum hennar – glansandi veðruð málmborg, umvafin gimsteinum.
PLASMI
Rafhlaðna borgin er borg þar sem orka hleðst upp í lóðréttum bergrásum sem ganga allt að 100 km niður í jarðlögin. Rásirnar virka eins og rafhlöður og þaðan ferðast rafmagnið eftir rafsegullínum sem þjóna öllu landinu. Í miðju borgarinnar er stórt vatn sem virkar sem raflausn. Þegar loftið er rakt mynda brennisteinsgas og efnahvörf járns, sinks og kopars í jarðlögunum rafspennu. Þegar þetta gerist birtast ljós yfir borginni sem ferðast með ólíkum hraða og mis miklu ljósmagni. Stundum láta ljósin lítið yfir sér, eins og svífandi kúlur – stundum dansa þau eins og hvít norðurljós eða blossa sem eldingar.
Kalda borgin er hvít og þurr borg sem hitnar ekki, þó svo að sólin skíni á byggingar hennar. Hlutar hennar veðrast ákaflega og þar er hún söndug, duftkennd og brothætt en aðrir hlutar hennar eru harðir, þar vex borgin eins og kristall og umbreytist í gler. Kristallarnir verða að himinháum turnum sem stingast upp úr sandöldunum sem myndast vegna veðrunarinnar. Þar sem borgin gisnar og stendur lægst er hún grasi vaxin. Þá síast á í gegnum borgina svo vatnið hreinsast af öllum óhreinindum og verður að besta drykkjarvatni landsins. Á þurrum og vindasömum dögum er skyggni lítið og íbúar borgarinnar hylja andlit sín til að koma í veg fyrir að hættulegt duft og ryk sem fýkur allt um kring berist ekki í öndunarfærin.
En hvað eiga þá íslenskir ljósmyndarar að gera? Í fyrsta lagi að gera sér far um að taka myndir sem ekki aðeins sýna hvernig landið og þjóðin lítur út, heldur myndir, þar sem ljósmyndarinn að baki vélarinnar sýnir hvers hann er megnugur. Þetta þurfa ekki að vera stórbrotnar fjallamyndir.1 1 Hjálmar R. Bárðarson, „Listræn ljósmyndun,“ Fálkinn, #40 (1945), 10.
Þetta hafði Hjálmar R. Bárðarson að segja í innsendri grein í Fálkanum árið 1945. Hjálmar var um árabil einn atkvæðamesti áhugaljósmyndari Íslendinga og frumkvöðull á mörgum sviðum. Hann fæddist á Ísafirði árið 1918 en fór snemma að taka ljósmyndir eftir að hafa fengið kassamyndavél í fermingargjöf. Hann tók virkan þátt í skátastarfi en því fylgdu tíð ferðalög þar sem engin vöntun var á myndefni. Þar kynntist hann félögum sem tóku ljósmyndir, skiptust á tækjabúnaði og aðstoðuðu við framköllun. Í skátahreyfingunni stóð til boða að taka ýmis sérpróf. Eitt þeirra var sérpróf í ljósmyndun sem Hjálmar tók.Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1939 fór Hjálmar í fjögurra vikna gönguferð um Vestfirði. Þar tók hann fjölmargar myndir af landslagi og staðarháttum en minna af mannlífi. Hann sá eftir því að hafa ekki tekið fleiri mannlífsmyndir því margir af þeim bæjum sem hann heimsótti lögðust í eyði skömmu eftir ferðina.2 2 Guðrún Harðardóttir & Inga
Lára Baldvinsdóttir, „Viðtöl við ljósmyndara: Hjálmar R. Bárðarson,“ Ljósmyndun á Íslandi 1950–1970, (ritstj./Ed.) Inga Lára Baldvinsdóttir, 51–63 (Reykjavík: Þjóðminjasafnið, 1999), 51. Viðtalið tóku Guðrún Harðardóttir og Inga Lára Baldvinsdóttir 24. júlí 1997. Hjálmar fékk viðtalið til yfirlestrar ásamt aukaspurningum og kaus að auka það og betrumbæta sjálfur á tölvutæku formi.Ári síðar fór Hjálmar með Gullfossi til Kaupmannahafnar en þar hugðist hann læra flugvélaverkfræði. Heimsstyrjöldin síðari var þegar skollin á og siglingin tók tuttugu daga, þar af sat skipið fast í ís í heila tíu daga. Eftir komuna til Danmerkur hóf Hjálmar iðnnám við samsetningar á orrustu- og sprengjuflugvélum í danskri skipasmíðastöð á vegum danska flotans. Iðnnáminu lauk óvænt við hernám nasista þar sem verksmiðjunni var lokað. Þaðan lá leið hans í verkfræðinám við danska tækniháskólann, Danmarks Tekniske Universitet. Hjálmar lauk prófi árið 1947 með skipa og vélaverkfræði sem aðalgrein. Einnig tók hann flugvélaverkfræði sem sérnám. Í tækniháskólanum sat hann námskeið í tæknilegri ljósmyndun en það var eina formlega menntun Hjálmars í faginu.
Á námsárunum leigði Hjálmar herbergi þar sem hann gat framkallað, stækkað og kóperað myndir. Hann tók talsvert af myndum bæði innan dyra og utan. Einnig tók hann þátt í sýningum og hlaut ýmis verðlaun fyrir. Myndir hans voru sýndar í dönskum, sænskum og svissneskum ljósmyndatímaritum.3 3 Ibid., 52.
Hjálmar gerðist félagi í ljósmyndaklúbbum áhugamanna og var virkur þátttakandi. Honum var boðið að ganga í lokaðan ljósmyndahóp, Danske Camera Pictorialister, sem hann þáði. Til að gerast félagi þurfti samþykki annarra meðlima hópsins og þótti það mikil upphefð að hljóta inngöngu. Á vegum hópsins heimsótti Hjálmar félög áhugaljósmyndara víða um Danmörku og flutti erindi. Erfitt var að afla fræðsluefnis um ljósmyndun á stríðsárunum og þess vegna var reynt að svara eftirspurninni eftir því með þessum hætti.Meðal þess sem Hjálmar fjallaði um í erindum sínum var table top ljósmyndun. Það eru kyrralífsmyndir – sviðsmyndir af ýmsum smáhlutum sem komið er fyrir á borði. Þetta voru oft flóknar sviðsmyndir þar sem viðfangsefnin voru af ólíkum toga.4 4 Ibid., 53. Þessi tegund ljósmynda náði nokkurri útbreiðslu þar sem hernámslið Þjóðverja tók víða upp á því að banna ljósmyndatökur utandyra. Table top ljósmyndir var hægt að taka innandyra í myrkvuðum íbúðum en á þessum tíma mátti ekkert ljós berast frá húsum vegna hættu á loftárásum. Gefin var út bók á dönsku eftir Hjálmar um þessa tegund ljósmyndunar. Annað sem Hjálmar fjallaði um og sýndi var það sem hann kallaði myndræna ljósmyndun. Það eru ljósmyndir sem hann taldi áhugaverðar vegna mynduppbyggingar í formi, línum og tónum.5 5 Ibid., 54. Í innsendri grein í Fálkanum, þeirri sömu og vitnað er í hér að ofan, gerir Hjálmar grein fyrir reglum sem hann taldi einkenna góðar ljósmyndir. Svo dæmi sé tekið ætti alltaf að forðast að láta miðlínu skipta ljósmynd í tvo jafnstóra fleti.6 6 Hjálmar R. Bárðarson, „Listræn ljósmyndun,“ 10.Eftir námslok starfaði Hjálmar sem skipaverkfræðingur á hönnunardeild skipasmíðastöðvar í Helsingør. Hann kom að hönnun stórra farþegaskipa sem sigldu á áætlun milli Álaborgar og Kaupmannahafnar. Hjálmar flutti heim til Íslands árið 1948, með viðkomu á Englandi, þar sem hann kynnti sér smíði lítilla stálskipa. Hann hóf störf í Stálsmiðjunni þar hann hannaði fyrsta stálskip sem smíðað var á Íslandi, dráttarbátinn Magna. Hann sinnti ljósmyndun áfram og kom að stofnun Félags áhugaljósmyndara, þar sem hann hélt erindi um myndræna ljósmyndun.7 7 Guðrún Harðardóttir & Inga Lára Baldvinsdóttir, “Viðtöl við ljósmyndara,” 56.Mest myndaði Hjálmar í svarthvítu en árið 1942 hóf hann tilraunir með litmyndir. Síðan þá myndaði hann í svarthvítu og lit jöfnum höndum, en eftir því sem leið á urðu litmyndirnar fyrirferðarmeiri. Hann taldi svarthvítar myndir eiga fullan rétt á sér og taldi þær falla vel inn í heild ásamt litmyndum. Svarthvítar ljósmyndir sagði hann oftast falla vel að hvaða litmynd sem er, á meðan hann taldi oft erfitt að láta tvær litmyndir standa saman án þess að spilla hvor fyrir annarri.8 8 Ibid., 60.Hjálmar stóð sjálfur að útgáfu eigin ljósmyndabóka að fyrstu bók sinni undanskilinni, Ísland farsælda frón, sem hann gaf út í samstarfi við prentsmiðjuna Lithoprent. Hann skrifaði ætíð alla texta sjálfur og braut þar að auki um bækurnar. Hann fékkst við ýmis viðfangsefni í bókunum, jarðfræði, jöklafræði, steinafræði, þjóðfræði og sögu svo fátt eitt sé nefnt.9 9 Ibid. Ljósmyndir hans einskorðuðust þó alls ekki við þessi viðfangsefni. Best er að Hjálmar fái að eiga síðustu orðin um nálgun sína: „Oft er[u] það ómerkileg[u]stu og mest lítilsvirtu hlutir, sem geta gefið bestu verðlaunamyndirnar.“10 10 Hjálmar R. Bárðarson, „Listræn ljósmyndun,“ 10.
Það er sunnudagseftirmiðdegi í september og það ætti engan að furða að það rignir í Reykjavík. Ég geng niður Laugaveginn á leiðinni á kaffihús til þess að skrifa þessa grein þegar ég tek eftir regnhlíf hinum megin við götuna. Regnhlífin er röndótt með rauðum og svörtum flötum og á svörtu flötunum er röð af þremur hvítum skásettum krossum. Ég ber samstundis kennsl á hönnunina án þess að þurfa að lesa það sem stendur við hliðina á krossinum: AMSTERDAM. Hönnunin á regnhlífinni vísar ekki í eitt af alræmdustu hverfum borgarinnar eins og einhver kynni að halda, heldur er þvert á móti um ákveðna útfærslu á fána borgarinnar að ræða. Ég þýt yfir götuna til þess að ná hlutnum á mynd og furða mig á þeirri tilviljun að umfjöllunarefni þessarar greinar skuli einmitt birtast í næsta nágrenni við mig, á þessari sérstæðu regnhlíf á þessu rigningarsunnudags- eftirmiðdegi í Reykjavík.
Í okkar hnattvædda nútímasamfélagi þjóna fánar fjölbreyttum tilgangi ásýndarsköpunar; fánar eru notaðir af stjórnvöldum og þjóðríkjum á alþjóðasviðinu, þeir eru notaðir til að tákna tungumálamöguleika á vefsíðum, til auðkenningar stjórnmálaskoðana, þjóðernis, trúarbragða eða stofnana, þeir tákna uppruna og stolt, standa fyrir ólíka þjóðfélagshópa og svo mætti lengi telja. Við erum vön fjölbreyttri notkun fána og flestir þekkja fjöldann allan af fánum og geta áttað sig á merkingu þeirra undir eins. Það er af mörgu að taka þegar fjallað er um fána sem tákn út af fyrir sig en það er líka áhugavert að skoða fána í samhengi ásýndarsköpunar og þess hvernig hönnun þeirra öðlast ólíkar birtingarmyndir án þess að merkingin glatist. Þetta er raunar mikilvægt atriði í sögu fána vegna þess að fánar komu ekki fullskapaðir fram á sjónarsviðið með þeim hætti sem við þekkjum í dag heldur þróuðust þeir úr öðrum miðlum.
FÁNI AMSTERDAM
Leiðum aftur hugann að fána Amsterdam. Opinberi fáninn, sem hönnun regnhlífarinnar byggir á, var formlega tekinn í notkun í febrúar árið 1975.11 11 „Amsterdam (The Netherlands),“ Flags of the World, (u.) 11. 11. 2017, fotw.info/flags/nl-amsdm.html. Þá þegar hafði hann verið notaður um þó nokkra hríð og hann má til að mynda sjá á veggspjaldi fyrir Ólympíuleikana sem haldnir voru í borginni árið 1928. Hönnun fánans rekur rætur sínar aftur á móti lengra aftur, allt til sextándu aldarinnar þegar skjaldarmerki Amsterdamborgar kom til sögunnar. Uppruni skjaldarmerkisins er óþekktur, en svo mikið er víst að krossarnir þrír á skildinum skírskota til sjómannsins og píslarvættarins heilags Andrésar 12 12 „Decoding Amsterdam’s City Symbols,“ Iamsterdam, (s./a.) 24. 11. 2018, iamsterdam.comz/en/about-amsterdam/overview/history-and-society/city-symbols. en hinn svokallaða kross heilags Andrésar má einnig sjá í skoska þjóðfánanum. Krossarnir þrír hafa orðið að auðkennum Amsterdamborgar, eins og rætt verður síðar í þessari grein.
Hönnun fánans sem notaður er í dag þekkja margir og fáninn hefur til að mynda verið kallaður „harðasti fáni í heiminum“.13 13 Roman Mars, „Why City Flags May be the Worst-Designed Thing You’ve Never Noticed,“ TED (vid. 18:19), 14.5.2015, ted.com/talks/roman_mars_why_city_flags_may_be_the_worst_designed_thing_you_ve_never_noticed, 10:22. Aftur á móti hefur nokkrum ólíkum útfærslum af fána Amsterdamborgar verið flaggað í gegnum aldirnar en allar hafa þær dregið dám af hönnun skjaldarmerkisins, bæði með tilliti til litavals og hönnunarþátta. Borgarfáninn sem nú er notaður er breyttur gunnfáni. Í fánanum er skjaldartáknið úr skjaldarmerkinu notað óbreytt nema að því er snúið um níutíu gráður svo það sitji rétt á ferköntuðum fána. Notkun bæði fánans og skjaldarmerkisins er algeng í borginni og þessi auðkenni Amsterdam hafa vakið athygli utan landsteina Hollands. Það stafar meðal annars af mikilli notkun myndmálsins á minjagripum borgarinnar sem seldar eru ferðamönnum, eins og til dæmis regnhlífinni sem minnst var á hér að ofan.
SAMÞÆTT SAGA FÁNA
OG SKJALDARMERKJAFRÆÐA
Mannfólkið hefur lengi notast við hluti sem líkjast fánum til auðkenningar, sér í lagi í hernaði, en það var á tólftu öld sem fánar eins og við þekkjum þá í dag komu til sögunnar í Vestur-Evrópu. Upphafið að notkun þeirra er almennt talið stafa af tvennu. Annars vegar aukinni skipaverslun og mikilvægi þess að auðkenna uppruna skipa og hins vegar notkun á fánum í krossferðunum og á hinu svokallað riddaratímabili. Fánarnir þróuðust samhliða tilkomu og auknum vinsældum skjaldarmerkjafræða í Evrópu. Skjaldarmerkjafræðin fjölluðu, eins og nafnið gefur til kynna, um merki sem byggðu á notkun skjalda með skreytingum og íburði og voru aðallega notuð af aðalsfólki. Skjaldarmerkjafræðin höfðu umtalsverð áhrif á hönnun fána, fánafræði er talin hafa þróast á grundvelli skjaldarmerkjafræðinnar og „táknrænn áhrifamáttur [fána, byggir] að einhverju leyti á einfaldleika, skýrleika og frumleika litavals og hönnunar í skjaldarmerkjafræðum.”14 14 Gabriella Elgenius, „The Origin of European National Flags,“ Flag, Nation and Symbolism in Europe and America, (ritstj./Eds.) Thomas Hylland Eriksen & Richard Jenkins (London: Routledge, 2007), 19.
Fyrst um sinn voru gunnfánar algengir, þar sem hönnunin á skjaldartákninu er færð óbreytt af skildinum og yfir á ferkantaðan fána. Elstu skjaldarmerkin voru einföld og þau var auðvelt að yfirfæra á fána. Aftur á móti skapaðist hefð fyrir því innan skjaldarmerkjafræðinnar að bæði sameina og fjórskipta skjöldum, sem leiddi til sífellt flóknari skjaldarmerkja. Þar að auki stóðu skjaldarmerkjafræðin í afskaplega sterkum tengslum við aðalsstéttirnar. Þar af leiðandi var gjarnan kosið að sniðganga hina hefðbundnu gunnfána og nota fremur nútímalegri og hlutlausari hönnun þegar fyrstu þjóðríkin komu fram á sjónarsviðið undir lok átjándu aldarinnar og þar með jafnframt fyrstu raunverulegu þjóðfánarnir.15 15 Ibid.
Í dag er sjaldgæft að sjá skjaldarmerki notuð á þjóðfánum. Þau eru mun oftar notuð á vettvangi innanríkismála. Aftur á móti er algengt að fánar byggi á einkennislitum skjaldarmerkja, sér í lagi í Evrópu. Slíkir fánar eru yfirleitt þverröndóttir og teiknaðir í aðallitum skjaldarmerkisins. Stundum er skjaldarmerkinu bætt ofan á rendurnar í slíkum fána. Einnig er notkun skjaldarmerkisins undir þeim kringumstæðum gjarnan háð því hvort verið sé að nota fánann á alþjóðlegum vettvangi eða á innanríkisvettvangi.16 16 Alfred Znamierowski, The World Encyclopedia of Flags (London: Lorenz Books, 2016), 120. Þjóðfáni Albaníu til að mynda ber svartan tvíhöfða örn á rauðum grunni, og byggir á skjaldarmerki Kastrioti fjölskyldunnar.17 17 Ibid, 156. Borgaralegur hakafáni landsins er aftur á móti aðeins í einkennislitum skjaldarmerkisins og sýnir svarta rönd á rauðum fleti.
Áhrif skjaldarmerkjafræða á fánahönnun eru umtalsverð og það á sérstaklega við um reglur um litaval. Í skjaldarmerkjafræðum er grunnlitunum skipt upp í tvo flokka, málma og liti. Tveir litir úr sama flokki mega ekki raðast saman. Hvítur (einnig „argent“ sem merkir silfur á frönsku) og gulur (einnig „or“ sem merkir gull á frönsku) eru skilgreindir sem málmar en allir aðrir litir eru einfaldlega litir. Reglurnar um litaval leiddu til þróunar á aðferð sem kallast brydding. Þá er þunn lína úr gagnstæðum flokki notuð til að aðskilja tvo liti eða tvo málma.18 18 Michel Pastoureau, Heraldry: Its Origins and Meaning, (þýð./Trans.) Francisca Garvie (London: Thames and Hudson, 1997), 44. Þessi aðferð skerpir á andstæðum, eykur sýnileika og er mikið notuð í fánahönnun í dag – sem og almennt í hönnun. Þetta á til dæmis við hönnun umferðarmerkja, þar sem hvítur eða gulur eru notaðir til að leggja áherslu á mikilvægar upplýsingar. Aukinheldur er aðgreiningin á myndflötum sem notuð er í skjaldarmerkjafræði algeng í fánahönnun, sem og almenn viðmið um staðsetningu og stefnu tákna (forma eða táknrænna merkja) sem birtast á fánum.
FIRMAMERKI OG VÖRUMERKIÐ
KOMA TIL SÖGUNNAR
Aðferðir til að tákna og auðkenna eru stöðugt að þróast, einn miðill lætur undan síga þegar nýr miðill sem sniðinn er að ákveðnum tilgangi kemur til sögunnar. Í dag eru skjaldarmerki og fánar gjarnan skoðuð með hliðsjón af því hvað þau tákna og hvernig þau skuli nota. Skjaldarmerki eru oft notuð af opinberum aðilum, svo sem ríkisstjórnum. Þau verður að skoða í návígi svo að smáatriðin í hönnuninni séu skýr og greinileg. Fánar eru aftur á móti gjarnan notaðir til að auðkenna hópa fólks og eru hannaðir þannig að þeir séu greinanlegir þó þeir blakti og séu langt í burtu.19 19 Mars, „Why City Flags May be the Worst-Designed Thing You’ve Never Noticed.“ Í síðnútímanum kom síðan þriðja aðferðin til auðkenningar til sögunnar; fyrirtækja- og vörumerkin. Samfélög dagsins í dag eru gegnsýrð af ásýnd og myndmáli fyrirtækja og stofnana, en nú nýverið hafa borgir, og í minna mæli lönd, bæst í hópinn, til dæmis með því að taka upp firmamerki eða auðkennandi leturgerðir.
Amsterdam er hér aftur nærtækt dæmi. Snemma á fyrsta áratug þessarar aldar var ákveðið að endurmarka (e. rebrand) borgina. Nær sextíu stjórnvaldsstofnanir voru færðar undir eitt firmamerki og staðlaða hönnun. 20 20 „EDEN DESIGN & THONIK: Gemeente Amsterdam,“ Dutch Design Awards, (s./a.) 24. 11. 2018, dutchdesignawards.nl/en/gallery/communication/gemeente-amsterdam. Á firmamerkinu eru þrír rauðir krossar heilags Andrésar, sem eru aðlagaðir úr bæði skjaldarmerkinu og fánahönnuninni. Auk þess urðu aðallega rauður, hvítur og svartur fyrir valinu í litapallettunni, en þeir litir vísa einmitt til fánans. Þar af leiðandi eru þrjú ólík en skyld merki sem auðkenna Amsterdamborg, íbúa hennar og stjórnsýslu; skjaldarmerkið gegnir bæði sögulegu hlutverki ásamt því að skipa ákveðinn heiðurssess, fáninn er síðan tákn sem íbúar og gestir borgarinnar geta sameinast um og fagnað undir og loks skapar firmamerki borgarinnar sterkan heildarsvip fyrir áður brotakennda stjórnsýslu.
Nýverið var Wales endurmarkað með svipuðum hætti. Ætlunin var að draga „saman ólíka anga og skapa „lím“ sem sameinað gæti bæði hina merku þjóð og áfangastaði Wales; með stafrænum, efnislegum og menningarlegum hætti.“21 21 „Brand Wales,“ Smörgåsbord, smorgasbordstudio.com/projects/brand-wales. Velski þjóðfáninn liggur til grundvallar hinni nýju ímyndarsköpun Wales. Fáninn er tvílitur, hvítur og grænn og sýnir rauðan dreka, landvættinn Y Ddraig Goch. Drekinn, sem er „holdgervingur velsku þjóðarinnar, bæði á landsvísu og á alþjóðavettvangi,“22 22 „Brand Wales,“ Smörgåsbord (vid. 3:05), smorgasbordstudio.com/projects/brand-wales, 0:38. var teiknaður upp á nýtt og endurmótaður í stílhreinu og nútímalegu firmamerki fyrir landið. Firmamerkið, auk sérstakrar leturgerðar, skapar þjóðinni sterka ásýnd. Eitt af markmiðunum með þessu nýja vörumerki var að gera Wales sýnilegra á internetinu, sem tókst vel. Það varpar ljósi á mikilvægar hliðar í notkun á þjóðtáknum í nútímanum.23 23 „Brand Wales.“
Hinir hnattrænu og stafrænu tímar sem við nú lifum hafa skapað nýjan samskiptavettvang. Þessi vettvangur kallar á nýjar leiðir til að hugsa og krefst mögulega yfirfærslu tákna og ásýndar þjóðarinnar á nýja miðla, sem henta bæði hinum efnislega og hinum stafræna heimi vel. Aftur á móti, eins og einn af hönnuðunum á bak við velska vörumerkið bendir á, þá eru stjórnvöld sjaldnast mjög hrifin af því að vera talin spreða „ótæpilega“ í mörkun þjóðarinnar þegar peningarnir gætu verið að fara í aðra hluti, þrátt fyrir kostina sem fylgja því að hafa sterka ásýnd.24 24 Sarah Dawood, „Wales Given New Place Branding to ‘Do the Country Justice,’“ Design Week, 1. 2. 2017, designweek.co.uk/issues/30-january-5-february-2017/wales-given-new-place-branding-country-justice.
FÁNAR HAFA
ÁHRIF Á MYNDMÁL
Á meðan þróun firmamerkja og vörumerkja fyrir þjóðir og stofnanir innan ríkisins eru ef til vill enn á byrjunarstigi, þá eiga flestar þjóðir óopinbert myndmál sem dregur dám af fánanum eða skjaldarmerkinu. Slíkt myndmál kann að verða til með tilviljanakenndum hætti en sameiginleg uppspretta þess skapar ákveðið samhengi. Fána má afbyggja allt niður í hráa grunnþætti, sem síðan má endurraða og umbreyta á algjörlega nýjum forsendum án þess að glata anda hinnar upprunalegu fánahönnunar. Tökum sem dæmi hinn stirnda og þverröndótta bandaríska fána og það hversu auðvelt er að miðla anda Bandaríkjanna með réttri notkun á stjörnum og röndum í réttum litum.
Íþróttabúningar eru ef til vill bestu dæmin sem við höfum um það hvernig grunnþættir í fánum öðlast nýjar birtingarmyndir. Á alþjóðlegum íþróttaviðburðum eins og Ólympíuleikunum eða heimsmeistarakeppninni í fótbolta keppir íþróttafólk fyrir hönd þjóða sinna í liðsbúningum sem hannaðir eru á grundvelli þjóðfánans eða undir áhrifum frá litum og stefjum sem þar er að finna. Þetta er að sjálfsögðu ekki almenn regla og það má nefna ýmsar áhugaverður undantekningar. Hollenskt íþróttafólk, svo dæmi sé tekið, er gjarnan klætt appelsínugulum sem ekki er að finna í þjóðfána landsins en er aftur á móti táknrænn fyrir hollensku konungsfjölskylduna sem er af Óraníuættinni.25 25 „Why the Dutch Wear Orange,“ Dutch Amsterdam, (s./a.) 24. 11. 2018, dutchamsterdam.nl/321-why-the-dutch-wear-orange. Hollenski þjóðfáninn er raunar tilbrigði við Prinsenvlag, appelsínugula, hvíta og bláa þverröndótta fánann sem prinsinn af Óraníu hóf að nota árið 1572.26 26 „Dutch flags,“ I Am Expat, (s./a.) 24. 11. 2018, iamexpat.nl/expat-info/the-netherlands/dutch-flags.
Líkt og Hollendingar eru Nýsjálendingar og Ástralir einnig með bláa, rauða og hvíta þjóðfána á meðan íþróttabúningar landsliðanna eru svartir (Nýja-Sjáland) og grænir og gulir (Ástralía). Í báðum löndum hefur nýverið staðið yfir mikil umræða um endurnýjun þjóðfánanna með það fyrir augum að uppræta nýlenduáhrifin sem fólgin eru í tengslum við breska fánann. Þjóðarlitirnir sem notaðir eru í keppnisbúningum landanna hafa þá gjarnan skotið upp kollinum í tillögum að hönnun á nýjum fánum.27 27 Jakob Sturla Einarsson, „Let’s Run it up the Flagpole…“: The Symbolism of Flags and a Democratic Attempt to Design One, (leiðb./Superv.) Marteinn Sindri Jónsson (ritg./Thes. BA, Listaháskóli Íslands, 2017),skemman.is/handle/1946/30990. Sú staðreynd varpar ljósi á það hvernig myndmál þjóðarinnar sem verður til á ólíkum miðlum og í ólíkum kimum menningarinnar getur haft áhrif á hönnun fánans – rétt eins og hönnun fánans hefur áhrif á ásýnd þjóðarinnar. Þetta á ekki aðeins við um keppnisbúninga landsliða. Til dæmis klæðast leikmenn fótbolta liðsins PSV Eindhoven treyjum með rauðum og hvítum röndum sem eru áberandi í fána Eindhoven og lið Maryland Terrapins klæðist ekki aðeins búningum í fánalitum ríkisfána Marylandfylkis heldur er fáni Maryland hreinlega prentaður á hjálma leikmanna.
Firmamerki er annar miðill þar sem oft má greina áhrif frá fána eða skjaldarmerki. Hið gula og bláa firmamerki IKEA – sem og öll ytri ásýnd verslunarinnar ef út í það er farið – þiggur liti sína beint úr sænska þjóðfánanum sem blaktir við hún utan við verslanir keðjunnar og gefur sænskan uppruna fyrirtækisins til kynna með stolti. Ef við viljum leita fanga hérlendis þá mætti til dæmis nefna Íslandsstofu sem notar ekki aðeins útlínur Íslands í firmamerki sínu heldur einnig íslensku fánalitina – með skírskotun í rendurnar í krossinum á fánanum. Fánalitirnir eru sömuleiðis mikilvægir í hönnun sem tengist hundrað ára afmæli íslensks fullveldis. Þá má vel koma auga á stílfærðar öldurnar í skjaldarmerki Reykjavíkurborgar, í nokkrum firmamerkjum á vegum borgarinnar svo sem Tjarnarinnar Frístundamiðstöðvar og Reykjavíkur: Bókmenntaborgar UNESCO. Með notkun á þáttum úr merkjum sem þegar eru til staðar má styrkja hugrenningatengsl við það sem táknað er með merkinu og skapa þannig ákveðna heild.
Möguleikarnir á því að endurhugsa fána virðast nánast óendanlegir. Bandaríska flugvélagið Southwest rekur fjölda flugvéla í sérstökum einkennislitum fylkisfána. Svipuð tilraun var gerð þegar fyrirtækið Icelandair afhjúpaði flugvél í íslensku fánalitunum sem flytja átti íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á heimsmeistarakeppnina í fótbolta í Rússlandi árið 2018. Stutt leit á Google leiðir í ljós vinsældir sokka og annars fatnaðar með fánaívafi – varnings sem brýtur jafnvel fánalög í mörgum löndum. Það liggur í augum uppi að fánar, sem áður þjónuðu aðallega til auðkenningar á vígvellinum og í siglingum, hafa orðið að einhverju miklu stærra en upphaflega stóð til.
Í rannsóknum mínum á fánum á síðastliðnum árum hef ég stundum hitt fólk sem spyr hvort fáninn sem hlutur og tákn sé ekki að verða úreltur í samtímanum. Eins og kann að vera ljóst af lestri þessarar greinar þá er ég afskaplega ósammála slíkum hugleiðingum og trúi því fremur að við stöndum á ákveðnum tímamótum hvað notkun og birtingarmyndir fána varðar. Ég efast um að samfélagið hætti nokkurn tímann alveg að nota fána, þeir eru sem stendur svo allsráðandi á heimsvísu. Aftur á móti tel ég að þær aðferðir sem borgir og ríki nota til að auðkenna sig muni halda áfram að þróast og leiða af sér myndmál sem framlengir fánann, felur hann í sér eða eykur við hann, rétt eins og fáninn var áður viðauki við skjaldarmerkin sem öllu réðu. Hvað sem öðru líður þá tel ég engan vafa leika á því að borgarar, stofnanir og ríkisstjórnir muni halda áfram að verða fyrir áhrifum af fánunum sínum og endurraða grunnþáttum þeirra til að skapa nýjar birtingarmyndir.
Fánar munu halda áfram að skjóta upp kollinum á ólíklegustu stöðum. Skammt frá þeim stað þar sem ég kom auga á regnhlífina á Laugavegi vakti lítill límmiði utan á rafmagnskassa athygli mína. Þetta var fáni Colorado en C-ið í fánanum var notað sem upphafsstafur orðsins cultivate í auglýsingu fyrir fyrirtæki sem selur garðyrkjubúnað. Ég velti því fyrir mér afhverju og hvernig þessi límmiði rataði á rafmagnskassa í miðbæ Reykjavíkur en þegar upp er staðið skiptir það í raun og veru ekki máli. Ég hef einfaldlega áhuga á því með hversu fjölbreyttum hætti megi umbreyta fánahönnun til að skapa grundvöll fyrir sjálfstætt myndmál.