Inngangur


Tímarit hönnunar- og arkitektúrdeildar er gefið út í tíunda skipti og að þessu sinni afmarkar hugtakið trans þema tímaritsins. Hugtakið vísar gjarnan til aðgerða sem fara þvert á eitthvað, eða í gegnum eitthvað. Þannig ferðast Síberíuhraðlestin (e. Trans-Siberian) þvert og endilangt eftir því landsvæði sem kallast Síbería en aftur á móti merkir hugtak á borð við þverfagleiki (e. trans-disciplinarity) að verið sé að fara handan einstakra faggreina. Orðið getur tengst breytingum (e. transformation) og umbreytingum á borð við það þegar laglínur í tónlist eru fluttar á milli tóntegunda (e. transposition). Hugtakið er svo sannarlega til staðar í samgöngum (e. transport) og sendingum af ýmsu tagi (e. transfer). Orðið sjálft, trans hefur leikið lykilhlutverk í því að skilgreina breytileika kynvitundar og það er raunar á þessu merkingarsviði, frekar en nokkru öðru sem hugtakið hefur skotið rótum í íslenskri tungu. Hugtakið er gjarnan notað í samhengi helgisiða þar sem fólk skynjar eitthvað utan eða handan við hversdagslegan veruleika í leiðslu (e. trance), það tengist því að fara yfir strikið í fjölmörgum skilningi þess orðs (e. transgress) og svo er þau auðvitað lykilatriði í þýðingum (e. translation). Þessi upptalning er langt í frá tæmandi en ýmsir merkingarmöguleikar hugtaksins trans koma við sögu í þeim greinum og umfjöllunum sem hér er að finna.

Í grein sinni „Handan flagga: Þýðingar á táknheimum þvert á miðla“ skoðar Jakob Sturla Einarsson það hvernig táknkerfi og fagurfræði fána er hvergi nærri á undanhaldi í samtímanum, heldur leggja þau þvert á móti undir sig bæði stafræna miðla sem og efnishluti á borð við regnhlífar og derhúfur og stuðla þannig enn sem fyrr að samkennd þeirra hópa sem sameinast undir því flaggi sem vísað er til. Textinn byggir á rannsóknum Jakobs á sögu og táknfræði fána sem hann skrifaði um í ritgerð sinni til BA-prófs „Let’s run it up the flagpole…“: The Symbolism of Flags and a Democratic Attempt to Design One sem og á útskriftarverkefni hans Byggðarfánar: Fánar fyrir íslensku sveitarfélögin.

Þorgeir K. Blöndal skrifar um táknfræði haturstákna í grein sem einnig byggir á ritgerð hans til BA-prófs, Ímynd hakakrossins: Ævafornt tákn verður fyrir barði illskunnar. Í greininni sem hér er prentuð, „„Saga verður náttúra“: Táknfræði haturs,“ rekur Þorgeir sögu þessarar merkingarþrungnu táknmyndar og leiðir í ljós hvernig þýðing hennar hefur ferðast og flakkað í gegnum tíðina þar til á tuttugustu öld þegar ein, algild merking leggur undir sig táknmyndina.

Greinin „Bleikur!: Kúvending, niðurlæging, valdefling“ sem Stefanía Emilsdóttir og Hjördís Laufey Lúðvíksdóttir ritstýrðu upp úr ritgerð Eddu Karólínu Ævarsdóttur til BA-prófs, Bleikur: Saga, merking, notkun, er á afar svipuðum slóðum. Greinin fjallar um merkingarflakk litarins og þýðingu hans í gegnum tíðina, meðal annars í snertingu við hugmyndir um kynhlutverk, kyngervi og kynjahugmyndir vestrænnar menningar.

Bleikur kemur einnig við sögu í greininni „Milli Mars og Venusar: Grafísk hönnun í réttindabaráttu kynsegin fólks.“ Þar rannsaka þær Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir og Rán Ísold Eysteinsdóttir táknfræði handan kynjatvíhyggju og ræða sögu og uppruna sameiningartákna trans og kynsegin fólks þar sem kynjalitirnir bleikur og blár eru settir í nýtt samhengi, sem og fjölmörg önnur tákn sem táknað hafa kyn og kyngervi í gegnum söguna.

Þá tekur við myndaþáttur með myndum frumkvöðulsins og áhugaljósmyndarans Hjálmars R. Bárðarsonar. Kjartan Hreinsson safnaði myndunum og skrifaði textann. Hjálmar, sem fæddist árið 1918, var vel staðsettur til að ljósmynda þær breytingar sem urðu þegar nútíminn hóf innreið sína fyrir alvöru á Íslandi.

Halldór Jóhann Gunnarsson fæst við það í greininni „Andrými“ hvernig samnefnt fyrirbæri tekur sér bólfestu í ólíkum miðlum, húðflúrum, leturfræðum, tónlistum og lífslistum. Andrýmið er gjarnan svo að segja ósýnilegt eða gegnsætt (e. transparent), það skapar mótvægi við hið sýnilega, áþreifanlega eða heyranlega viðfangsefni – það er í einhverjum skilningi andstæða þess sem er, en þó svo óendanlega mikilvæg forsenda þess að eitthvað birtist yfirhöfuð.

„Áferð“ er heitið á grein sem unnin er í nánu samstarfi Kolbeins Jara Hamíðssonar og Marteins Sindra Jónssonar. Árið 1928 sendi leturhönnuðurinn Frederic W. Goudy frá sér leturgerðina Goudy Text sem er sérlega markverð fyrir þær sakir að henni fylgir aukagerð af hástöfum í leturgerð Langbarða. Langbarðahástafir ganga enn og aftur í endurnýjun lífdaga, nú í myndlýsingum Kolbeins við greinina.
Leturfræðin eru síðan í algleymingi í grein Elínar Eddu Þorsteinsdóttur sem byggð er á samnefndri ritgerð hennar til BA-prófs Jafnlangar línur: Saga og staða aljöfnunar og vinstrijöfnunar frá miðöldum til síðnútímans. Um er að ræða sögulega umfjöllun sem fjallar um umbreytingar og þýðingar í þversögulegu og þverfaglegu samhengi. Auk þess að gera fagurfræði aljöfnunar söguleg skil færir Elín Edda sannfærandi rök gegn notkun hennar í samfelldum texta þar sem hún reynist mörgum lesendum fjötur um fót.

Í tilgátutextunum „Umbreytingar: Fjórar framtíðarborgir“ starfar Arnhildur Pálmadóttir arkitekt að hönnun ímyndaðra borga sem allar eiga það sameiginlegt að umbreyta nærumhverfi sínu í efnivið og auðlindir. Myndskreytingar Atla Sigursveinssonar prýða textana.
Umbreyting á náttúrulegum efnum er útgangspunkturinn í verðlaunaverkefni vöruhönnuðanna Elínar Sigríðar Harðardóttur og Ingu Kristínar Guðlaugsdóttur Lúpína í nýju ljósi: Lífrænt hráefni í umhverfisvæna afurð sem Rán Ísold Eysteinsdóttir fjallar um í myndaþættinum „Lúpína: Dauði og endurfæðing.“ Nýnæmið í rannsóknum Elínar og Ingu er fólgið í uppgötvun á ýmsum trefjaeiginleikum þessarar umdeildu plöntu, sem lagt hefur undir sig mikið af íslensku landslagi síðan hún var flutt inn til að sporna við gróðureyðingu á fimmta áratugnum.

Massimo Santanicchia fagstjóri í arkitektúr færir rök fyrir mikilvægi þess að nemendur læri yfir strikið eins og komist er að orði, að háskólar og aðrar menntastofnanir hafi það að leiðarljósi að mennta ábyrga samfélagsþátttakendur sem séu í stakk búnir til þess að nýta sér menntun sína til að knýja á um umbætur í samfélaginu, sem verða oft ekki fyrr en einhverjir eru tilbúnir að fara yfir þau strik sem samfélagið hefur dregið í sandinn.

Bryndís Björgvinsdóttir lektor á fræðasviði hönnunar- og arkitektúrdeildar fjallar um nokkur útskriftarverkefni af námsbraut vöruhönnunar í greininni „„Af jörðu ertu kominn“: Helgisiðir í verkum vöruhönnuða.“ Þar beitir Bryndís kenningum Richards Schechner um sviðsetningar og greinir það hvernig helgisiðir og helgiathafnir í skilningi Schechners virðast spila stórt hlutverk í útskriftarverkum Ara Jónssonar, Margrétar Örnu Vilhjálmsdóttur, Bjarma Fannars Irmusonar og Ólafar Sigþórsdóttur sem öll útskrifuðust af braut vöruhönnunar vorið 2018.
Í greininni „Að hanna þýðingar“ fjallar Marteinn Sindri Jónsson um verkefni úr smiðju Garðars Eyjólfssonar, fagstjóra MA náms í hönnun og Thomasar Pausz lektor við deildina en þeir Garðar og Thomas skipulögðu breytingar á meistaranámi deildarinnar sem fengið hefur undirtitilinn Explorations and Translations og mætti útleggja á íslensku sem Könnunarleiðangrar og þýðingar. Marteinn Sindri dregur fram snertifleti verkefnanna við kenningar bandaríska heimspekingsins Donnu Haraway – Thomas fæst við að leysa upp hugmyndir okkar um tegundir og Garðar gerir tilraunir með frásagnaraðferðir um framtíð okkar – en hvoru tveggja eru viðfangsefni Haraway í gagnrýni hennar á hugmyndina um hina svokölluðu mannöld.

Hið mannlega og það sem kann að leynast í framtíð okkar er einnig að veði í síðustu greininni í blaðinu, „Skyn: Handan eiginheimsins“ eftir Lilju Björk Runólfsdóttur sem útskrifaðist af námsbraut í grafískri hönnun vorið 2018. Þar rannsakar hún skynjun okkar í ljósi hugtakaforða líffræðingssins Jakob von Uexküll og veltir upp áleitnum spurningum um ábyrgð okkar í heimi sem víkkar sífellt út möguleika okkar til skynjunar.

Nemendur á þriðja ári í grafískri hönnun eiga veg og vanda að hönnun blaðsins í samstarfi við kennara og ritstjórn. Við viljum þakka kærlega öllum höfundum efnis og óska lesendum góðrar skemmtunar.

Skyn

Skilningarvitin eru lykilatriði þegar kemur að hugsunum okkar og atferli. Þau færa okkur eiginheiminn; eina ytri veruleikann sem við getum vitað að sé til. Hugmyndin um eiginheiminn var kynnt til sögunnar snemma á tuttugustu öld af líffræðingnum Jakob von Uexküll. Hann vildi meina að ólíkar lífverur í sama vistkerfi greindu ólík merki úr umhverfinu. Hver þeirra á því sinn eigin eiginheim, sem Uexküll kallaði „Umwelt“, en deilir tilvist í sameiginlegum ytri heimi, „Umgebung“. Þar skarast eiginheimar allra lífvera sem ferðast um, tengjast og eiga samskipti sín á milli.1 1 Eero Tarasti, Existential Semiotics (Bloomington: Indiana University, 2000), 38.

Það má gera ráð fyrir að heimurinn í sinni víðustu mynd sé gjörólíkur eiginheiminum sem er alfarið mótaður af skynjun okkar. Heimurinn er þá í raun eins og risavaxin stærðfræðijafna þar sem allt er afstætt og ótal eiginheimar ólíkra lífvera skarast. Hver lífvera upplifir eingöngu það sem skynfæri hennar segja henni og gengur út frá því að það sé allt sem er. Við mannfólkið höfum að vísu sterkar grunsemdir um að skynjun okkar á heiminum afhjúpi aðeins lítið brot. Tækniþróun síðustu alda hefur rennt stoðum undir slíka skoðun þar sem manngerð tæki hafa í auknum mæli framkallað fyrirbæri sem við nemum ekki sjálf með beinum hætti. Sú þróun er enn í veldishlöðnum vexti og í raun má segja að við séum með þessum hætti að framlengja skynfæri okkar. Við búum til tæki sem skynja fyrir okkur og stækkum þar með eiginheiminn. En hefur næmi okkar, vilji og meðvitund vaxið út í þennan nýja eiginheim?

NÆMIÐ

Við ferðumst gegnum ævi okkar sem gangandi frumeindaklasar sem skynja og bregðast við til skiptis. Skynfærin nema afmörkuð brot af umhverfinu og miðla skilaboðum eftir taugakerfinu. Heilinn tekur við boðunum, púslar upplýsingunum saman og gerir þær eins skilmerkilegar og mögulegt er. Í framhaldinu kemur síðan viðbragð. Við tökum inn brotin sem við nemum, vefum þau saman við áður skynjuð brot og skilum þeim gjarnan aftur út í einhverju formi. Myndir, ljós, lykt, hiti, áferð, hljóð eða orð. Allt mögulegt getur verið efniviður fyrir vefnaðinn.

Sumir telja að tungumálið stjórni hugsun mannsins að miklu leyti og að því fleiri orð sem við kunnum, þeim mun fleiri hugsanir getum við framkallað. Þegar við lærum nýtt tungumál lærum við því líka nýja hugsun. Svo virðist sem ólík málsamfélög upplifi hluti ólíkt út frá tungumálinu. Rannsóknir sýna til dæmis að sumir upplifi tímann líða frá vinstri til hægri á meðan aðrir sjái hann fyrir sér ferðast frá hægri til vinstri, upp og niður, fram og aftur eða jafnvel frá austri til vesturs.2 2 Kensy Cooperrider & Rafael Núñez, „How We Make Sense of Time,“ Scientific American, 1. 11. 2016, scientificamerican.com/article/how-we-make-sense-of-time. Er tungumálið eins og hugbúnaðarkerfi, eins konar forritunarmál sem forritar og mótar huga okkar? Það sem við hugsum er í öllu falli að stórum hluta undir áhrifum forvera okkar hér á Jörð og hugmynda sem hafa mótast í gegnum tíðina með tungumálinu.

Líkt og hugsanirnar hafa lífverurnar ekki sprottið úr engu. Þær eiga sér þróunarsögu þar sem líffræðilegir eiginleikar sem nýst hafa í lífsbaráttunni hafa dafnað á kostnað annarra eiginleika sem ekki koma að gagni. Þetta kallaði Charles Darwin náttúruval. Af þessum sökum hafa ólíkar dýrategundir þróað með sér ólík skynfæri, allt eftir því hvað hefur gagnast til að lifa af. Mörg dýr geta skynjað hluti sem við mannfólkið skynjum ekki með beinum hætti. Slöngur sjá innrautt ljós sem gerir þeim kleift að veiða bráð í myrkri,3 3 Erica A. Newman & Peter H. Hartline, „Integration of Visual and Infrared Information in Bimodal Neurons in the Rattlesnake Optic Tectum,“ Science, #213 (1981), 789–91. skordýr sjá útfjólublátt ljós sem leiðbeinir þeim að kjarna blóma4 4 David Prutchi, Exploring Ultraviolet Photography

(Buffalo: Amherst Media, 2017), 96. og fuglar nema segulsvið jarðar sem hjálpar þeim að rata milli landa.5 5 D Heyers, M. Manns, H. Luksch, O. Güntürkün & H. Mouritsen, „A Visual Pathway Links Brain Structures Active During Magnetic Compass Orientation in Migratory Birds,“ PLOS ONE 2, #9 (2007). Þannig hefur hver dýrategund þróað sérstakan staðalbúnað skynfæra sem byggir á eiginleikum sem hafa stuðlað að afkomu tegundarinnar hingað til.

Ef við mannfólkið hefðum ekki heyrn myndi enginn vorkenna þeim heyrnarlausa, rétt eins og engum í okkar raunheimi er vorkennt fyrir að sjá ekki innrautt ljós. Við yrðum að komast af án heyrnar. Við hlytum að haga samskiptum okkar öðruvísi og finna eitthvað í stað tónlistar og annarrar hljóðlistar til að njóta. Við myndum ekki gráta heyrnarleysið því við þekktum ekki annað – við myndum sætta okkur við eiginheiminn og láta þar við sitja. Á sama hátt sættum við okkur við að sjá aðeins pínulítið brot af rafsegulrófinu.

Sá hluti sem við sjáum er kallaður sýnilegt ljós og samanstendur af öllum litum regnbogans. Við vitum að rafsegulbylgjurnar neðan og ofan við sýnilega ljósið eru allt í kringum okkur en við nemum þær ekki með beinum hætti.6 6 Cecie Starr, Christine Evers & Lisa Starr, Biology: Concepts and Applications (Belmont: Brooks/Cole, 2011), 94. Hvernig væru þær á litinn ef við gætum séð þær? Þeirri spurningu verður seint svarað því við höfum engar forsendur til að ímynda okkur lit sem við höfum ekki séð. Það myndi gagnast okkur lítið að sjá meira af rafsegulrófinu en við gerum. Ef við sæjum allt rófið myndum við ef til vill „blindast“ af einhverskonar síbreytilegri litaklessu því mannsheilinn er sennilega ekki fær um að lesa úr öllum upplýsingunum sem við stæðum frammi fyrir.

Þó staðalbúnaður skynfæra sé breytilegur milli dýrategunda göngum við út frá því að hann sé sambærilegur milli einstaklinga sömu tegundar. Engir tveir einstaklingar eru þó fullkomlega eins og eflaust gildir það sama um skynfærin. Bragðið sem ein manneskja finnur af gulrót er ekki endilega sama bragðið og næsta manneskja finnur. Græni liturinn sem ég sé er ekki endilega sá sami og sá sem þú sérð. Við lútum alfarið okkar eigin skynjun og getum því aldrei sannreynt hvernig önnur lífvera skynjar, hvort sem hún er af sömu tegund eða ekki. Ef horft er til fjölbreytileikans sem við sjáum í útliti og perónuleika fólks þá má vel ímynda sér að skynjunin hljóti að vera ólík milli einstaklinga.

VEFNAÐURINN

Stundum er talað um að nýfædd börn sjái á hvolfi. Það á við rök að styðjast því myndin sem varpað er í gegnum augasteininn á sjónhimnu okkar er raunverulega á hvolfi. Heilinn lærir hins vegar að snúa myndinni við svo við upplifum að við sjáum rétt.7 7 Ibid. Um miðja tuttugustu öld voru gerðar tilraunir þar sem einstaklingar voru látnir ganga með gleraugu sem brengluðu sjónsvið þeirra, vörpuðu því ýmist á hvolf, spegluðu því lárétt eða breyttu litum. Þessar tilraunir kallast Innsbruck gleraugna-tilraunirnar en þær voru leiddar af Theodor Erismann og Ivo Kohler, prófessorum við háskólann í Innsbruck. Erismann og Kohler sinntu þessum tilraunum af mikilli staðfestu og þolinmæði. Þeir notuðust í fyrstu við sjálfa sig sem tilraunadýr og til merkis um þrautsegjuna gekk Kohler samfleytt í hundrað tuttugu og fjóra daga með prismu-gleraugu sem spegluðu útsýni hans lárétt frá vinstri til hægri. Hann náði góðri færni með gleraugun og keyrði meðal annars milli staða á mótorhjólinu sínu án teljandi vandræða. Þegar tilraunirnar fóru að vekja athygli fengu þeir félagar fleira fólk til liðs við sig og gerðu fleiri tilraunir. Ferlið var yfirleitt svipað hjá þátttakendum; á fyrsta til þriðja degi var fólk mjög klaufalegt og því gekk illa að stjórna hreyfingum sínum, á fimmta degi urðu breytingar og heilinn virtist vera farinn að leiðrétta bjögunina, frá sjötta degi var síðan leiðréttingin fullgerð og hreyfingar þátttakenda voru orðnar eðlilegar.8 8 Frank Joseph Goes, The Eye in History (New Delhi: Jaypee Brothers Medical Publishers, 2013), 50.

Innsbruck tilraunirnar sýna vel hvernig heilinn reynir alltaf að vinna með rökréttum hætti úr þeim upplýsingum sem berast. Bandaríski rithöfundurinn og taugafræðingurinn David Eagleman hefur lýst því hvernig heilinn er í raun lokaður inni í algjöru tómarúmi skynjunar. Heilanum er sama hvaðan upplýsingarnar berast honum, hann tekur einfaldlega við þeim og setur þær í samhengi. Það er jafnvel hægt að skipta út lífrænum vefjum fyrir manngerð tæki, til dæmis með kuðungs- eða sjónhimnuígræðslum. Heilinn túlkar upplýsingarnar engu að síður líkt og um lífræn skynfæri sé að ræða.9 9 Shelly Fan, „This Smart Vest Lets the Deaf ‘Hear’ With Their Skin,“ SingularityHub, 9. 10. 2016, singularityhub.com/2016/10/09/this-smart-vest-lets-the-deaf-hear-with-their-skin/#sm.001d7sizu11reed210dcwx6u1odf7. Eins geta skilningarvitin bætt upp fyrir hvert annað. Ef eitthvert þeirra vantar verða hin næmari og geta jafnvel lagt undir sig svæði í heilanum sem allra jafna eru helguð skynfærinu sem vantar.10 10 Christina M. Karns, Mark W. Dow
& Helen J. Neville, „Altered Cross-Modal Processing in the Primary Auditory Cortex of Congenitally Deaf Adults: A Visual-Somatosensory fMRI Study with a Double-Flash Illusion,“ Journal of Neuroscience 32, #28 (2012): 962–963, DOI: 10.1523/JNEUROSCI.6488-
11.2012.

Annað fyrirbæri af þessu tagi kallast skynvíxlun (e. sensory substitution) en það merkir að upplýsingar sem eru vanalega túlkaðar af ákveðnu skynfæri eru teknar og útfærðar fyrir annað skynfæri. Bandaríski taugafræðingurinn Paul Bach-y-Rita er frumkvöðull hugtaksins og gerði meðal annars tilraunir á blindu fólki þar sem hann rannsakaði hvort hægt væri að „sjá“ með bakinu. Þáttakendur fengu sérstakan búnað sem ýtti pinnum í bak þeirra sem samsvöruðu myndum úr myndavél sem fest var á höfuð þeirra. Smám saman lærðu þátttakendur að þekkja regluna í mynstrunum og gátu þannig skynjað hvað var fyrir framan þá.11 11 John H. Lawrence & John W. Gofman, Advances in Biological and Medical Physics (New York: Academic, 1973), 288–296. David Eagleman nýtti sér þessar hugmyndir Bach-y-Rita við þróun á sérstöku vesti, VEST, sem gerir heyrnalausum kleyft að „heyra“ með húðinni. Vestið er búið þrjátíu og tveimur titringsmótorum sem dreifast með jöfnu bili um flíkina. Mótorarnir framkalla titringsmynstur í nákvæmu samhengi við hljóðbylgjur umhverfisins og notandinn lærir með tímanum að þekkja mynstrin sem tiltekin orð og hljóð.12 12 Fan, „This Smart Vest Lets the Deaf ‘Hear’ With Their Skin.“ Þannig getur viðkomandi farið að „heyra“ með hjálp vestisins. Það má segja að vesti Eaglemans geri líkama manneskjunnar að risavöxnu eyra, því hvað er heyrn annað en titringsmynstur bifhára eyrans í samræmi við hljóðbylgjur umhverfisins? Með þessum hætti er hægt að bæta upp fyrir töpuð skilningarvit sem gefur viss fyrirheit um möguleika á enn öðrum nýjum, manngerðum skilningarvitum. Getum við búið til ný skynfæri og farið þannig að þróa okkur sjálf?

VILJINN

Skynjun er ein meginstoð alls þess sem við gerum og veljum. Viljinn er því nátengdur skynjuninni. Skynjun skapar forsendur þess að vilja. Við mannfólkið höfum lengst af þróast með náttúruvali líkt og önnur dýr og nú er svo komið að við erum sjálf farin að grípa inn í þróunarferlið og búa til tækni sem hjálpar okkur, hugsar fyrir okkur og breytir okkur jafnvel. Með tækninni getum við gert hluti á risavöxnum skala, mun stærri en áður hafa átt sér stað. Á einum degi getum við til dæmis framleitt milljón tonn af plasti,13 13 „Global Plastic Production from 1950 to 2016 (in million metric tons),“ Statista, (s./a.) 11. 11. 2018, statista.com/statistics/282732/global-production-of-plastics-since-1950. flogið tvöhundruð þúsund flug,14 14 „The Busy Summer Skies: Continuing to Break Flight Tracking Records,“ Flightradar24, 15. 7. 2018, flightradar24.com/blog/the-busy-summer-skies-continuing-to-break-flight-tracking-records. búið til tvöhundruð þúsund nýja bíla15 15 J„Worldwide Automobile Production from 2000 to 2017 (in million vehicles),“ Statista, (s./a.) 11. 11. 2018, statista.com/statistics/262747/worldwide-automobile-production-since-2000. og hoggið niður fjörutíu milljón tré.16 16 T.V. Crowter, H.B. Glick o.fl./et al., „Mapping Tree Density at a Global Scale,“ Nature, #525 (2015): 201–205, nature.com/articles/nature14967.

Við getum meira – og viljum meira. Við höfum framlengt skynfæri okkar og stækkað þannig eiginheiminn. Með nokkrum tilburðarlitlum smellum á tölvuskjá getum við til dæmis skapað forsendur fyrir framleiðslu vöru og sett af stað ferli þar sem vörunni er pakkað og hún send þvert yfir heiminn til okkar. Ferlið er langt og hefur ýmsar afleiðingar í stóra samhenginu en fyrir okkur er það bara smellir á tölvuskjá.

Ef við göngum illa um heima hjá okkur safnast upp óhreinindi og drasl sem valda okkur óþægindum með beinum hætti. Sú tilfinning er hvati til þess að taka til og þrífa. Ef við hins vegar göngum illa um Jörðina, til dæmis með því að kaupa mikið af mengandi vörum og henda þeim óflokkuðum með almennu sorpi, finnum við lítinn sem engan mun. Við skynjum ekki skaðann sem við völdum heldur einungis þægindi og nautn. Loftið er ennþá ferskt, göturnar eru hreinar, heimilið glampandi fínt og við eigum nýjar, spennandi vörur.

Við lifum í stækkuðum sjálfheimi með óbreytt náttúruleg skynfæri og getum í raun snert eitthvað sem er langt í burtu frá okkur án þess að þurfa að horfast í augu við handarfarið. Við gerum okkur þó oft grein fyrir skaðanum og upplifum hann með óbeinum hætti gegnum frásagnir, sjónvarp, tölvur eða önnur tæki. Sú skynjun er áhrifaminni en bein skynjun og kveikir ekki endilega í viljanum.

En hvað ef náttúruleg skynfæri okkar myndu vaxa út í þennan nýja, framlengda eiginheim sem við höfum búið til og við færum að skynja fjarlæga hluti með beinum hætti? Hvað ef við myndum upplifa að heimili okkar væri fullt af plasti rétt eins og hafið? Hvað ef við upplifðum sársauka í samræmi við hungur og sársauka í heiminum? Líklega myndu samfélög manna starfa með öðrum hætti í slíkum heimi. Jarðarbúar þyrftu að reyna að komast af sem ein heild og gætu ekki hugsað athafnir sínar einungis í smáum hópum eða sem einstaklingar. Allt væri eitt – eins og frumurnar í líkama okkar sem mynda eina lífveru. Samstarf þeirra er grundvöllur þess að við lifum.

MEÐVITUNDIN

Frumeind, fruma, lífvera, hjörð eða sólkerfi. Hefur eitthvað af þessu sína eigin, heildrænu meðvitund? Einskorðast meðvitundin við staka lífveru eða getur hún teygt sig yfir hóp lífvera? Við getum ekki sannreynt neina meðvitund nema okkar eigin. Við eigum meira að segja erfitt með að útskýra hvað hún er með nákvæmum hætti, vitum einfaldlega að okkur líður á vissan hátt, okkur finnst eitthvað. Eða ekkert. Sumir telja að manneskjan sé fræðilega ófær um að finna út og sanna hvað meðvitund er því meðvitundin er í eðli sínu einstaklingsbundin og huglæg á meðan vísindin rannsaka fyrirbæri heimsins eins hlutlaust og mögulegt er. En hvað sem hún er þá er heilinn nauðsynleg forsenda hennar og hún er ástæða þess að við vitum af tilvist okkar. Við mannfólkið gerum okkur jafnvel grein fyrir að við séum við og að annað fólk hafi sína eigin meðvitund, upplifun og vilja. Það má segja að meðvitundin sveimi fyrir heilanum sem hagar sér svolítið eins og stýrikerfi í tölvu og einfaldar virknina fyrir notandann þannig að hann getur athafnað sig án þess að skilja hvernig aðgerðirnar eru framkallaðar í grunninn. Það er margt líkt með tölvum og mönnum. Ætli það sé tilviljun eða er það kannski einmitt vegna þess að manneskjan, föst í sínum eigin eiginheimi, bjó til tölvuna?

Við tölum um að skynfæri okkar séu náttúruleg en tæknin ónáttúruleg. Vitræn hegðun véla er til dæmis kölluð gervigreind sem gefur til kynna að hún sé ekki ekta heldur tilbúningur. Að sama skapi myndi framlengd skynjun flokkast sem ónáttúruleg. Að tala við manneskju með rituðum orðum á internetinu er ekki eins ekta og að tala við hana gegnum síma og að tala við manneskju gegnum síma er ekki eins ekta og að tala við hana augliti til auglits.

Heilinn setur allt sem við skynjum í samhengi og fyllir stöðugt inn í eyðurnar þar sem upplýsingar vantar.17 17 Jasper Feyaerts & Stijn Vanheule, „The Logic of Appearance: Dennett, Phenomenology and Psychoanalysis,“ Frontiers in Psychology, 22. 8. 2017, frontiersin.org/articles/10.3389/fpsyg.2017.01437/full. Það þýðir að hluti af því sem við upplifum er óraunverulegur og á sér einungis stað í meðvitund okkar. Því stærri sem eyðurnar eru, þeim mun líklegra er að upplifun okkar innihaldi óraunverulegt uppfyllingarefni. Tveir einstaklingar sem verða vitni að sama atburðinum geta haft sitthvora söguna að segja þegar þeir eru spurðir út í upplifun sína. Tækin sem við höfum búið til og framlengja skynjun okkar gera okkur kleift að skynja fjarlæga hluti en virka á sama tíma eins og sía sem deyfir upplifunina. Því meiri sem fjarlægðin er þeim mun veikari eða skakkari verður hún.

Bilið milli manns og tölvu er stöðugt að minnka. Getur verið að tækniþróunin sé hluti af náttúrulegri þróun okkar? Hugsanlega erum við í einhvers konar byrjunarfasa og þurfum að gefa náttúrulegum skynfærum okkar tíma til að vaxa út í þennan nýja veruleika. Skekkjan sem á sér stað í framlengdri skynjun gæti jafnað sig með tímanum ef tæknin aðlagast okkur og við henni. Að lokum skal nefna að þessi hugleiðing er skrifuð út frá eiginheimi einnar manneskju sem veit ekki hvort neitt af því sem hún upplifir sé raunverulegt en vonar að hún klessi eiginheimi sínum við eiginheim þinn og kveiki nýjar hugmyndir.

Af jörðu ertu kominn


Ljósmyndir frá útskriftarverkefni Ara Að jörðu skaltu aftur verða.  
Photos from Ari’s Graduation Project Unto Dust Shalt Thou Return.  

Hvarvetna í heiminum brýtur mannfólkið upp hversdaginn með vissum athöfnum sem marka lítil eða stór kaflaskil í lífi þess, umbreytingu eða nýtt upphaf. Þessar athafnir má kalla helgisiði (e. ritual). Í helgisiðum er gjarnan notast við leikmuni (e. props) og þá er oft brugðið „á leik“ með þessa muni og gildi þeirra. Í samhengi helgiathafnar getur einfaldur gullhringur orðið að tákni um eilífan trúnað og traust. Vissum aðferðum er beitt til að skapa slíka merkingu og koma henni á framfæri til þátttakenda.

Í helgiathöfnum eru hversdagslegar hugmyndir um hluti – svo sem framleiðni og markaðsverð – yfirleitt lagðar til hliðar og áhersla lögð mun fremur á ferli, aðferðir og upplifanir. Það er ef til vill af þeim ástæðum sem oft má sjá glitta í sérkenni helgiathafna í verkum nemenda við Listaháskóla Íslands, þar sem áherslan er einmitt lögð á ferli, aðferðir og upplifanir fremur en til dæmis framleiðslu á lokaafurð eða söluvöru. Útskriftarnemendur úr vöruhönnun unnu margir hverjir leynt eða ljóst með helgisiði í verkum sínum, sem sýnd voru á Kjarvalsstöðum á útskriftarsýningu skólans í maí 2018.

Helgisiðir hjálpa fólki til að takast á við hverskonar aðstæður; breytingar, væntingar, langanir sem og hversdagslegt amstur. Helgisiðir eða helgiathafnir eru notuð til að skapa annan veruleika eða umbreyta veruleikanum þar sem fólk getur annaðhvort tímabundið eða varanlega orðið að einhveru öðru en það hefur verið – eða er – frá degi til dags. Þær umbreytingar sem helgisiðir orsaka geta verið agnarsmáar eða mjög stórar, allt upp í svokallaða lykiláfanga í lífshlaupi hvers og eins; skírn, ferming, brúðkaup eða jarðarför.18 18 Sjá m.a. / See i.a.: Richard Schechner, „Ritual,“ Performance Studies: An Introduction, 3. út./ed. (London: Routledge, 2013), 52–88.

Margir tengja helgisiði einna helst við trúarbrögð og starfsemi kirkjunnar. Á hverjum degi tekur fólk hins vegar þátt í hversdagslegum helgisiðum – til dæmis þegar fólk býður góðan dag. Slíkir hversdagslegir helgisiðir eiga sér stað um víðan völl, til dæmis í dómskerfinu eða skólum. Og þeir birtast með margbreyttum hætti, svo sem í viðskiptum, matarsiðum, kennslu, listsköpum, líkamsrækt, endurteknu flakki um vissar vefsíður eða reglufastri kaffidrykkju sem stunduð er til dæmis í þeim tilgangi „að hefja daginn“. Því fer sum sé fjarri að helgisiðir eigi aðeins heima á sviði hins trúarlega, þó svo að fjölmargt á því sviði flokkist til helgisiða. Auðvelt er að nefna helgisiði sem hafa lítið sem ekkert með kirkjuna að gera; afmæli, útskriftir, þjóðhátíðir, yoga eða siðir á borð við það að brúðarhjón skeri saman brúðkaupstertuna í brúðkaupsveislunni eða stígi dans fyrir framan gesti sína.19 19 Ibid.

Í dag er talsvert talað um að fólk eigi „að njóta“ hins og þessa. Svo virðist sem hér sé verið að vísa til þess að fólk eigi að njóta þess að stunda litlar helgiathafnir sem brjóta upp hversdaginn; kaffisopans í morgunsárið eða ferðarinnar í heita pottinn. Helgisiðir hafa það gjarnan að markmiði að skapa ákveðna framvindu þar sem eitt leiðir að öðru, og lýkur síðan á tiltekinn hátt. Þegar slíku ferli er lokið hefur einhverskonar umbreyting átt sér stað; við „lifnum við“ eftir kaffibollann eða „endurnýjumst“ af því að fara í sund.
Helgisiðir eru yfirleitt býsna fastir í skorðum enda eru þeir samfélagslegir og hafa það að markmiði að fleyta einstaklingum eða hópum í gegnum ákveðið ferli sem leiðir að vissri niðurstöðu. Það má því segja að þeir séu einskonar uppskrift að því sem sóst er eftir hverju sinni og geta um því um leið veitt fólki ákveðna öryggistilfinningu.

„HVERNIG ERU REGLURNAR?“

Líkt og í leikjum spila reglur lykilhlutverk innan helgisiða. Þegar við lærum nýjan leik, er fyrsta spurningin yfirleitt: „Hvernig eru reglurnar?“ Helgisiðir eru fjölbreyttir einmitt vegna þess að reglurnar eru ekki þær sömu helgisiða á milli; þannig þekkjum við muninn á giftingu, te-athöfn og yoga. Klæðnaðurinn er ekki sá sami, andlitssvipirnir aðrir og þau orð sem látin eru falla ólík. Hönnuður sem vinnur með helgisiði, eða skyldar sviðsetningar – leiki, hátíðir, gjörninga, leikhús og íþróttir svo eitthvað sé nefnt – þarf að kynna sér þær reglur sem ramma helgisiðinn af. Þann ramma má síðan þenja eða betrumbæta sé vilji fyrir því.

Reglurnar gegna einnig öðru mikilvægu hlutverki; að marka sviðsetninguna af frá hversdagslífinu. Með reglunum er búinn til „annar heimur“ sem lýtur ekki sömu lögmálum og hversdagurinn. Ef reglurnar eru brotnar er hætt við að „ævintýrið“ eða umbreytingin flosni upp svo hversdagurinn blasi við. Reglurnar mynda því að segja má umgerð sem fylgir eigin lögmálum og heldur utan um þá upplifun sem er ómissandi svo að sviðsetningin virki og hafi sín áhrif.20 20 Richard Schechner, Performance Theory (London: Routledge, 2003), 13. Hitt er annað mál, að slíkar reglur geta verið annaðhvort mikið eða lítið áberandi.

HELGISIÐIR Í ÚTSKRIFTAVERKEFNUM
FRÁ VÖRUHÖNNUN

Nemendur sem útskrifuðust úr vöruhönnun vorið 2018 ákváðu snemma í ferlinu að vinna út frá þemanu „mennska“. Hér verða skoðuð nokkur dæmi; Ari Jónsson kannaði jarðafarir, Margrét Arna Vilhjálmsdóttir vann með minjagripi og þá merkingu og þær aðferðir sem við notum til að gæða slíka hluti merkingu, Bjarmi Fannar Irmuson skoðaði dans og hvernig iðkun hans getur komið fólki í „annan heim“ og Ólöf Sigþórsdóttir skoðaði endurteknar athafnir úr hversdeginum sem fólk nýtir gjarnan til að skapa öryggistilfinningu; ið, fitl og kæki.

Samkvæmt sviðsetningafræðingnum Richard Schechner má skilgreina sjö markmið sviðsetninga (e. performance) – og þar á meðal helgisiða. Þau ríma mörg hver fremur sterklega við ofantalin verkefni. Tilgangur helgisiða getur verið samkvæmt Schechner; 1) að skemmta, 2) að búa til eitthvað fallegt, 3) að skilgreina eða breyta sjálfsmynd, 4) að mynda samfélag eða að hlúa að samfélagi, 5) að hjúkra eða græða, 6) að kenna eða sannfæra, og 7) að eiga við hið heilaga eða djöfullega.21 21 Sjá m.a. / See i.a.: Schechner, Performance Studies, 46 Allt þetta mátti sjá í verkum allra útskriftarnema úr vöruhönnun – enda tengist þetta allt saman „mennskunni“ á einn eða annan hátt.

AÐ JÖRÐU SKALTU AFTUR VERÐA

Í undirbúningi fyrir útskriftarverkefni sitt Að jörðu skaltu aftur verða skoðaði Ari Jónsson þær leiðir sem standa til boða fyrir jarðsetningar hér á landi. Hann komst að því að möguleikarnir eru nokkuð fábreyttir. Bálfarir hafa færst í aukana en öskudreifing er enn óalgeng, þrátt fyrir að hafa verið nú leyfð í tuttugu ár. Vandamálið er meðal annars það, að þau ílát sem hægt er að fá til öskudreifingar eru hönnuð með jarðsetningar í huga. Á grundvelli þessarar þekkingar hannaði Ari hlut sem sniðinn er að öskudreifingu, sem og þeim reglum sem gera jarðafarir að heilögum helgisið. Það er því óhætt að segja að hann hafi fengist við fleiri en eitt markmið helgisiða í hönnun sinni; það að 2) búa til eitthvað fallegt, 4) hlúa að samfélagi, og 5) hjúkra eða græða og síðast en ekki síst 7) hið heilaga.

Verkefni Ara er göngustafur sem notaður er við öskudreifingu. Sá sem stýrir athöfninni notar stafinn en stafurinn stýrir jafnframt þeim sem notar hann. Þá sér stafurinn ennfremur til þess að athöfnin taki sinn tíma, því aska hins látna hrynur í litlum skömmtum neðarlega út stafinum þegar hann nemur við jörðu, í hverju skrefi sem tekið er. Stafurinn léttist því hægt og rólega í gegnum ferli athafnarinnar og Ari nefnir að þeir „sem bera hann geta fundið hvernig það verður líkamlega og vonandi andlega auðveldara að bera stafinn því lengra sem líður á ferðalagið.“22 22 Ari Jónsson, Að jörðu skaltu aftur verða (útskriftarverkefni / Graduation Project BA, Listaháskóli Íslands, 2018), 43. Einnig er hægt að reka stafinn í jörðu og snúa hólki á honum að ofanverðu. Við það opnast hólf efst í stafinum sem vindurinn getur tæmt. Stafinn sjálfan má síðan geyma sem einskonar ættar- eða minjagrip, ekki ólíkt skírnarkjólum eða giftingarhringjum sem ganga ættliða á milli sem erfðagripir.


Ljósmyndir frá útskriftarverkefni Bjarma 5, 6, 7, 8.  
Photos from Bjarmi’s Graduation Project 5, 6, 7, 8.  

MINNINGARGRIPIR:
SAMBAND MANNS OG HLUTAR

Í verki sínu Minningargripir: Samband manns og hlutar tekst Margrét Arna Vilhjálmsdóttir á við hluti og merkingu þeirra. Þrátt fyrir að við lifum í heimi þar sem hlutir eru sífellt metnir til fjár þá hafa hlutir engu að síður ýmsa þýðingu sem hefur lítið sem ekkert með markaðsverð þeirra að gera. Margrét tíndi til stórar og litlar athafnir í lífi fólks þar sem hlutir hafa gegnt ákveðnu lykilhlutverki. Hlutirnir fá vigt vegna þess að þeir tengja saman fólk, aðra hluti og staði. „Hluturinn sjálfur skiptir ekki eins miklu máli og minningin sem hann geymir,“ skrifar Margrét.23 23 Margrét Arna Vilhjálmsdóttir, Minningargripir: Samband manns og hlutar (útskriftarverkefni / Graduation Project BA, Listaháskóli Íslands, 2018) 12.
Hluturinn gerir minninguna áþreifanlega og tengir þann sem upplifir merkinguna aftur við vissa staði, upplifanir og fólk.

Á sýningunni á Kjarvalsstöðum sýndi Margrét nokkra hluti úr fórum fólks sem hafa orðið eigendum sínum allt að því heilagir. Þrátt fyrir að þeir séu jafnvel ónothæfir í dag þá vilja eigendur þeirra ekki skilja við þá, þar sem merking og tilgangur hlutanna hefur breyst frá því sem upphaflega var lagt upp með. Á sýningunni mátti til dæmis sjá tóbakssprautu og er haft eftir eigandanum: „Ég man þegar ég skar hana til og svo er hún með sprungu sem ég man hvernig kom. Ég er alltaf með hana í vasanum. Ég gæti ekki hugsað mér að losa mig við hana, ekki einu sinni eftir að ég hætti að nota tóbak.“24 24 Ibid. Segja má að í verki sínu fáist Margrét kannski fyrst og fremst við þriðja atriðið í skilgreiningu Schechner, að skilgreina og breyta sjálfsmynd með hlutum.

5, 6, 7, 8

Dans er hluti fjölmargra helgisiða, trúarlegra og veraldlegra. Dansar hafa ósjaldan verið stignir við trúarathafnir en þó jafnvel enn oftar í veraldlegu samhengi. Dansinn minnir okkur á að helgisiðir eru einnig líkamlegir – ekki aðeins orð og hlutir. Þetta gerir það meðal annars að verkum að helgisiðir sverja sig í ætt við leikhús. Þátttakendur í helgisiðum eru hluti af „sýningunni“ þar sem allir leika hlutverk. Þeir nota meðvitað eða ómeðvitað líkama sína, vissar hreyfingar og svipi til að ýta undir ákveðnar tilfinningar eða upplifun. Eitt ýktasta dæmið er líklegast athafnir þar sem fólk fellur í trans og hættir að ráða fullkomlega við líkama sinn, til að mynda í athöfn þar sem andi hefur tekið sér bólstað í líkama þátttakanda.

Í verk sínu fjallar Bjarmi Fannar um æsku sína, þegar hann leitaði á náðir danslistarinnar eftir erfiða skóladaga sem barn. Hann læsti sig inni í herbergi og „dansaði sig þreyttan.“25 25 Bjarmi Fannar Irmuson, 5, 6, 7, 8 (útskriftarverkefni / Graduation Project BA, Listaháskóli Íslands, 2018), formáli.

Um verkefni sitt 5, 6, 7, 8 skrifar hann: „Fyrir mér var dans allt; útrás, hreyfing, tjáning, skapandi listform, flótti, friður en fyrst og fremst algjört frelsi.“26 26 Ibid. Undir sjónarhorni sviðsetningarfræðanna má segja að Bjarmi fjalli nokkuð ítarlega í verki sínu um það hvernig dans hefur bæði skemmt sem og skilgreint og haft áhrif á sjálfsmynd en jafnframt hvernig dans getur hjúkrað og grætt.

Ólöf Sigþórsdóttir kannaði hvernig litlar endurteknar athafnir í hversdeginum hjálpa einstaklingum að takast á við umhverfi sitt og samskipti við annað fólk. Ið, fikt, rugg og nudd, fitl við hluti, fikt í pennum eða hári, læri á iði. Allt eru þetta pínulitlar hversdagslegar athafnir sem grípa athygli okkar mismikið. Þær geta verið jákvæðar fyrir þá sem stunda þær, losað um stress eða viðhaldið einbeitingu þeirra. Þær geta hinsvegar farið í taugarnar á þeim sem verða vitni að þessum athöfnum og þykja þær pirrandi eða stressandi.27 27 Ólöf Sigþórsdóttir, Ið (útskriftarverkefni / Graduation Project BA, Listaháskóli Íslands, 2018).

Ólöf tók að sér það verkefni að hanna hluti og aðstæður þar sem sá sem iðar getur nýtt endurteknar hreyfingar sínar sem annarskonar aflvaka; iðarinn hristir löppina og framleiðir við það rafmagn. Ólöf skoðaði bæði hvernig nýta megi iðið á praktískan hátt sem og til hverskonar sköpunar. Í verkinu tekst Ólöf á við þann möguleika að iðið geti farið í taugarnar á fólki þar sem það er ekki „til nytja“. Með því að nýta það til framleiðslu brýtur Ólöf niður eitt einkenni helgisiða sem er and-framleiðni, eða einmitt það að vera „ekki til nytja“. Vilji einhver líta sem svo á að sviðsetningar og helgiathafnir eigi að vera „til nytja“ líkt og hversdagsleg atvinna, má segja að fótbolti verði allt í einu að tilgangslausu hlaupi fullorðinna manna eftir boltatuðru. Eða að afmælisveisla sé tímasóun. Tilgangur helgisiða er hinsvegar að sýna eða upplifa. Þannig er helgisiðurinn skilinn frá vinnu og þar af leiðandi hversdagslegu amstri sem og markaðslögmálum. Aftur á móti eru gjarnan gerðar tilraunir til að tengja helgisiði eða athafnir við hverskonar „praktísk“ sjónarmið; fyrirtæki fá að auglýsa á treyjum fótboltamanna- og kvenna. Tilraun Ólafar til að kanna það hvort ið sé frekar umborið sé það praktískt eða „til nytja“ er mjög skemmtilegur og áhugaverður snúningur á endurtekna kæki, fitl og fikt fólks. Og um leið ákveðin gagnrýni á það hvernig við eigum til að hugsa um helgisiði – og kannski jafnframt um vöruhönnun og aðrar hönnunar– og listgreinar.

Að læra yfir strikið

Akademían er ekki paradís. En nám er vettvangur þar sem hægt er að skapa paradís. Þrátt fyrir takmarkanir sínar er kennslustofan staður hins mögulega eftir sem áður. Á þessum vettvangi hins mögulega getum við unnið hörðum höndum að frelsi og krafist þess af sjálfum okkur og félögum okkar að við opnum huga okkar og hjarta andspænis raunveruleikanum um leið og við ímyndum okkur í sameiningu aðferðir til að sigrast á takmörkunum og ögra. Þetta er menntun sem iðkun frelsi.28 28 bell hooks, Teaching to Transgress: Education as the Practice of Freedom (New York: Routledge, 1994), 207.

MIKILVÆGI
ÖGRUNAR

Það að ögra er þýðing á enska hugtakinu „transgress“ sem rekur uppruna sinn til latneska orðsins „transgredi“: „trans“ (þvert yfir) og „gradi“ (að fara). Hugtakið merkir bókstaflega að fara þvert yfir eitthvað. Sá sem ögrar er einstaklingur sem fer yfir mörk þess sem er landfræðilega, siðferðilega, samfélagslega, fagurfræðilega, menningarlega eða lagalega viðtekið eða þekkt. Þær ástæður sem búa að baki ögrun þess viðtekna eru ólíkar auk þess sem viðtekin mörk eru aldrei í kyrrstöðu heldur á stöðugri hreyfingu. Mörkin eru gjarnan samfélagslega mótuð, tæknilega skilyrt og tímanum undirorpin – og þegar þau hafa verið skilgreind þá tökum við gjarnan þátt í að verja þau. Slík óstöðug landamæri afmarka þekkingu okkar, samkennd okkar og skilning okkar á veröldinni sem og stöðu okkar mannfólksins innan hennar.

Ögrunin endurskilgreinir raunveruleikann. Ögrun viðtekinna siðferðisgilda leiddi hefðbundið þrælahald til lykta.29 29 Naomi Klein, This Changes Everything (London: Allen Lane, 2014). Í baráttu gegn þrælahaldi lék áhrifarík skýringarmynd stórt hlutverk. Árið 1788 birtu breskir andstæðingar þrælahalds teikningu af átjándu aldar skipinu Brooks sem gat flutt fjögurhundruð þræla í hverri ferð en skipið sigldi til Liverpool á Englandi. Þessi ögrandi skýringarmynd átti þátt í því að breiða út skilning á fyrirlitlegu eðli þrælahalds, andstyggilegri mannlegri hegðun sem brýtur gegn grundvallarmerkingu þess að vera manneskja. Frá því að teikningin leit dagsins ljós liðu önnur fjörutíu og fimm ár áður en þrælahald var afnumið með öllu í Bretlandi í krafti sameiginlegrar baráttu fólks.30 30 Suzanne Labarre, „Infographic: The Slave-Ship Chart That Kindled The Abolitionist Movement,“ FastCompany, 23. 7. 2012, fastcompany.com/1670325/infographic-the-slave-ship-chart-that-kindled-the-abolitionist-movement.

Eins ögrum við hinu viðtekna af einskærri mannlegri forvitni.31 31 Yuval Noah Harari, Sapiens: A Brief History of Humankind (London: Vintage, 2011) & Leonard Mlodinow, The Upright Thinkers:

The Human Journey from Living in Trees to Understanding Cosmos (London:Penguin Books, 2015). Austurríski eðlisfræðingurinn Ludwig Boltzmann (1844–1906) ögraði vísindasamfélaginu á sínum tíma með kenningu sem fól í sér að frumeindir og sameindir væru raunverulega til.32 32 „Kinetic Theory of Gases,“ Encyclopædia Britannica, (u.) 14. 7. 2018, britannica.com/science/kinetic-theory-of-gases. Kenningum hans var harðlega mótmælt af öðrum vísindamönnum og Boltzmann veiktist af alvarlegu þunglyndi sem leiddi loks til þess að hann framdi sjálfsmorð.33 33 John Blackmore, Ludwig Boltzmann: His Later Life and Philosophy, 1900–1906. Book Two: The Philosopher (Dordrecht: Kluwer, 1995). Þá ögrar fólk þegar þær reglur sem eru til staðar verða fjötur um fót. Vilji maður byggja hús á ræktarlandi í Egyptalandi með löglegum hætti þá kallar það á allt frá sex til ellefu ár af skriffinsku. Af þessum sökum ögra margir löggjöfinni og reisa sér heimili með ólöglegum hætti.34 34 Hernando de Soto Polar, The Mystery of Capital: Why Capitalism Triumphs in the West and Fails Everywhere Else (New York: Basic Books, 2000). Ögrun felur í sér endurskilgreiningu og endurhönnun þess sem talin eru viðtekin sannindi.



Þrælaskipið Brooks á skýringarmyndinni frá 1788.  


The slave ship Brooks, as depicted on the 1788 infographic.  

Við verðum að byggja sannleikann á þeim veruleika sem við þekkjum, fremur en að líta á sannleikann sem einhverskonar algilda þekkingu. Sannleikann ber að skilja sem getuna til þess að greina muninn á staðreyndum og lygum. Þetta er boðskapur sálgreinandans Hönnu Segal í viðtali við Jon Henley fyrir The Guardian. Í viðtalinu rökstyður hún þá afstöðu að leitin að sannleikanum sé rannsókn sem auki skilning. Sálgreining, eins og hún er stunduð í dag, leggur upp úr því að sannleiksleitin sé í sjálfri sér læknandi og heilandi og geti breytt lífi manns. Árangur sannleiksleitarinnar er því fólginn í tvennu; hún eykur bæði þekkingu og vellíðan sannleiksleitandans – eykur hamingju hans, leyfi ég mér að segja. Líkt og Hanna Segal segir í viðtalinu: „Sannleikurinn endist sjaldnast; sannleikur gærdagsins er ekki sannleikur dagsins í dag.“35 35 Jon Henley, „Queen of Darkness,“ The Guardian, 8. 9. 2018, theguardian.com/science/2008/sep/08/psychology.healthandwellbeing. Þetta gerir starf sannleiksleitandans að endalausu verkefni, það felur í sér stöðuga endurtekningu. Það er vegna þess að helsta markmiðið með leitinni er að afhjúpa og afbyggja geðveikina, lygarnar og fölsku ályktunanirnar sem við höfum sjálf skapað. Þegar uppi er staðið er um að ræða vegferð þar sem allt er lagt í sölurnar til að vernda heilbrigð mannleg gildi, með umhyggju fyrir mönnum og öðrum verum að leiðarljósi. Í slíkri vegferð þýðir ekkert að nema staðar eða gera hlé, þvert á móti krefst hún stöðugrar árvekni. 36 36 Ibid.

Leitin að þekkingu og sannleika er frumstæð mannleg þrá sem byggir á þeirri afstöðu að við vitum ekki allt sem hægt er að vita um heiminn. Það er slík vanþekking sem knýr okkur áfram í að leita og spyrja alla ævi.37 37 Harari, Sapiens. Við tökumst á við vanþekkingu okkar með forvitni, með væntingum um betra líf, með öflugu siðviti sem hjálpar okkur að berjast gegn því sem við teljum rangt, hvort sem um er að ræða þrælahald, flókna skriffinsku (eins og í dæminu hér áðan) eða aðrar áskoranir samtímans, svo sem matarsóun, áríðandi þarfir hælisleitenda, eyðingu skóga, grimmilega meðferð á dýrum eða loftslagsbreytingar. Slíkar áskoranir verða enn flóknari vegna ákveðinnar þekkingarkreppu sem stafar af takmörkuðum aðgangi að merkingarbærum sannindum og skorti á mannlegri getu til að greina staðreyndir frá lygum. Til þess að sigrast á þessari kreppu verðum við – eftir aldalangan að-skilnað þekkingar eftir landamærum fjölda ólíkra sérgreina og fagsviða – að leggja heiminn saman að nýju, að raða honum aftur saman og að sjá samspil ólíkra hluta hans.38 38 Thomas Fisher, Designing Our Way to a Better World (Minneapolis: University of Minnesota, 2016) & Donella H. Meadows, Thinking in Systems: A Primer, (ritstj./Ed.) Diana Wright (Vermont: Chelsea Green, 2008). Við verðum með öðrum orðum að „öðlast skilning á grundvallartengslum alls þess sem er og endurnýja merkingaruppsprettur okkar, eða deyja.“ 39 39 Elizabeth Farrelly, Blubberland: The Danger of Happiness (Sydney: NewSouth, 2007), 11. Stöðug endurnýjun á þekkingu okkar og skilningur á því að við tilheyrum öll sama kerfinu er sú vitsmunalega ögrun sem er nauðsynlegt að halda til streitu.

Leitin að sannleikanum felur í sér leit að þýðingu og merkingu, hún krefst stöðugrar sjálfsskoðunar án of mikillar áherslu á það hver við erum. Sjálfsskoðunin snýst líka um það hver við viljum vera og hvað við – sem samfélag af fólki sem tengist hvert öðru þvert yfir hnöttinn – viljum. Slík sjálfsskoðun er á ábyrgð einstaklingsins en einnig samfélagsins. Einstaklingar sem ögra eru nefnilega ekki einangraðir út af fyrir sig heldur manneskjur sem bregðast við samfélagi sínu. Einstaklingar sem ögra leitast við að taka ríkari þátt, vera virkari, ábyrgari og gagnrýnni gagnvart eigin samfélagi. Það á sérstaklega við um nærumhverfið þar sem einstaklingurinn á heima, því viðkomandi bæði þekkir og ber tilfinningar til þess sem stendur honum næst.40 40 hooks, Teaching to Transgress. Það ber ekki að skilja þá mannlegu viðleitni að öðlast og deila þekkingu sem röð einangraðra orrusta heldur fremur sem sameiginlega vegferð sem farin er af fjölbreyttum hópi fólks sem starfar saman að sameiginlegum tilgangi.41 41 Mlodinow, The Upright Thinkers. Eintómt einstaklingsframtak nægir ekki til að hrinda af stað raunverulegum breytingum. Slíkar breytingar geta aðeins orðið ef fólk finnur til nægilegrar samkenndar vegna þess að það trúir því sama og finnur til sömu ábyrgðar gagnvart því að breyta hinu viðtekna. Þegar þetta gerist eru breytingar mögulegar.42 42 Alexandra Schindel, „Supporting Youth to Develop Environmental Citizenship With/Against a Neoliberal Context,“ Environmental Education Research, 21, #3 (2015): 390–402, DOI: 10.1080/13504622.2014.994164. Þegar þeir sem ögra starfa saman tekst þeim að brjóta, afhjúpa eða leiðrétta átök, ágreining eða ágalla á þeim hönnuðu kerfum sem við búum við. Það er gert með því að afhjúpa ósannindi og ganga á hólm við siðferðilegar, vísindalegar og menningarlegar takmarkanir. Með aukinni þekkingu vex jafnframt vald okkar yfir heiminum. Með þessu aukna valdi fylgir aukin ábyrgð á umhverfi okkar, náunganum og öðrum dýrum. 43 43 Bertrand Russell, What I Believe (London: Routledge, 1996).

ÖGRANDI
MENNTUN

Á meðan vanþekking kann oft að réttlæta gjörðir okkar, vegna þess að við vissum ekki betur, þá knýr þekking okkur aftur á móti til þess að taka réttar siðferðilegar ákvarðanir; ákvarðanir sem styðja við umhverfis- og samfélagskerfi okkar. Á þeim forsendum trúi ég því að menntun leiki grundvallarhlutverk í okkar samfélagi. Menntun er samfélagsleg hreyfing og leggur sitt af mörkum í leitinni að sannleikanum ásamt því að greiða fyrir mannlegum þroska.44 44 John Dewey, Experience and Education (New York: Free Press, 2015). Menntun er pólitísk og verður ætíð fyrir áhrifum þess samfélagskerfis og þeirrar hugmyndafræði sem ræður ríkjum.45 45 Paulo Freire, Pedagogy of the Oppressed (London: Penguin Books, 1993). Þar af leiðandi er eitt meginmarkmið menntunar að efast um slík kerfi. Það að starfa við menntun merkir að vinna gegn kúgandi kerfum og takmörkun á aðgangi að þekkingu, það merkir að vinna að samfélagslegu og umhverfislegu réttlæti með það í huga að þekkingaröflun er í sjálfri sér samfélagslegt afl.

Menntafrömuðurinn bell hooks olli straumhvörfum með verki sínu Teaching to Transgress, Education as the Practice of Freedom. Þar segir hún að grundvöllur menntakerfis okkar sé gagnrýnin hugsun. Enska orðið yfir gagnrýni er dregið af gríska orðinu „kritikos“ sem merkir hæfni til þess að bera kennsl á og skera úr um – í íslensku merkir hugtakið hreinlega að rýna sér til gagns. Gagnrýnin hugsun krefst gagnrýnnar kennslufræði en það er ferli sem leiðir kennara og nemendur saman í sannleiksleit sem felst í því að spyrjast fyrir um grundvallarhugmyndir í samfélaginu á borð við þekkingu, réttlæti og jafnrétti. Gagnrýnin hugsun er ferli sem byggir á því að ögra viðteknum aðferðum og skoðunum og hugsa þær upp á nýtt. Slík hugsun krefst þolinmæði, hugrekkis og lýðræðissamfélags þar sem öllum sem vilja læra er veittur jafn aðgangur að menntun.46 46 Joan Wink, Critical Pedagogy: Notes from the Real World (New York: Addison Wesley Longman, 2000). Gagnrýnin kennslufræði krefjast sjálfsskoðunar og endurhugsunar á hlutverkum þeirra menntastofnanna, skóla og háskólastofnanna sem við eigum, sem og á tengslum okkar hvert við annað, bæði innan þessara stofnana sem og í samfélaginu öllu.

Gagnrýnin kennslufræði spyr þeirrar grundvallarspurningar, hvað viljum við vilja og hvað viljum við vita? 47 47 Ibid. Það að læra að ögra er samfélagslegt ferli. Það hefst á því að við komum í kennslustofuna með persónulega reynslu okkar að borðinu ásamt staðreyndum og skoðunum. Sameiginleg sjónarhorn á raunveruleikann ryðja betri leiðir til þekkingar auk þess að þroska samkennd okkar á milli og gagnvart raunverulegum lífsvandamálum. Kennslustofan getur virkað sem tilraunastofa fyrir námsferlið, og orðið „róttækasti staður hins mögulega.“ 48 48 hooks, Teaching to Transgress. Slík tilraunastofa er ekki loftþétt herbergi þar sem verið er að gera einangraðar tilraunir, heldur vöggustofa hugmynda, vettvangur samræðna þar sem tekist er á við þau takmörk sem ríkja, veruleikann eins og við þekkjum hann og hefðbundna hugmyndafræði og því öllu síðan ögrað í sameiningu.

Samræðan byggir á getu meðlima hópsins til þess að fresta ályktunum sínum og að taka raunverulega þátt í að „hugsa saman“.49 49 Peter Senge, The Fifth Discipline: The Art & Practice of the Learning Organization (New York: Crown Business, 2006). Með samræðunni verða kennarar og nemendur „samábyrgir fyrir ferli sem stuðlar að þroska allra.“ 50 50 Freire, Pedagogy of the Oppressed, 53. Á forn-grísku merkti orðið „dialogos“ frjáls samskipti um merkingu í hóp. Slík samskipti gera hópnum kleift
að öðlast innsýn sem er einstaklingnum fyrirmunað.51 51 Senge, The Fifth Discipline, 10. Samræðan getur leitt til djúptækra, viturra og skarpra samtala og er ferli sem stuðlar að aukinni meðvitund, skapar og endurskapar fjölbreyttan skilning og leiðir til uppgötvunar nýrra sanninda.52 52 Wink, Critical Pedagogy, 48. Menntafrömuðurinn Paulo Freire telur að ást á heiminum og fólkinu sem byggir hann séu nauðsynlegar forsendur raunverulegrar samræðu.53 53 Freire, Pedagogy of the Oppressed, 62. Til þess að öðlast slíka ást verðum við að finna að það sem við gerum á tilraunastofunni okkar eigi erindi (hvort sem það er í námi eða í starfi), að það sem við gerum hafi áhrif á fólk og að ákvarðanir okkar hafi áhrif handan akademíunnar.

Af þessum sökum er kennslustofan staður til þess að ögra saman.54 54 hooks, Teaching to Transgress, 39. Það er gert ráð fyrir því að fólk ögri í kennslustofunni og því verður kennslustofan einnig að skapa jarðveg fyrir átök, skoðanaskipti, ágreining, mistök og villur. Orðið „error“ sem merkir villa á ensku rekur rætur sínar til latneska orðsins „errare“ sem merkir að ráfa um (íslenska orðið villa, vísar með svipuðum hætti í það að villast). Villur eru ferðalög hugans, leiðir til þess að rannsaka veruleika okkar sem ávallt fela í sér ögrun. Villurnar – ráfið og ögranirnar – skapa þekkingu sem er aftur myndar grundvöll þess að greina í sundur staðreyndir og lygar. Villur tilheyra leitinni að einhverju sem okkur skortir, sem við höfum þörf fyrir, sem við teljum mikilvægt að hafa, hvort sem um er að ræða afnám þrælahalds, eðlisfræðikenningar eða frelsi til þess að reisa eigið hús. Það að gangast við villunum er forsenda frekara náms.55 55 Meadows, Thinking in Systems, 181.

Menntun er bæði grundvöllur lýðræðis og þess að lifa af. Ekkert samfélag endist án þess að séð sé til þess að þekking og viska berist frá einni kynslóð til annarrar.56 56 Henry A. Giroux, On Critical Pedagogy (London: Bloomsbury, 2011). Slík miðlun krefst félagsfærni og réttra aðstæðna til að kenna og læra, það er réttu kennslufræðanna sem framleiða ekki aðeins „tæknifólk“ heldur ábyrga borgara, fólk sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, fólk sem vill berjast gegn geðveikinni, standa andspænis raunveruleikanum og lagfæra margvíslega hönnunargalla hans, fólk sem vill vera virkir samfélagsþátttakendur. Heimspekingurinn Bertrand Russell taldi að hið góða líf krefðist þess að maður fléttaði saman þekkingu og ást til að skapa rými fyrir samfélag og almannahagsmuni. Þessu er mikilvægt að halda til haga í menntun og þetta er kjarninn í þroskun samfélagsþátttöku.57 57 Russell, What I Believe. Borgaralegri samfélagsþátttöku er gjarnan lýst á erlendum tungumálum með orðum sem rekja rætur sínar til latneska orðsins „civitas“ sem tekur til þeirra félagslegu, pólitísku og menningarlegu kerfa sem eru sameiginleg íbúum ákveðinnar borgar. En „civitas“ merkir ekki aðeins samfélagslíkama borgaranna, heldur er það jafnframt samfélagssáttmálinn sem leiðir alla borgarana saman. Í þeim skilningi tekur hugtakið til þeirra einstaklingsbundnu og samfélagslegu réttinda borgarans sem standa vörð um bæði almannahagsmuni og sameiginleg gæði. Þar sem að við lifum í hnattvæddu samfélagi er einnig mikilvægt fyrir okkur að hlúa að þessu með tilliti til alþjóðlegrar samfélagsþátttöku – skilja það að gjörðir okkar hafa ætíð áhrif á tilvist fólks um allan heim.

HLUTVERK
HÖNNUNARMENNTUNAR

Í mörgum erlendum tungumálum rekur orðið fyrir hönnun rætur sínar til latneska orðsins „de signare“ sem merkir að merkja, að tákna eða að velja. 58 58 Roberto Verganti, Design-driven Innovation: Changing the Rules of Competition by Radically Innovating What Things Mean (Boston: Harvard Business Press, 2008). Hönnun snýst nefnilega um val og stöðuga rannsókn á því hvernig best er að velja – að því leyti er um síendurtekið ferli að ræða. Alistair Faud-Luke lítur svo á að hönnun „megi nota sem verkfæri; til að endurhugsa hversdagslífið, umbreyta hugmyndum um iðnframleiðslu, stjórnskipan, einstaklingsrými og almannarými, þau kerfi og tengslanet sem þegar eru til staðar og til þess að skapa nýjar tegundir aðgerða, pólitískrar vitundar og samfélags.“59 59 Alistair Faud-Luke, Design Activism: Beautiful Strangeness for a Sustainable World(London: Earthscan, 2009), 25. Með þessu móti verður hönnun að rannsóknartæki í leit að sannleikanum (jafnvel þó svo að sannleikurinn standi sjaldnast í stað) í stöðugri viðleitni okkar til að greina staðreyndir frá lygum. Af þessu leiðir að flæði fjármagns, auðlindanýting, lofstlagsbreytingar, hröð borgarþróun, flóttamannavandi, dýraréttindi og upplýsingar um slík málefni eru allt viðfangsefni hönnunar.60 60 Beatriz Colomina & Mark Wigley, Are We Human?: Notes on an Archaeology of Design (Zürich: Lars Müller Publishers, 2016), 12.

Við lifum í hnattrænum heimi þar sem fréttir ferðast á hraða internetsins en einmitt vegna þess hvað allt gerist skyndilega hefur skapast glundroði þegar kemur að því að greina í sundur staðreyndir og lygar. Sá glundroði takmarkar aðgang okkar að merkingarbærum sannindum og getu okkar til að grípa inn í.61 61 Ibid., 85. Alvin Toffler skilgreinir þetta ástand sem lamar ákvarðanatöku „framtíðaráfall“.62 62 Russell L. Ackoff, Ackoff’s Best: His Classic Writings on Management (New York: John Wiley & Sons, 1999). Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir sem hnattrænt samfélag eru af þeim sökum fólgnar í því að læra hvernig taka megi grundvallarákvarðanir í sífellt flóknari og óstöðugri heimi, og ennfremur hvernig við getum aðhafst í öngþveitinu og sigrast á því. Jafnvel þó að aðgangur að upplýsingum sé grundvallaratriði þegar við tökum ákvarðanir, þá verðum við einnig að höfða til samfélagslegar ábyrgðar þegar við hvetjum til aðgerða. Við verðum að hafa hugrekki til þess að ögra með athöfnum, að tengja sjálf okkur heiminum á nýjan leik, fólkinu sem hér býr og stöðunum sem hér eru.63 63 Susan Sontag, Regarding the Pain of Others (London: Penguin Books, 2004). Menntun til samfélagsþátttöku snýst um að þroska borgaralega færni nemenda og valdefla þá, hvetja þá til að knýja fram hugmyndir sínar handan kennslustofunnar, sem samfélagsþátttakendur og borgarar. 64 64 Elizabeth Resnick, Developing Citizen Designers (New York: Bloomsbury Academic, 2016). Hönnun felur í sér ákvarðanir og ákvarðanir okkar verða að stjórnast af þekkingu á staðreyndum, reynslu, samfélagslegri og siðferðislegri afstöðu, sem og af vitund um að við búum í kerfi flókinna tengsla og sambanda – við lifum í samfélögum.65 65 John Thackara, How to Thrive in the Next Economy (London: Thames & Hudson, 2017).

Hönnun fæst við fólk og ákvarðanir þeirra, hönnun er félagsvísindi sem greinir ekki aðeins veruleikann heldur samþættir hann, og spyr hann út úr. Hönnun snýst um að ímynda sér ólíka veruleika, hugsa um hvað-ef sviðsmyndir og yfirvega merkingu þeirra. Hönnun snýst um ákvarðanir sem við tökum og skilning á afleiðingum þeirra fyrir samfélagið og umhverfið. Hönnun hefst í aðstæðum sem við upplifum vegna matarsóunar, vegna umferðaröngþveita, vegna fatlana, vegna óþægilegra aðstæðna, vegna reiði. Hönnun er pólitísk. Gríska hugtakið „politiká“ merkir bókstaflega borgin, það má þýða „politiká“ sem það sem varðar borgina. Pólitískur einstaklingur er einstaklingur sem lætur sér annt um borgina sína, um samfélagið sitt.

„Það að kenna og læra tilheyrir raunverulegu lífi og raunverulegt líf felur í sér pólitík og fólk.“66 66 Wink, Critical Pedagogy, 77. Hönnunarnemendur verða að skilja að „vandamál heimsins skiptast ekki upp með sama hætti og háskólarnir gera“.67 67 Jamshid Gharajedaghi, Systems Thinking: Managing Chaos and Complexity: A Platform for Designing Business Architecture (London: Elsevier, 2011), 104. Það verður að þróa nýtt samband á milli ólíkra vísindagreina og ögra viðteknum akademískum landamærum. Þar af leiðandi er mikilvægt að sjá háskóla fyrir sér sem samræðuvettvang sem byggir á samstarfi, ekki aðeins á milli ólíkra faggreina, heldur einnig með tilliti til félagslegra aðstæðna okkar, fólks og staða sem við rekumst á menntaveginum.68 68 Sharon E. Sutton & Susan P. Kemp, „Integrating Social Science and Design Inquiry Through Interdisciplinary Design Charrettes: An Approach to Participatory Community Problem Solving,“ American Journal of Community Psychology 38, #1–2 (2006): 125, DOI: 10.1007/s10464-006-9065-0. Í ritgerð sinni um kennslufræði, „Learning to Live,“ skilgreinir fræðimaðurinn Thomas Merton tilgang menntunar sem fólginn í því að styðja við nemendur að vera þeir sjálfir, af heilindum – í leit að sannleika á vegferð sem er eftir allt saman ekki einmana vegferð heldur sameiginleg, heilandi vegferð. 69 69 hooks, Teaching to Transgress.

Arkitektinn og menntafrömuðurinn Tony van Raat skrifar í inngangsorðum að bók sem kallast 202 for Refugees að „hlutverk menntunar hljóti að felast í því að aðstoða næstu kynslóð borgara að öðlast meðvitund um félagslegar og pólitískar skyldur sínar og gera þeim kleift að öðlast bæði hæfni og afstöðu til þess að hugsa sjálfstætt og hafa áhrif.“ 70 70 Tony van Raat, 202 for Refugees, (ritstj./Ed.) Magdalena Garbarczyk (Auckland: UNITEC, 2016). Menntun snýst um meðvitund. Hún er fólgin í því að þroska og þróa, ekki aðeins vísindalega staðreyndaþekkingu, heldur einnig samkennd, tilfinningagreind, félagsfærni og hönnunarfærni með það fyrir augum að takast á við og leysa áskoranir í samtímanum, að leggja eitthvað af mörkum og taka þátt sem borgarar í samfélagi okkar og í heiminum. Það er nefnilega svo að í þessum menningarlega og efnahagslega ofurtengda heimi eru engin vandamál sem þrífast í tómarúmi. Þegar við lærum að deila þekkingu og vinna saman er hægt að takast á við vandamál með heildstæðari hætti. Hlutverk mitt sem kennara er fólgið í því að hvetja nemendur til að ögra viðteknum mörkum. Það gefur mér síðan hugrekki til þess að halda sjálfur áfram að ögra.

Lúpína


Lupinus Nootkatensis er ertublóm sem flutt var inn frá Alaska árið 1945. Síðan þá hefur henni verið beitt með árangursríkum hætti til að endurheimta ófrjóan jarðveg og sporna gegn jarðvegseyðingu. Á þessum tíma hefur lúpínan lagt undir sig ýmis berskjölduð landsvæði á Íslandi. Margir, sem fyrst og fremst koma auga á galla plöntunnar, uppræta vöxt hennar. Elínu Sigríði Hjartardóttur og Ingu Kristínu Guðlaugsdóttur þótti áhugavert að velja lúpínuna og gera efnislegar rannsóknir á möguleikum hennar sem hráefni. Verkefni okkar fólst í því að framleiða niðurbrotsefni án aukefna. Að ná slíku markmiði gæti breytt sýn landsmanna á lúpínuna og veitt henni tækifæri á nýjum grundvelli.

DAUÐI OG ENDURFÆÐING

„Í náminu er lögð áhersla á að dýpka skilning okkar á þeim áhrifum sem við höfum með verkum okkar í stað þess að einblína á notagildi og lokaniðurstöðu. Okkur er ætlað að skilja sögulegt samhengi fræðigreina og bera fram nýjar spurningar um gildismat, gerð og framleiðsluferli í nútímasamhengi.“ Þetta eru orð þeirra Elínar Sigríðar Hjartardóttur og Ingu Kristínar Guðlaugsdóttur, höfunda verkefnisins Lúpínan í nýju ljósi sem hlaut íslensku nýsköpunarverðlaunin árið 2018. Þær ljúka báðar námi frá vöruhönnunarbraut við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla íslands vorið 2019 en verðlaunaverkefnið rekur rætur sínar allt aftur í fyrsta námskeiðið sem þær sátu í náminu.

Þeir Garðar Eyjólfsson og Thomas Pausz sem kenndu námskeiðið byrjuðu á því að biðja nemendur um að „drepa“ eitthvað. Markmið námskeiðisins var að kenna nemendum að takast á við skapandi ferli með gagnrýni, innsæi og ímyndunarafl að leiðarljósi. Inga valdi sér lúpínuplöntuna og fór að gera ýmsar tilraunir með hana sem hráefni. Tilraunirnar byggðu á aðferðum sem notaðar eru við gerð náttúrulegra trefjaefna, þar sem ýmsum aukaefnum er bætt við. Inga leitaðist aftur á móti við að sleppa öllum aukaefnum í sínum tilraunum. Þegar hún maukaði og pressaði rót lúpínunnar komst hún að raun um að plantan myndar sjálf harðgert efni sem minnir einna helst á MDF viðartrefjaefni.



Í framhaldi af námskeiðinu fengu Inga og Elín Sigríður styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að þróa verkefnið frekar undir handleiðslu Thomasar Pausz og Magnúsar Jóhannssonar frá Landgræðslu ríkisins. Markmiðið með þróun verkefnisins var að mæla styrk lúpínutrefjanna og bera saman við styrk annarra þekktra trefjaefna með það fyrir augum að koma lúpínutrefjunum á kortið sem byggingarefni sem uppfylli staðla annarra trefjaefna. Með fulltingi Magnúsar skipulögðu Inga og Elín Sigríður uppsetningu og mælikerfi rannsóknarinnar og gerðu beygjubrotþolsprófanir. Niðurstöður þeirra leiddu í ljós að samanborið við prófanir á öðrum þekktum byggingarefnum þá fullnægja trefjaplöturnar sem unnar eru úr lúpínunni kröfur um milliþéttar trefjaplötur (MDF) sem notaðar er meðal annars sem byggingarefni innanhúss.

Lúpínan hefur mikinn lífmassa sem hefur ekki verið litið á sem auðlind hingað til. Plantan vex orðið víða á landinu og hana er því auðvelt að nálgast. Trefjaefni úr lúpínu hefur þann kost umfram flest sambærileg efni að það er unnið alfarið úr plöntunni án nokkurra aukaefna. Það er því algjörlega umhverfisvænt og brotnar fullkomlega niður í náttúrunni. Það sama er ekki hægt að segja um fjöldann allan af trefjaefnum sem notuð eru í dag og safnast upp sem úrgangur í lífríkinu.

„Nýsköpun þarf að ígrunda vel og setja í samhengi við sjálfbærni auðlinda, framleiðsluferla og hráefna. Þó svo að við séum að vinna trefjaefni úr lúpínu er markmiðið með verkefninu ekki síður að senda samfélaginu skilaboð – það er að við horfum til framleiðslu efna sem brotna fullkomlega niður í náttúrunni án mikilla ósjálfbærra inngripa í auðlindir,“ segja Inga og Elín sem telja sig hafa öðlast nýja sýn á plöntuna og vistkerfi hennar í rannsóknum sínum.






Milli Mars og Venusar

TÁKN HANDAN
KYNJATVÍHYGGJUNNAR

Grafísk tákn eru afar mikilvæg í allri réttindabaráttu því þau auðkenna ákveðna hópa eða vissa afstöðu. Slíkum táknum er gjarnan flaggað með fánum í því skyni að skapa samstöðu – sérstaklega meðal fólks sem berst fyrir réttindum tiltekinna hópa. Þetta má glöggt sjá innan hinsegin hreyfingarinnar þar sem ólíkir fánar eru áberandi tákn ýmissa minnihlutahópa sem tilheyra hreyfingunni. Hreyfingin berst fyrir viðurkenningu og réttindum fólks með mismunandi kynhneigð og kynvitund og regnbogafáni hreyfingarinnar er vel þekktur. Litirnir í regnbogafánanum tákna sameiningu og sameiginlega baráttu og honum er til dæmis flaggað í þeim tilgangi að lýsa yfir stuðningi við málstaðinn, auka sýnileika þeirra sem tilheyra hreyfingunni eða til þess að leiða kröfugöngur. Þar sem slík merki geta táknað eitthvað sem er ekki samfélagslega viðurkennt sýnir það oft einstakt hugrekki að flagga þeim með stolti.

Hér verður fjallað sérstaklega um réttindabaráttu trans eða kynsegin fólks (e. non-cis) en hugtökin lýsa þeim sem ekki samsama sig með-fæddu kyni eða kjósa að skilgreina sig handan kynjatvíhyggju og í þessari grein verða þau aðallega notuð í þeim skilningi. Kynsegin getur einnig verið notað til að þýða enska hugtakið „genderqueer“ sem merkir einstakling sem samsamar sig bæði karlkyni og kvenkyni, hvorugu, eða einhverju öðru. Þessir hópar starfa gjarnan innan regnhlífarsamtaka hinsegin fólks en réttindabarátta trans og kynsegin fólks er að mörgu leyti fólgin í öðrum þáttum en til dæmis réttindabarátta samkynhneigðra þó svo að hagsmunir þessara hópa fari oft saman.

Þrátt fyrir að hugtökin trans eða kynsegin séu tiltölulega ný af nálinni þá er þörfin fyrir það að tjá aðra kynvitund en þá sem úthlutað var við fæðingu alls ekki ný.71 71 „Hinsegin orðabók,“ Áttavitinn, (u.) 31. 5. 2018, attavitinn.is/sambond-og-kynlif/hinsegin/hinsegin-fra-a-o. Til dæmis má nefna samfélagshópa á borð við Hijra á Indlandi, Takatāpuifrá Nýja Sjálandi og Fa’afafine frá Samóa. Allir eiga þessir hópar það sameiginlegt að skilgreina sig utan við kynjatvíhyggju og með hugtökum samtímans væri mögulegt að skilgreina þá sem intersex, trans eða kynsegin.72 72 Stephen Whittle, „A Brief History of Transgender Issues,“ The Guardian, 2. 6. 2010, theguardian.com/lifeandstyle/2010/jun/02/brief-history-transgender-issues.

Tilvist transfólks og annarra utan kynjatvíhyggjunnar er að verða viðurkenndari í hinum vestræna heimi. Víða er verið að breyta lögum og íhaldssamar hugmyndir um kyn eru að víkja fyrir kenningum um kyn og kynvitund sem róf.73 73 Surya Monro, „Transmuting Gender Binaries: The Theoretical Challenge,“ Sociological Research Online 12, #1 (2007): 1–15, DOI: 10.5153/sro.1514. Á Íslandi má nefna réttindahópana Samtökin ’78 og Trans Ísland sem barist hafa fyrir réttindum transfólks og kynsegin fólks, en samskonar samtök og hópar eru starfandi um allan heim. Þrátt fyrir að miklar framfarir hafi átt sér stað síðastliðin ár þá er enn langt í land og réttindabaráttan í fullum gangi.

Samstaða, skilningur, sýnileiki og barátta ryðja brautina að jafnara samfélagi og öruggara umhverfi fyrir trans og kynsegin fólk. Gjarnan er stuðst við mikilvæg samstöðutákn í réttindabaráttu og barátta trans og kynsegin fólks er þar engan veginn undanskilin. Fáni transfólks á sér nokkuð merka sögu sem verður rakin hér í ljósi þeirra tákna og lita sem notuð eru til að auðkenna málstaðinn.

TRANSFÁNAR
Í GEGNUM TÍÐINA

Hinsegin fólk hefur notast við ýmis konar tákn í gegnum tíðina í ólíkum tilgangi. Sum tákn hafa verið notuð í því skyni að gefa hinsegin fólki til kynna að maður tilheyrði sama samfélagi á tímum þegar fólk gat átt það á hættu að vera sótt tilsaka eða verða fyrir ofbeldi ef upp kæmist um hinsegin kynhneigð eða kynvitund þess.74 74 „Tákn hinsegin samfélagsins,“ Hinsegin frá Ö til A, (s./a.) 21. 11. 2018, otila.is/samfelagid/hagsmunabaratta/takn-hinsegin-samfelagsins. Önnur tákn eru beinlínis tengd réttindabaráttu og hafa þann tilgang að hvetja fólk til dáða. Þau erueinnig til þess fallin að auka sýnileika ólíkra hópa hinsegin fólks, bæði innan samfélagsins alls sem og innan samfélags hinsegin fólks því þar eru hópar tvíkynhneigðra, pankynhneigðra og kynsegin fólks gjarnan jaðarsettir. Meðal þeirra tákna sem notuð hafa verið í réttindabaráttu til marks um stolt er bleikur þríhyrningur, tákn samkynhneigðra karla og svartur þríhyrningur, tákn samkynhneigðra kvenna. Saga beggja þessara tákna er afar sorgleg, en nasistar notuðu þau til að merkja samkynhneigða í útrýmingarbúðum í seinni heimsstyrjöld.75 75 „Tákn hinsegin samfélagsins.“

Bleiki þríhyrningurinn er einmitt til staðar í elsta trans-fána sem vitað er um en þann fána hannaði transkonan Dawn Holland fyrir samtökin Queer Nation Transgender Focus Group árið 1991.A A Hönnunin fyrir miðju fánans var hugsuð sem merking á stuttermaboli fyrir kröfugöngu sem samtökin stóðu fyrir en fáninn hefur aldrei notið mikilla vinsælda.77 77 „History of the Pride Flag,“ International Transgender Historical Society, (s./a.) 21. 11. 2018, transgendersociety.yolasite.com/tg-pride-flag-history-timeline.php.

Árið 1999 birti transmaðurinn Johnathan Andrew að eigin sögn fyrsta trans fánann undir dulnefninu Captain John.78 78 „Pride,“ Adventures in Boyland, 6. 3. 2001, web.archive.org/web/20010306133412/http://www.adventuresinboyland.com/pride.html. Ólíkt fána Dawn Holland dró nýi fáninn B B dám af hinum hefðbundna hinsegin fána – hann prýða bleikar og bláar línur sem tákna kvenkyn og karlkyn en þar að auki er hefðbundið trans tákn staðsett uppi í vinstra horni fánans.80 80 „History of the Pride Flag.“ Ástæðan fyrir því að Andrew fullyrðir að um fyrsta trans fánann hafi verið að ræða er sú að leit hans á netinu (fyrir tíma Google) bar engan árangur. Þrátt fyrir að Dawn Holland hefði hannað fána fyrir trans fólk átta árum fyrr var sá fáni lítið þekktur og því notuðu flestir hópar trans fólks ennþá regbogafánann. Af þessum sökum fannst Andrew nauðsynlegt að trans fólk fengi sinn eigin fána og því tók hann málin í sínar eigin hendur. Hann segir um hönnun beggja fánanna, sína eigin og hönnun Dawn Holland:

Hvort sem við erum […] að fara frá karlkyni (bláum) yfir í kvenkyn (bleikan) eða frá kvenkyni (bleikum) yfir í karlkyn (bláan), eða einfaldlega eitthvert þar á milli þá fangar hönnun beggja fána þau blæbrigði og þann styrk sem fólgin eru í anda okkar(og hvítu áherslulínurnar marka þá smáu sigra sem hafa unnist á ólíkum brautum okkar í átt til þess að verða heil […]).81 81 „Pride.“

Seinna sama ár leit enn annar fáni dagsins ljós sem átti eftir að festast í sessi sem einkennisfáni trans fólks.C C Í ágúst 1999, rúmum 20 árum eftir tilkomu hinsegin fánans, hannaði transkonan Monica Helms þann fána sem flestir þekkja í dag. Helms hafði lengi beitt sér ötullega í baráttutrans fólks og einbeitt sér sérstakega að viðurkenningu þeirra innan bandaríska hersins en sjálf er hún fyrrverandi hermaður. Michael Page, höfundur tvíkynhneigða fánans og vinur Monicu hvatti hana til þess að taka að sér það verkefniað hanna fána trans fólks. Monica féllst á það og hugmyndin kom fljótt til hennar – „það var næstum því eins og að vakna upp af draumi og sjá hann fyrir sér,“ sagði hún síðar.83 83 „History of the Pride Flag.“

Fáninn skiptist í fimm rendur, efst og neðst eru bláar rendur og í miðjunni er ein hvít lína en þeirra á milli eru tvær bleikar línur. Bleikur og blár eru hinir „hefðbundnu“ litir kynjanna. Hvíta línan táknar aftur á móti þau sem eru trans, í leiðréttingarferli, intersex eða þau sem kjósa ekki að skilgreina kyn sitt eða samsama sig engu kyni.84 84 „Tákn hinsegin samfélagsins.“ Mynstrið er þannig hannað að sama hvernig fánanum er flaggað þá snýr hann alltaf rétt, en Helms vildimeð því leggja áherslu á mikilvægi þess að hvert og eitt okkar finni það sem er rétt í sínu lífi. 85 85 Aaron Sankin, „Transgender Flag Flies In San Francisco’s Castro District After Outrage From Activists,“ Huffington Post, 20. 11. 2012, huffingtonpost.com/2012/11/20/transgender-flag_n_2166742.html.

Helms flaggaði trans fánanum í fyrsta sinní gleðigöngu í Phoenix í Arizona árið 2000. Hún fór að nota fánann „alls staðar og hvar sem er,“86 86 Zack Ford, „Transgender Pride Flag Designer Applauds Smithsonian LGBT Artifacts Collection,“ Think Progress, 27. 8. 2014, thinkprogress.org/transgender-pride-flag-designer-applauds-smithsonian-lgbt-artifacts-collection-51a7d1ade112. eins og hún orðaði það og ekki leið á löngu áðuren að fleiri vildu eignast fánann. Helms er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að allt samfélag hinsegin fólks geti notað regnbogafánann til að sýna samstöðu hvert með öðru um leið og hver hópur undir regnhlífarhugtakinu hinsegin skuli eiga sér sinn fána. Helms nefnir í því samhengi að í Bandaríkjunum þyki eðlilegt að hvert ríki hafisinn eigin fána, þó svo að bandaríski fáninn sé jafnframt tákn þjóðarinnar allrar.87 87 Ibid. Trans fáni Monicu Helms er nú orðinn að alþjóðlegu tákni trans og kynsegin fólks.88 88 „Milestone: Smithsonian Accepts Original Trans Pride Flag,“ National Center for Transgender Equality, 19. 8. 2014, transequality.org/blog/milestone-smithsonian-accepts-original-trans-pride-flag.

Þegar frumeintakið af fánanum var gefið Smithsonian safninu við hátíðlega athöfn, 19. ágúst 2014, komst Mara Keisling, stofnandi og framkvæmdastjóri samtakanna National Center for Transgender Equality svo að orði:

Bleiku, bláu og hvítu efnisstrangarnir sem Monica saumaði fyrst saman fyrir 15 árum tákna nú trans samfélagið. Þeir eru að eilífu greyptir í fána sem flaggað hefur verið á stöðum sem áður stóðu okkur ekki opnir og boða samfélag og félagsskap andspænis ofbeldi og misnotkun. Það er loks í dag, sem verið er að viðurkenna þessa sömu efnisstranga sem hluta þeirra rauðu, hvítu og bláu efnisstranga sem tjá hina ríkulegu fjölbreytni Ameríku. Það er mér mikill heiður á þessum degi, að verið sé að samþykkja fána trans fólks – fánann okkar – sem amerísk menningarverðmæti sem viðurkenna trans fólk. Athöfnin í dag er hluti framsækinnar menningarbreytingar sem segir – í augum Ameríkumanna – trans fólk er hér, hefur verið hér og mun ætíð vera hér.89 89 Ibid.

Þegar Helms tók til máls í athöfninni hélt hún á lofti þeirri von sinni sem fyrrverandi hermaður að þessi viðurkenning á baráttu hennar myndi einnig hafa áhrif á viðhorf ríkisstjórnarinnar gagnvart trans hermönnum svo að trans fólk gæti notið þeirra réttinda eins og aðrir Bandaríkjamenn að þjóna í bandaríska hernum.90 90 Ibid.

Fjölmörg tilbrigði við fána Monicu Helms eru til. Einna þekktast er sennilega fáni Jennifer Pellinen frá árinu 2002 en Pellinen þekkti raunar ekki til hönnun Monicu Helms.D D Líkt og Monica vildi Pellinen búa til fána sem væri sértækur og stæði einungis fyrir trans samfélagið. Í fána Pellineneru rendurnar ekki speglaðar eins og í fána Helms og er fáninn mun líkari hinum hefðbundna regn-bogafána. Líkt og fáni Helms stendur hönnun Pellinen fyrir hin ýmsu kynsegin blæbrigði sem tákna má á milli hinna hefðbundnu kynjalita, þess bleika og þess bláa.92 92 „History of the Pride Flag.“

Mikilvægt er að fánar í réttindabaráttu af því tagi sem hér er til umfjöllunar séu sveigjanlegir og geti tekið breytingum svo sem flestir geti samsamað sig þeirri merkingu sem verið er að tjá með fán-anum. Ólík trans samfélög hafa útfært hönnun Monicu Helms með einhverjum hætti, svo sem að bæta við táknum, til afmörkunar frá öðrum skyld-um hópum. Innan grasrótarhreyfinga á borð við samfélag trans og kynsegin fólks er mikilvægt að fólk taki málin í eigin hendur og skapi fána og merki sem varðveita fjölbreytileika hópsins. Af þeim sökum er slík hönnun í eðli sínu lýðræðisleg.

TÁKNFRÆÐI HANDAN
KYNJATVÍHYGGJU

Trans samfélagið notast við fjölbreyttar útfærslurá hinum þekktu kynjatáknum, kross á hring og ör á hring. Kynjatáknin voru tákn fyrir pláneturnar Venus og Mars í fornri grísk-rómverskri stjörnufræði en þau rekja uppruna sinn enn lengra aftur í söguna.93 93 Robert G. Resta, „The Crane’s Foot: The Rise of the Pedigree in Human Genetics,“ Journal of Genetic Counseling 2, #4 (1993): 235–60, DOI: 10.1007/BF00961574. Það var aftur á móti sænski líf-fræðingurinn Carl von Linné sem var fyrstur til að nota þessi tákn í líffræðilegu samhengi. Það gerði hann til þess að aðgreina kyn plantna í ritgerð sinni Plantae hybridae frá árinu 1751.94 94 William T. Stearn, „The Origin of the Male and Female Symbols of Biology,“ Taxon 11, #4 (1962): 109–113, DOI: 10.2307/1217734. Á okkar tímum merkja þessi ævafornu tákn annaðhvort líffræðilegt eða félagslegt kyn.95 95 Ibid., 109.

Transtáknin byggja í grundvallaratriðum á tveimur ólíkum útfærslum. Annars vegar er hefð fyrir því að sameina kynjatáknin í einu tákni, til dæmis ⚥ eða ⚧. Í stað þess að hringirnir séu hlekkjaðir saman þá eru bæði táknin, krossinn og örin, sett á einn hring. Í þeirri samsetningu tákna merkin hvoru tveggja þá karl- og kveneiginleika sem kunna að búa í einum og sama einstaklingnum. Þetta samsetta tákn er mikið notað oger vel þekkt sem tákn kynsegin samfélagins. Hins vegar er gjarnan notast við þriðja plánetutáknið til að tákna kynsegin fólk. Það er merki guðsins Merkúr ☿ en það tákn hefur sterka sögulega skírskotun til kynsegin fólks. Hermafródítus, hið tvíkynja bur Merkúr, er nefnilega táknað með þessu merki í grískri goðafræði. Merkið er samansett af krossi sem vísar niður sem tákn um kvenleika og hálfmána sem táknar karlleika.Táknin eru staðsett sitt hvoru megin á hringnumog merkja þannig jafnvægi milli þessara tveggja hluta, hins kvenlæga og hins karllæga.96 96 „Symbols of the Gay, Lesbian, Bisexual, and Transgender Movements,“ LAMBDA, (s./a.) 26. 12. 2004, qrd.org/qrd/www/orgs/avproject/symbols.html.

Auk kynjamerkjanna og útfærslna þeirra er gjarnan snúið upp á hefðbundið kynjamyndmál í táknfræði kynsegin samfélagsins. Til að mynda er bleikur notaður sem tákn um kvenleika og blár sem tákn um karlmennsku. Með því að nota slík hefðbundin sjónræn leiðarstef sem almenningur þekkir opnast möguleiki á því að setja táknin í nýtt samhengi sem brýtur upp samfélagslega merkingu þeirra og skapar jafnvel nýja. Í stað þess að tjá myndmál tveggja fullkomlega aðskilinna og ólíkra kynja er myndmálinu blandað saman á rófi ólíkra kyngerva.97 97 Monro, „Transmuting Gender Binaries.“ Litanotkun Monicu Helms í transfánanum er dæmi um það hvernig hefðbundnir litir kynjanna, bleikur og blár, eru notaðir til að merkja eitthvað nýtt. Þar eru verið að setja þekkt tákn í nýtt samhengi til þess að brjóta upp hefðbundnar hugmyndir um kyn. Þar með skapast grundvöllur fyrir samstöðu handan kynjatvíhyggjunnar í fána sem flaggað er í nafni baráttunnar.

Auk þess er gjarnan stuðst við liti í réttindabaráttu handan kynjatvíhyggju sem hafa ekki sérstaka kynjaða merkingu. Þar má til að mynda nefna gulan og fjólubláan en þeir litir koma til dæmis fyrir í intersex fánanum sem er gulur með fjólubláum hring í miðjunni.E E Gulur hefur gjarnan verið notaður sem kynlaus litur og fjólublár er síðan einhvers staðar á milli bleiku og bláu litanna. Í intersex fánanum er reyndar ekki aðeins brugðið á leik með liti heldur er einnig verið að skapa hugrenningartengsl við tákn Mars og Venusar – sérkenni þeirra hafa verið fjarlægð og aðeins hringurinn situr eftir.99 99 Morgan Carpenter, „An Intersex Flag,“ Intersex Human Rights Australia, 5. 7. 2013, ihra.org.au/22773/an-intersex-flag. Í kynsegin (e. genderqueer) fánanum er einnig notast við fjólubláan sem vísuní sambland af kvenleika og karlmennsku og hvítan eins og í trans fánanum sem tákn um hlutleysi og hlutlaust kyngervi.F F Neðst í fánanum er græn rönd, en grænn skapar andstæðu við fjólubláan. Marilyn Roxie, hönnuður kynsegin fánans, segir hann í andstöðu við kynjatvíhyggju, í andstöðu við sam-bland af kvenleika og karlmennsku.101 101 Marilyn Roxie, „About the Flag,“ Genderqueer and Non-binary Identities, (s./a.) 23. 11. 2018, genderqueerid.com/about-flag.

Þó svo að það kunni að virðast þversagnakennt í fyrstu andrá þá er að sjálfsögðu engin tilviljunað hefðbundin tákn kynjanna séu notuð til þess að brjóta upp kynjatvíhyggju. Með því að nota tákn sem þegar hafa öðlast sess í hugum fólks verður samstundis ljóst hvað er verið að tákna. Jafnvel þó verið sé að snúa upp á hefðbundna merkingu, til dæmis með því að blanda saman táknum Mars og Venusar, þá skilst merkingin engu að síður. Það er alveg ljóst um hvaða tákn er að ræða um leið og snúið er upp á merkinguna. Táknin hætta að standa fyrir sinn hvorn fastann við endan á rófi kynvitundar og upphefja nýja merkingu handan kynjatvíhyggjunnar.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Bleikur!

Í hönnun getur rétt litaval verið jafn mikilvægt og rétt leturval og góð uppsetning. Litaval er stór þáttur í hönnun vörumerkja og skiptir einnig miklu máli í hönnun vefsíðna, plakata, fatnaðar og bóka, svo fátt eitt sé nefnt. Með litum tjáum við tilfinn­ingar, sendum bæði pólitísk og tilfinningaleg skilaboð og köllum á viðbrögð þeirra sem litina skynja. Í okkar menningarheimi eru fáir litir jafn umdeildir og gildishlaðnir og sá bleiki. Hann táknar í senn „litlar stelpur“, ást, rómantík, krúttleika, sak­leysi og syndir en merking hans breytist einnig með tíðaranda, samhengi og sögu. Bleiki liturinn á sér í raun langa og margbrotna fortíð – og hefur fyrir tilstilli þúsaldarkynslóðarinnar orðið afar áberandi í hönnun og tísku í samtímanum.

Þrátt fyrir að bleikur sé ekki mjög áberandi í náttúrunni er hann þó víða að finna, bæði í plönturíkinu sem og í dýraríkinu. Liturinn á sér sterka skírskotun til rósa í germönskum og rómönskum tungumálum. Til dæmis heitir liturinn „Rosa“ á þýsku og á frönsku „rose“. 102 102 Alice Bucknell, „A Brief History of the Color Pink,“ Artsy, 6. 11. 2017, artsy.net/article/artsy-editorial-history-pink. Orðið „bleikur“ er gamalt orð í íslensku og hafði lengi aðra merkingu en þá sem algengust er í dag. Í fornsögunum hétu akrar bleikir þegar þeir voru ljósgulir af korni,103 103 Richard North, „Iceland’s Alexander: Gunnarr and Pale Corn in ‘Njáls saga’,“ Academia, (s./a.) 24. 11. 2018, academia.edu/36621714/Icelands_Alexander_Gunnarr_and_pale_corn_in_Nj%C3%A1ls_saga. bleikur máni er hvítur og fölur, manneskjur eru bleikar á vanga, bleikir hestar eru gulbrúnir með ljósrauðri slikju og rauðhært fólk var jafnvel sagt hafa bleikt hár. Þá má nefna orðatiltækið „að vera bleikur sem nár“– fölleitur eða jafnvel hvítur, eins og liðið lík.104 104 Skrá um orðsambönd,“ Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, (s./a.) 19. 11. 2018, lexis.hi.is/osamb/osamb.


Mamie Eisenhower við innsetningarathöfn eiginmanns síns.  
Mamie Eisenhower at her husbands inauguration ceremony.  

Þegar menn tóku að búa til bleikan lit var litarefnið sótt í náttúruna. Líkt og rauði liturinn, þá fékkst sá bleiki meðal annars úr plöntu sem kallast rauðmöðrurót (lat. Rubia tinctorum) og rauðum skordýrum. 105 105 Nicole Todd, „Pink Pigment Comes from Where?,“ Hargrett Hours Project, 10. 11. 2017, ctlsites.uga.edu/hargretthoursproject/pink-pigment-comes-from-where. Þessi náttúrulegu litarefni voru hins vegar mjög dýr, og það var því ekki fyrr en um miðja nítjándu öld, þegar verksmiðjuframleidd litarefni komu til sögunnar, að bleiki liturinn náði verulegri útbreiðslu meðal almennings. Vinsældir bleika litarins á Vesturlöndum fóru ört vaxandi á síðari hluta nítjándu aldar og á fyrri hluta þeirrar tuttugustu og svo virðist sem að hin sterku merkingartengsl við kvenleikann hafi ekki verið fest í sessi fyrr en í kringum síðari heimstyrjöld.106 106 Laura Jacobs, „A Color Robed in Meanings,“ Wall Street Journal, 9. 10. 2013, wsj.com/articles/a-color-robed-in-meanings-1381345354.

BLEIKAR
KÚVENDINGAR

Á tímum endurreisnarinnar fóru listmálarar að skilgreina litinn sem hluta af litapallettum sínum en liturinn komst fyrst almennilega í tísku í evrópskri myndlist á rókókótímabilinu (1720–1777). Það var sérstaklega pastel-bleikur sem fólk af öllum stéttum hreifst af á þessum tíma, þó það væri sér í lagi ríkt hefðarfólk í Evrópu sem gat leyft sér bleikar munaðarvörur. Liturinn var þá mikið notaður í innanhúshönnun og í fatnað, bæði karla- og kvennaklæði vel að merkja.107 107 Alice Bucknell, „A Brief History of the Color Pink.“

Fyrr á tímum táknaði rauði liturinn hugrekki og dirfsku og var af þeim sökum álitinn karlmannslitur. Bleikur er örlítið daufari og blíðari en rauður og varð því gjarnan fyrir valinu á drengi og unga menn. Blái liturinn var talinn fíngerðari og viðkvæmari litur en sá rauði og þótti því meira við hæfi stelpna og kvenna.108 108 Marco Del Giudice, „The Twentieth Century Reversal of Pink-Blue Gender Coding: A Scientific Urban Legend?,“ Springer, 21. 7. 2012, link.springer.com/content/pdf/10.1007/s10508-012-0002-z.pdf. Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvenær bleiki liturinn tapaði endanlega karlmannlegri merkingu sinni og varð hreinn kvennalitur. Að lokinni síðari heimsstyrjöld fer bleiki liturinn frá því að vera frekar karlmannlegur – eða jafnvel kynhlutlaus litur – og fær nánast ofurkvenlega merkingu. Viðsnúningurinn virðist hafa hafist á þriðja og fjórða áratugnum og verið orðinn algjör skömmu eftir að stríðinu lauk.109 109 Laura Jacobs, „A Color Robed in Meanings.“

Fataval bandarísku forsetafrúarinnar Mamie Eisenhower sem klæddist skærbleikum kjól við innsetningarathöfn eiginmanns síns árið 1953 ber vitni um vinsældir bleika litarins meðal kvenna eftir stríð.110 110 Katy Steinmetz, „Belles of the Ball: An Insider Look at Inaugeral Gowns,“ Time, 18. 1. 2013, style.time.com/2013/01/18/belles-of-the-ball-an-insiders-look-at-inaugural-gowns/slide/mamie-eisenhower-1953-pretty-in-pink. Liturinn, sem var í miklu uppáhaldi hjá forsetafrúnni, þótti skemmtilegur og ýta undir gleði og bjartsýni, ólíkur þeim gráu og dauflegu litum sem voru áberandi á tímum stríðsins. Þá virðist bleiki liturinn, strax á þessum árum eftir stríð, hafa orðið að öflugu verkfæri í markaðssetningu á varningi sem beindist að konum og átt sinn þátt í því að beina þeim inn í hefðbundin kynhlutverk.111 111 Laura Jacobs, “A Color Robed in Meanings.”


JeongMee Yoon, The Blue Project – Kyungjin and His Blue Things, Gyeonggi-do, Suður–Kórea, LightJet prent (2017).  
JeongMee Yoon, The Blue Project – Kyungjin and His Blue Things, Gyeonggido, South Korea, LightJet Print (2017).  

BLEIK
MARKAÐSSETNING

Frá sjötta áratugnum og allt fram að aldamótum var bleikur að langmestu leyti bundinn við kynhlutverk kvenna og stúlkna og markaðssetningu sem beindist að þeim hópum.112 112 Ibid. Tilkoma Barbiedúkkunnar árið 1959 umturnaði leikfangamarkaðnum. Ekki var nóg að eiga dúkkuna sjálfa heldur var hægt að kaupa ógrynni aukahluta á borð við föt og húsbúnað – og síðasta en ekki síst – kærasta.113 113 Our History,“ Barbie, (s./a.) 6. 3. 2019, barbie.mattel.com/en-us/about/our-history.html. Barbie var með fyrstu leikföngum sem auglýst voru í sjónvarpi og þaðan komst hún inn á fjölmörg heimili í Bandaríkjunum.114 114 Erica Wolf, „Barbie: The Early History,“ The Beat Begins: America in the 1950s, (s./a.) 19. 11. 2018, plosin.com/beatbegins/projects/wolf.html.

Enn þann dag í dag er bleikur gjarnan notaður til að selja vörur sem skilgreindar eru sem „kvenlegar“, jafnvel þótt þær séu það í sjálfu sér ekki og henti bæði konum og körlum. Þá er bleikur einnig áberandi í vörum fyrir ungar stelpur og er ástæðan fyrir litavalinu eftir sem áður sá að geta aukið verðlagningu. Rannsóknir hafa leitt í ljós verðmun á bleikum varningi og sambærilegri vöru í öðrum lit og er gjarnan talað um bleika skattinn í þessu samhengi.115 115 Ólöf Skaftadóttir, „Bleikur skattur: Konur borga meira fyrir það sama,“ Vísir, 13. 2. 2017, visir.is/g/2016160219498. Í umfjöllun CNN um bleika skattinn kemur fram að nýleg könnun neytendastofu New York borgar hafi leitt í ljós að verðmunur á hársnyrtivörum fyrir konur og karla hafi numið tæpum fimmtíu prósentum.116 116 Ivana Kottasova, „‘Pink Tax’ Angers Women from New York to London,“ CNN, 4. 2. 2016, money.cnn.com/2016/02/03/news/female-male-products-pricing-boots. Þetta á reyndar ekki aðeins við um vörur í bleikum umbúðum heldur allar vörur sem markaðssettar eru sem „kvennavarningur“.117 117 Ólöf Skaftadóttir, „Bleikur skattur: Konur borga meira fyrir það sama.“

BLEIK
NIÐURLÆGING

Í ljósi þess að liturinn hefur táknað kvenleika með svo sterkum hætti hefur hann gjarnan verið notaður til að niðurlægja og smána, ekki aðeins konur og stúlkur, heldur einnig karlmenn og drengi. Fyrirlitning á kvenlegum eða hommalegum þáttum í fari karlmanna sést skýrt í þeim fangelsum Bandaríkjanna þar sem fangar eru látnir klæðast bleikum í refsingarskyni fyrir að stunda kynlíf innan veggja fangelsisins.118 118 „Judge Mulls Decision in Lawsuit Over Pink Prison Garb,“ Fox News, 2. 2. 2008, foxnews.com/story/2008/03/02/judge-mulls-decision-in-lawsuit-over-pink-prison-garb.html. Í öðrum tilfellum er fatnaður í öllu fangelsinu hafður bleikur eða með bleiku ívafi og gengur þá niðurlægingin jafnt yfir alla fanga.119 119 Tim Mak, „Where Prisoners Wear Pink Underwear, Eat Meatless Meals and Swelter in the 120-Degree Heat,“ Washington Examiner, 8. 4. 2014, washingtonexaminer.com/arizonas-tent-city-jail-where-prisoners-wear-pink-underwear-eat-meatless-meals-and-swelter-in-the-120-degree-heat.


JeongMee Yoon, The Pink Project – Jeeyoo and Her Pink Things, Seoul, Suður–Kórea, LightJet prent (2007).  
JeongMee Yoon, The Pink Project – Jeeyoo and Her Pink Things, Seoul, South Korea, LightJet Print (2007).  

Við upphaf tuttugustu og fyrstu aldarinnar hefur bleikur verið áberandi í kvikmyndum á borð við The House Bunny (2008) og Mean Girls (2004), þar sem liturinn virðist vera notaður sem afgerandi tákn um yfirborðsmennsku og heimsku stúlkna. Í þessum myndum er hann í gagngert notaður til að niðurlægja og smána stúlkur. Á svipuðum tíma og hinar myndirnar kemur út kvikmyndin Legally Blonde (2001) sem gjarnan er talin nokkuð róttæk og fellur vel að feminískum hugmyndum um endurheimt bleika litarins og þar með kvenleikans sem blaðamaður The Guardian, Priya Elan, ræðir í greininni „Think Pink: How the Colour is Being Reclaimed.“ Hvatt er til þess að konur flaggi slíkum táknum með stolti og geri að sínum eigin, fremur en að sætta sig við niðurlægjandi notkun þeirra.120 120 Priya Elan, „Think Pink: How the Colour is Being Reclaimed,“ The Guardian, 10. 9. 2014, theguardian.com/lifeandstyle/2014/sep/10/think-pink-how-the-colour-is-being-reclaimed.

BLEIK
VALDEFLING

Á sama tíma og bandarískir fangar neyðast til að klæðast bleiku fær liturinn að njóta sín innan rapptónlistargeirans. Karlkyns rapparar á borð við Kanye West, Drake og fleiri hafa tekið upp á því að klæðast bleikum og nota litinn í tónlistarmyndböndum sínum sem og ýmsum varningi. Tónlistarmönnunum finnst auðsjáanlega ekki niðurlægjandi að klæðast bleiku heldur nota þeir litinn þvert á móti til að gefa til kynna bæði sjálfstraust þeirra og stíl. Merking litarins í slíku samhengi vísar að vissu leyti aftur til þess tíma þegar bleikur var enn strákalitur og táknaði dirfsku og þor, að því undanskyldu að nú felst dirfska karlmannanna og þor þeirra beinlínis í því að klæðast því sem talið er kvenlegt. Hér skal því haldið til haga að tónlistarmennirnir endurskilgreina merkingu litarins í krafti þess að geta valið hverju þeir klæðast og því ómögulegt að leggja það að jöfnu við til dæmis bleika fangaklæðnaðinn þar sem liturinn er notaður sem refsingatæki. Það voru ekki aðeins karlmenn innan rappsenunnar sem tóku bleika litinn upp á sína arma á nýrri þúsöld. Nýverið hafa stjörnur eins og Nicki Minaj og Solange Knowles notað litinn óspart með ólíkum hætti og á eigin forsendum. Gaby Bess túlkar þetta sem svo að hér séu konur að nota bleika litinn sem vopn og brynju til að endurheimta kvenleika sinn í karllægu umhverfi.121 121 Gaby Bess, „How Nicki Minaj and Female Artists are Turning the Color Pink into a Weapon,“ Paper, 21. 8. 2014, papermag.com/how-nicki-minaj-and-female-artists-are-turning-the-color-pink-into-a-w-1427370099.html. Þær taka litinn „til baka“, fjarlægja hann úr verkfærakistu kúgaranna og gera litinn að sínum. Þannig verður liturinn þáttur í valdeflingu kvenna: „Vertu eins „stelpuleg“ eða „kvenleg“ og þú vilt og vertu stolt af því.“ Þar með hefur bleiki liturinn fengið mikilvægt og kraftmikið hlutverk í kvennabaráttunni. Vinsældir bleika litarins að undanförnu má að einhverju leyti rekja til vaxandi femínisma og áhrifa hans í samfélaginu og til enn frekara marks um þær vinsældir hefur ákveðin gerð af fölbleikum verið kölluð þúsaldarbleikur.


Guð í bleikum klæðum skapar sólina. Málverk í lofti sistínsku kapellunnar eftir Michaelangelo.  
God creates the sun wearing pink. Painting in the ceiling in the Sistine Chapel by Michaelangelo.  

Merking og notkun bleika litarins hefur tekið breytingum í gegnum aldirnar en liturinn hefur mátt þola það að merkja ýmislegt. Skilin á milli varnings fyrir konur og karla, stráka og stelpur, eru eftir sem áður oft afar skýr, þökk sé notkun á bleika litnum. Bleikur á sér langa breytingasögu og þó okkur finnist ýmsar breytingar eflaust gerast hægt er hann þó smám saman að endurheimta jákvæðari merkingar, sem og fyrri styrk og þor. Þúsaldarkynslóðin virðist þó ekki á einu máli um hina eiginlegu merkingu litarins. Hann stendur enn sem fyrr fyrir kvenleika, þó sú merking hafi verið endurheimt til valdeflingar og mótmælaaðgerða kvenna og homma. Þó er óhætt að fullyrða að konur jafnt sem karlar, gagnkynhneigðir og samkynhneigðir, töffarar, harðir naglar og lattelepjandi listaspírur klæðast bleikum, veifa bleikum og nota bleikan við upphaf nýrrar þúsaldar.
 
 
 
 



Johannes Verspronck,Stúlka í bláum kjól.Olíumálverk (1641).  


Johannes Verspronck, Girl in a blue dress.Oilpainting (1641).  


 
 
 
 
 
 

Saga verður náttúra



Ég rakst á gamlan spila­­stokk í rykugum kassa heima hjá ömmu minni á Reyni­mel. Spilastokkurinn var rauður með fín­legri gyllingu og prýddur dökkum haka­krossi á hvítum hringlaga fleti. Þetta útlit spila­­stokksins öskraði á mig því það minnti mig ó­þægilega mikið á fagurfræði Adolfs Hitler og þýskra nasista. Mér brá í brún, enda var ég sann­færður um að hug­mynda­­­fræði nasista hefði aldrei skotið rótum á heimili ömmu minnar. Þegar betur var að gáð mátti sjá skrifað í litlu gylltu letri „H/F Eimskipafjelag Íslands“.

„Fá tákn hafa haft jafn mikil áhrif á mann­kynið og haka­krossinn,“ skrifar Steven Heller í bók sinni The Swastika: Symbol Beyond Redemption sem fjallar um þetta æva­forna tákn.122 122 Steven Heller, The Swastika: Symbol Beyond Redemption (New York: Allworth Press, 19.
Upp­runi haka­krossins er ó­þekktur en táknið hefur komið víða fyrir og táknað ótal margt. Orðið „svastika“ kemur upprunalega úr forn-indverska tungu­málinu sanskrít og merkir „velferð“ eða „gæfa“.123 123 Ibid., 20. Þó ótrúlegt megi virðast þá hefur haka­­krossinn yfirleitt haft já­­kvæða merkingu í gegnum tíðina. Á Ind­landi má finna táknið í fót­spori Búdda sem mynd af hjóli laganna. Á Bret­land­s­eyjum var hakakrossinn lengi tákn fyrir gæfu og farar­heill124 124 Ibid., 8. og í norrænum sam­félögum táknaði haka­krossinn Mjölni, hamar þrumu­guðsins Þórs,125 125 Ibid., 28. svo fátt eitt sé nefnt.

Það er því ljóst að túlkun á merkingu hakakrossins kunni að velta á upp­runa, menningu,­ reynslu, stað og stund þess sem túlkar. Fyrir níu­tíu árum hefði enginn tengt spila­­stokk frá Eimskipafélaginu við nasismann, sem margir telja sjálfa illskuna í sinni tærustu mynd. En á okkar dögum, fyrir til­stilli vest­­rænnar skóla­göngu og Holly­wood-­kvik­mynda er mér ómögulegt að útiloka þau hug­renninga­­tengsl. Ég hef lært af því sam­félagi sem ég bý í að haka­krossinn sé táknmynd nasista­hreyfingar­innar, helfarar gyðinga og Adolfs Hitlers.

HAKAKROSSINN Í
LJÓSI TÁKNFRÆÐINNAR

Spila­stokkur Eim­skipa­félagsins varð til þess að ég skrifaði loka­ritgerð mína til BA-­prófs um hakakrossinn og þar velti ég því fyrir mér hvort mögu­legt væri að þetta tákn yrði nokkurn tímann aftur notað í jákvæðri merkingu á Vesturlöndum. Til að svara þeirri spurningu leitaði ég í kenningar tákn­fræðinnar, en hún fæst, eins og nafnið gefur til kynna, við tákn og merkingu þeirra.

Einn kenninga­smiða tákn­fræðinnar var bandaríski heim­spekingurinn Charles Sander Peirce. Peirce skipti táknum í þrjá flokka. Í fyrsta lagi íkon – tákn sem er einfaldlega mynd af því sem það merkir. Gott dæmi um íkon er umferðarskilti sem táknar hjólandi og gangandi vegfarendur með út­línum hjólandi og gangandi veg­farenda. Í öðru lagi vísi – tákn sem vísar til merkingar sinnar eins og svartur reykur segir til um eld. Gott dæmi um vísi er reið­hjóla­bjallan sem hjólreiða­maðurinn hringir til að láta vita af sér. Í þriðja lagi symból – tákn sem vísar ekki með augljósum hætti í merkingu sína heldur krefst túlkun þess þekkingar. Bókstafir eru einkar góð dæmi um symból því börn, sem geta ráðið í merkingu íkona frá unga aldri, þurfa að læra „hvað bók­stafurinn segir,“ það er að segja hvað hann stendur fyrir, þegar þau læra að lesa og skrifa.126 126 David Crow, Visible Signs: An Introduction to Semiotics in the Visual Arts (London: Bloomsbury, 2016), 36.

Í ljósi þessarar þrískiptingar er ef til vill ein­faldast að flokka haka­krossinn sem symból. Táknið líkist vissulega einhvers­konar verk­færi, og því er ef til vill ekki svo fjar­stæðu­kennt að túlka það sem íkon af hamri eða hjóli. Síðan skulum við ekki gleyma því að táknið getur einnig virkað eins og vísir. Fæstir mundu hika við að álykta um stjórn­mála­skoðanir Derek Vinyard, leikinn af Edward Norton í kvikmyndinni American History X, sem er með haka­krossinn flúraðan vinstra megin á brjóstkassann.

Að þessu sögðu er óhætt að fullyrða að hakakrossinn sé symból nasismans fremur en íkon eða vísir. Það má glöggt sjá, sé litið yfir sögu táknsins, að í ákveðnum skilningi er ekkert sérstaklega nasista­legt við haka­krossinn – merking hans í því sam­hengi er ekki upp­runaleg og í vissum skilningi skáld­skapur. Það verður að læra „hvað haka­krossinn segir,“ rétt eins og bókstafirnir.

TÁKN UM
HRYLLING

Eins og áður kom fram hafði haka­krossinn ekki alltaf þá merkingu sem hann hefur í dag. Það var árið 1920 sem nasista­flokkurinn var stofnaður í Þýska­landi. Haka­krossinn var ein­kennis­merki flokksins og varð því kjarninn í áróðurs­vél nasista og alls þess grafíska sem flokkurinn fram­­leiddi.127 127 Sverrir Jakobsson, „Hver er saga nasistamerkisins eða hakakrossins?,“ Vísindavefurinn, 28. 11. 2005, visindavefur.is/svar.php?id=5437. Eftir að flokkurinn komst til valda árið 1933, þrátt fyrir að vera í miklum minni­hluta á þingi, var hafist handa við að þrengja að lífs­gæðum þýskra gyðinga. Of­sóknirnar færðust í aukana eftir því sem áratugurinn leið og dagana 9. og 10. nóvember 1938 urðu ákveðin kafla­skil þegar skæru­sveitir nasista og al­mennir borgarar réðust gegn gyðingum vítt og breitt um Þýska­land með sam­stilltum hætti á hinni svo­kölluðu Kristals­nótt.



Skip Eimskipafélagsins.  


Ship of Eimskipafélagið.  

Um ári síðar réðust Þjóð­verjar inn í Pólland en sá atburður er gjarnan talinn marka upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari. Árið 1941 hrintu nasistar síðan skelfilegri áætlun um allsherjar út­rýmingu gyðinga í fram­kvæmd sem gjarnan er kölluð Helförin.128 128 Gunnar Þór Bjarnason & Margrét Gunnarsdóttir, Íslands- og mannkynssaga: Frá lokum 18. aldar til aldamóta 2000 (Reykjavík: Nýja bókafélagið, 2001), 203–204 & 213.

Árið 1945 lauk stríðinu með ó­sigri Þjóð­verja og í kjöl­farið var notkun haka­krossins bönnuð í Þýskalandi og hann tekin niður alls staðar í Evrópu. Sagnfræðingurinn Malcolm Quinn telur að sú afgerandi hreinsun sem fram fór á merki nasista, hafi í raun hjálpað til við að styrkja tengingu hakakrossins við hug­mynda­fræði þeirra. Ef til vill hefði sú merking haka­krossins sem nasistar fengu tákninu fjarað heldur hraðar út hefði því verið leyft að standa sem sögulegum minnis­varða hryllilegrar fortíðar.129 129 Steven Heller, „Reviewed Work(s): The Swastika: Constructing the Symbol by Malcolm Quinn,“ The MIT Press 11, 3 (haust 1995), 82.

Til er upptaka af því þegar haka­krossinn á toppi Nürnberg leikvangsins var sprengdur í loft upp (sjá síðu 15). Um er að ræða afgerandi táknræna vísuní endalok nasista í Þýskalandi sem innsiglar um leið þau hugrenningatengsl við haka­kross­­táknið sem enn þann dag eru ráðandi í hugum margra. Nasistum hafði tekist að gegn­sýra merkingu táknsins svo al­gjörlega að það var ekki einungis gengið til þess verks að fjarlægja sjálft merkið. Til dæmis, gerði kanadíska ríkis­stjórnin tilraun til þess að breyta nafni bæjarins Swastika yfir í Winston í höfuðið á Winston Churchill, for­sætis­ráðherra Bretlands í stríðinu – jafnvel þó svo að bæjar­búar hafi neitað að sam­þykkja nafna­breytinguna þegar upp var staðið.130 130 Steven Heller, The Swastika: Symbol Beyond Redemption, 151.

MÝTUR

Í ljósi þeirra illvirkja sem framin voru í skugga hakakrossins má segja að táknið hafi í raun færst frá því að vera symbólískt með fjölda merkingarmöguleika, yfir í það að verða íkonískt tákn, þar sem táknið vísar ó­hjá­kvæmilega til einnar merkingar. Slík túlkun stangast þó á við kenningu Peirce, því hakakrossinn er langt frá því að vera íkon. Þó að táknið skírskoti afar sterkt til ofsókna á gyðingum, þá er ekkert beinlínis í merkinu sem gefur það til kynna. Til að skýra þessa íkonísku virkni táknsins skulum við leita aftur á náðir táknfræðinnar.

Franski bókmenntafræðingurinn Roland Barthes notaði hugtakið mýta yfir menningar­leg tákn sem fá eina algjöra merkingu sem yfir­gnæfir aðra merkingar­mögu­leika táknsins. Eins og Barthes lýsir, verða mýtur til þegar tákn glata uppruna sínum og sögu vegna nýrrar merkingar sem er svo afgerandi að hún er hreinlega talin „náttúruleg“ merking táknsins, eins og kemur fram í titli greinarinnar: „Saga verður náttúra.“131 131 Roland Barthes, „Myth Today,“ Mythologies, (þýð./Trans.) Annette Lavers (New York: Hill & Wang, 1972), 151 & David Crow, Visible Signs, 68.

Í dag eru atburðir síðari heims­styrj­aldar­innar nánast almenn vitneskja. Við lærum um seinna stríð í kennslubókum og þar að auki komumst við í tæri við upplýsingar um stríðið í fjölmörgu samhengi, við það að horfa á kvikmyndir eða leggja við hlustir í heitum pottum Vesturbæjarlaugarinnar. Tenging hakakrossins við helför gyðinga er svo afgerandi að ákveðin neikvæð merking hefur yfirgnæft jákvæðar og fornar merkingar annarra hakakrossa síðustu sjötíu ár. Það má segja, með því að nota hugtak Barthes, að hakakrossinn hafi svo sterk tengsl við harmleik seinna stríðs að táknið sé orðið að mýtu.

FRÁ HAKAKROSSINUM
TIL PEPE

Þrátt fyrir að hakakrossinn sem prýddi spilastokk Eimskipafélagsins hafi verið frábrugðinn hakakrossi þýska Nasistaflokksins brá mér samt í brún. En eins spurði ég sjálfan mig, er möguleiki að það muni breytast í framtíðinni? Malcolm Quinn ræðir í bók sinni, The Swastika: Constructing the Symbol hvort þolendur og/eða afkomendur þolenda þeirra atburða sem hakakrossinn stendur fyrir muni nokkurn tímann geta notast við táknið í útúrsnúinni merkingu. Quinn telur útilokað að hakakrossinn geti aftur orðið að tákni fyrir gæfu og velferð en bætir því einnig við að kannski sé það fyrir bestu. Hann leggur til að hakakrossinn eigi að vera tákn sem minnir okkur á atburði síðari heimsstyrjaldar­innar og geti jafnvel hjálpað okkur að sameinast í andstöðu við gyðingahatur og kynþáttafordóma.132 132 Steven Heller, „Reviewed Work(s),“ 81.

Í ljósi þess hversu löng saga hakakrossins er, þá þarf kannski annað langt skeið áður en hakakrossinn getur aftur hlotið nýja merkingu í vest­rænni menningu. Ekki aðeins svo að taka megi táknið í sátt, heldur líka svo að vestræn samfélög geti útrýmt gyðingahatrinu sem hakakrossinn er tengdur við enn þann dag í dag, sem verður sífellt meira áberandi um þessar mundir og er enn gjarnan táknað með hakakrossinum.

Hitt hægrið er hreyfing nýnasista, hvítra þjóðernissinna og kynþáttahatara í Bandaríkjunum. Hreyfingin heldur gyðingahatri lifandi með áróðri í ýmsum myndum og notar haka­krossinn sem einkennistákn líkt og Hitler forðum. Aftur á móti hefur sú þróun orðið að ýmsir mynda­smiðir nýnasista samtímans hafa aðlagað útlitið að ríkjandi fagurfræði í poppkúltúr. Nú má finna myndir á netinu þar sem öfga­hægri­menn nota haka­krossinn í fjólubláum, bleikum og grænum neonlitum en ekki svörtum, hvítum og rauðum. Hinu hægrinu í Banda­ríkjunum er ekki miðstýrt en þeir sem aðhyllast hugmyndafræði þess hafa getað stillt strengi sína saman á spjallborðum veraldarvefsins. Þangað leita þeir sem styðja stefnu hins-hægrisins og „upplifa sig sem töff og hluta af jaðarmenningu í andstöðu við ríkjandi kerfi – eins og hipparnir á 7. áratugnum,“ skrifar Davíð Roach Gunnarsson í umfjöllun fyrir Ríkisútvarpið.133 133 Davíð Roach Gunnarsson, „Hitt hægrið, poppmenning og nasistadiskó,“ RÚV, 2. 9. 2017, ruv.is/frett/hitt-haegrid-poppmenning-og-nasistadisko.

Mögulega skiptir ekki máli hvaða meinlausa tákn þýski nasistaflokkurinn hefði kosið að nota – það hefði ef til vill alltaf glatað upprunalegri merkingu sinni í vestrænni menningu og fengið á sig nýja og neikvæða merkingu í kjölfar hermdarverka nasista. Það má renna stoðum undir þá tilgátu að hvaða tákn sem er geti orðið að einkennis­tákni illskunar með því að skoða örlög skrípó-frosksins Pepe.

Upprunalega gegndi Pepe og einkunnar­orð hans – „feels good man“ – saklausu hlutverki í mynda­sögu sem hóf göngu sína á veraldar­vefnum í upp­hafi aldarinnar. Með tíð og tíma var farið að nota Pepe í alls kyns efni á vefnum þar til hitthægrið tók hann upp á sína arma á spjallborðum veraldar­vefsins. Í dag er Pepe öðru fremur tákn kynþáttafordóma og gyðingahaturs í Banda­ríkjunum134 134 Alison Flood, „Pepe the Frog Cartoonist Forces Withdrawal of ‘Alt-Right’ Children’s Book,“ The Guardian, 30. 8. 2017, theguardian.com/books/2017/aug/30/pepe-the-frog-cartoonist-forces-withdrawal-of-alt-right-childrens-book. og er kominn á lista yfir haturstákn hjá sam­tökunum Ant­i-Defamation League sem berjast gegn gyðinga­hatri.135 135 Christopher Mele, „Pepe the Frog Meme Listed as a Hate Symbol,“ The New York Times, 27. 9. 2017, nytimes.com/2016/09/28/us/pepe-the-frog-is-listed-as-a-hate-symbol-by-the-anti-defamation-league.html. Oftar sem áður er það hug­mynda­­fræði af sauða­húsi nasismans sem sviptir ákveðið tákn já­kvæðri merkingu sinni.

Jafnvel þótt að hakakrossinn sé enn í dag ó­umdeild tákn­mynd nasista, þá eru öfgahægrimenn ekki einir um að halda lífi í neikvæðri merkingu táknsins. Hún lifir og nýtist líka þeim sem and­snúnir eru hug­mynda­fræðinni og kjósa að for­dæma hana. Mögulega er það fyrir bestu, að þrátt fyrir sakleysi táknsins í sjálfu sér, fái ill merking haka­krossins að lifa í fyrr­nefndum tilgangi og til að minna okkur á atburði síðari heims­styrjaldarinnar. Ef til vill er haka­krossinn nauðsynleg mýta.

Rými, áferð, línur

Rými, áferð, línur

Space, text, lines

Andrými

Halldór Jóhann Gunnarsson




Hvað er andrými og hvaða hlutverki gegnir það í hönnun og listum? Hvernig birtist andrými utan við samhengi lista og hönnunar? Á ensku kallast andrými „negative space“ en hvernig getur það verið neikvætt, eins og enska orðið gefur til kynna? Andrými má lýsa sem tómi sem skapast á milli forma myndheimsins, sem hinni eiginlegu þögn sem lætur á sér kræla í tónlist eða einfaldlega sem því að pakka niður í ferðatösku og halda upp í sumarbústað – að fara í frí og gera ekkert. Ég vil ganga svo langt að halda því fram að bæði lífið og listin standi og falli með andrýminu. En hvað er svona merkilegt og áhugavert við það sem þú sérð ekki, heyrir ekki eða gerir ekki?

ANDRÝMI OG HÚÐFLÚR





Andrými í hönnun er tómið eða rýmið í kringum myndflöt, það er í raun fjarvera og mótvægi þess sem er, það merkir það svæði eða þá fleti sem umlykja sjálft viðfangsefnið eða einfaldlega bakgrunn myndarinnar. Andrými er notað í marg-víslegum tilgangi, svosem til þess að skapa jafnvægi, búa til nýjar tengingar eða byggja upp spennu.136 136 James George, „A Solid Understanding of Negative Space,“ Sitepoint, 20. 11. 2012, sitepoint.com/a-solid-understanding-of-negative-space.

Þegar eingöngu er notast við svart blek í húðflúri hefur andrýmið heilmikið um líftíma flúrsins að segja. Ólíkt öðrum myndrænum miðlum er myndefninu (húðflúrinu) komið fyrir á lifandi fleti (húðinni) og eins og við vitum helst engin húð stinn og strekkt út ævina. Fólk fitnar og grennist, stækkar og minnkar – og þar með einnig sjálft andrýmið umhverfis blekið. Þar að auki er blekið sjálft aðskota-efni í húðinni sem líkaminn brýtur stöðugt niður út ævina. Sé of lítið andrými á milli lína og forma í húðflúrinu stóraukast líkurnar á því að allir fletir flúrsins renni saman í eitt. Af þessum sökum er mikil-vægt, þegar húðflúr er gert, að huga vel að andrýminu og halda línum og formum vel aðskildum, einmitt vegna þess að andrýmið getur breyst með tíð og tíma.

ANDRÝMI OG
GRAFÍSK HÖNNUN





Í grafískri hönnun er andrými mikilvægt verkfæri og það má nota á marga mis-munandi vegu. Grafísk hönnun snýst að miklu leyti um það að koma á framfæri upplýsingum á skýran og skilmerkilegan hátt og oftar en ekki eru þessar upplýsingar í formi texta. Í meðferð texta birtist andrými meðal annars sem stafa-, orða- og línubil. Slík bil geta með réttri notkun og þjálfuðu auga hönnuðarins gert texta læsilegri.

Í bók sinni Detail in Typography gerir leturfræðingurinn Jost Hochuli þessari hlið grafískrar hönnunar greinargóð skil í bæði máli og myndum. Þar fer hann út í öll helstu smáatriði sem hafa ber í huga þegar það kemur að uppsetningu og meðhöndlun texta. Ef ekki er nægilegavel gætt að samspilinu á milli prentaða og óprentaða flatarins skapast sú hættaað textinn verði torlæs. Þá er ástæðan gjarnan sú að ekki hefur verið nægilega hugað að stafa-, orða- og línubilum. Afleiðingin er sú að stafirnir, orðin og línurnar renna saman, lesandanum til ama. Of lítið andrými í textanum veldur því að það hægist verulega á lestrinum og lesandinn þarf að eyða meiri tíma og orku í að erfiða sig í gegnum blaðsíðuna. Þegar andrými er ofaukið verður lesturinn einnig torveldur. Ef stafa-, orða- eða línubil er of mikið gliðnar textinn í sundur og verður gisinn, sem aftur hægir á lestrinum. Þegar vandað er til verka í meðhöndlun texta ætti hann að taka á sig jafnan gráan blæ þar sem andrýmið styður gott flæði sem stýrir lesandanum niður blaðsíðuna eins og báti niður á.137 137 Jost Hochuli, Detail in Typography, (þýð./Trans.) Charles Whitehouse (London: Hyphen, 2008) & Elín Edda Þorsteinsdóttir, „Jafnlangar línur,“ Mæna 10, #1 (2019): 66–74.

ANDRÝMI
OG TÓNLIST





Í tónlist birtist andrýmið okkur gjarnan sem þögn og eitt athyglisvert dæmi úr sögu hljóðritunar eru þeir erfiðleikar sem hljóðverkfræðingar stóðu frammi fyrir á árdögum geisladiskanna. Þeir urðu varir við ákveðið ójafnvægi í flæðinu á milli hljóðritana sem stafaði af því að verið var að nota þögn með röngum hætti. Þetta kom í ljós þegar litið var til baka til forvera geisladisksins, vínylplötunnar. Á geisladisknum höfðu hljóðverkfræðingarnir komið fyrir bili á milli laga til að aðgreina þau. Slík algjör þögn stuðaði aftur á móti hlustendur heima í stofa vegna þess að slík fullkomin fjarvera hljóða þykir ónáttúruleg. Á vínylplötum er þögnin aldrei alger á milli laga, heldur taka ákveðin hljóð við af tónlistinni þegar hljóðrituninni sleppir. Við gefum slíkum hljóðum gjarnan lítinn gaum og margir álita þau ekki hluta af heildarhljóðrituninni á plötuni. Um er að ræða bakgrunnshljóð, meðal annars þau sem nál plötuspilarans framkallar þegar hún gengur yfir rákir vínylsins á leið sinni að næsta lagi. Áþekkum bak-grunnshljóðum hefur allar götur síðan verið komið fyrir á geisladiskum. Ástæða þess að talað er um algera þögn sem ónáttúrulega er sú að í raun og veru upplifum við aldrei raunverulega algjöra þögn. Þegar slökkt er á plötuspilaranum taka við önnur hljóð eins og suð í ljósa-perum eða sírennsli klósettsins.138 138 Shaun Farley, „The Negative Space of Sound,“ Designing Sound: The Art and Technique of Sound Design, 5. 6. 2014, designingsound.org/2014/06/05/the-negative-space-of-sound.

UPPBROT





Grafíski hönnuðurinn Stefan Sagmeister segir frá því í fyrirlestri sem kallast „The Power of Time Off“ að honum þyki afar mikilvægt að gera hlé á störfum sínum á nokkurra ára fresti. Nánar til tekið tekur hann sér eins árs frí á sjö ára fresti. Þá lokar hann stofunni sinni og sinnir engum viðskiptatengdum verkefnum. Hann lítur yfir farinn veg og þau verkefni sem hann hefur unnið fram að þess til þess að ákveða hver næstu skref eigi að vera, líkt listamaður sem stendur upp frá vinnu sinni eftir góða syrpu og gengur nokkur skref aftur á bak til þess að fá heildarsýn yfir verkið.139 139 Stefan Sagmeister, „The Power of Time Off,“ TED (vid. 17:33), ted.com/talks/stefan_sagmeister_the_power_of_time_off?language=en.

Í einhverjum skilningi er hugmyndin um andrýmið hér að verki í víðasta skilningi. Fólk sníður sér einfaldlega stakk eftir vexti þegar að því kemur að taka sér frí frá vinnu, eða hverju sem er. Það sem skiptir mestu máli er ef til vill ekki hvernig andrýmið er skapað, heldur hvort and-rýmið er skapað. Andrými, í sínum ólíkum birtingarmyndum, er ákaflega mikilvægt, ekki síst fyrir þær sakir að það skapar jafnvægi. Það skapar jafnvægi í listinni en einnig í lífinu.

ÁFERÐ

Kolbeinn Jara Hamíðsson
Marteinn Sindri Jónsson




Árið 1928 hannaði bandaríski leturhönnuðurinn Frederic W. Goudy letrið Goudy Text. Eitt helsta einkenni letursins er viðbótar-gerð hástafa sem teiknaðir eru eftir leturgerð Langbarða. Þessi gerð hástafa varð afar vinsæl og á síðustu árum hafa ýmsar leturgerðir litið dagsins ljós sem greinilega eru undir áhrifum leturgerða Langbarða. Í slíkri endurvinnslu er gjarnan bætt við smáatriðum og einkennum sem tilheyra fagurfræði samtímans og verður afraksturinn oft áhugaverð blanda á milli þess gamla og nýja.

VEFNAÐUR





Frederic W. Goudy var þekktur bandarískur listamaður og leturhönnuður. Árið 1928 hannaði hann letrið Goudy Text en orðið „text“ er stytting á „textúr“. Á vefsíðu Monotype má versla letrið og þar kemur fram að textúrletur sé afar vandmeðfarið. Það er meðal annars vegna þess hversu litlu munar á þykkt stafleggjanna annars vegar og innrýmum stafanna hins vegar. Af þessum sökum krefjast lágstafirnir mjög jafnrar áferðar eða vefnaðar svartra og hvítra flata. Hástafirnir eru sérlega áhrifaríkir í slíku letri, annaðhvort eru þeir þéttofnir og krefjast sama nákvæma vefnaðar og lágstafirnir, eða þá að þeir hafa stór innrými og skapa með því bjarta fleti sem kalla á athygli. 140 140 „Goudy TextTM Lombardic Capitals,“ Monotype Catalog, (s./a.) 25. 11. 2018, catalog.monotype.com/font/monotype/goudy-text/lombardic-capitals.

Textúr, sem merkir einfaldlega vefur á latínu, var gerð af brotaletri sem þróaðist úr karlungaletri á 12. öld og er einna best þekkt sem fyrirmynd biblíuleturs Jóhanns Gutenberg. Goudy hannaði letrið fyrir Lanston Monotype eftir einmitt að hafa rannsakað Biblíu Gutenbergs, sem er sennilega ein besta heimildin um brota-letur sem til er.141 141 Þorsteinn Þorsteinsson, Þættir úr letursögu, sérprent úr bókinni / custom print from the book Prent eflir Mennt úr/of Safni til iðnsögu Íslendinga, 491–550 (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1995), 504. Í ritinu Þættir úr letursögu skrifar Þorsteinn Þorsteinsson að einkenni textúrleturs séu „þessi helst: allar línur í lágstöfum eru brotnar (engar boglínur), innrými stafa litlu breiðari en stafleggir, þverendar eins og tíglar, tvö strik í staflegg flestra hástafa.“ 142 142 Ibid., 505. Þá bætir Þorsteinn því við að textúr hafi aldrei verið notað á íslenska bók en þó kannast margir við það af forsíðu Morgunblaðsins auk þess sem sum helstu dagblöð heims hafa það enn í blaðhausnum, t.d. The New York Times, Le Monde og Frankfurter Allgemeine Zeitung.143 143 Ibid.

LANGBARÐAHÁSTAFIR





Goudy Text er sérlega markvert fyrir þær sakir að Goudy teiknaði viðbótargerð há-stafa af svokallaðri langbarðaleturgerð. Þorsteinn Þorsteinsson ræðir langbarðaletur ekki sérstaklega í letursögu sinni en aftur á móti má finna umfjöllun um letrið í verki sem Goudy sjálfur ritaði um stafrófið og grunnþætti leturs, The Alphabet and Elements of Lettering og sendi frá sér árið 1918. Þar segir Goudy að langbarðaletur hafi þróast sem þjóðleg rithönd á norðanverðri Ítalíu. Þjóðlegar rithendur byggðu ýmist á únsíal- eða hálfúnsíalskrift en únsíall merkir þumlungur. Þorsteinn Þorsteinsson lýsir þumlungaletri sem sveigðu hástafaletri þar sem nokkrir stafir líkjast fremur lágstöfunum sem við þekkjum í dag (einkum A, D, E, H og M).144 144 Þorsteinn Þorsteinsson, Þættir úr letursögu, 500. Goudy skrifar: „Þegar langbarðaletrið er upp ásitt besta varðveitir það sterklega tilfinningu fyrir þumlungaletri sjöttu og sjöundu aldar.“ 145 145 Frederick W. Goudy, The Alphabet and Elements of Lettering (New York: Dover, 1963), 59.

Þó langbarðaletrið hafi þróast framan af sem þjóðleg rithönd tók það frekari breytingum í meðförum skrifara vítt og breitt sem útfærðu letrið með ýmsum hætti. Hástafirnir urðu gjarnan fyrir valinu við gerð handrita þegar teikna átti hástafi eða upphafsstafi sem oft voru gylltir eða litaðir fremur en svartir. Vegna þykktar sinnar þóttu hástafir langbarðaletursins henta vel sem slíkir. Goudy tekur það fram að hástafirnir séu tilvaldir þegar tilgangurinn að skreyta vegur þyngra en lesanleiki textans, stafirnir „bjóða upp á íburð sem erfitt er að fá fram með öðrum formum.“146 146 Ibid. Goudy tekur þó fram að gæta verði meðalhófs þegar íburður stafannaer annars vegar og það skipti máli hvert í sögunni fyrirmyndir að letrinu séu sóttar. Frá og með lokum fjórtándu aldar er algengt að sjá ofhlaðna og ólæsilega langbarðahástafi, segir Goudy sem telur að fallegustu gerðir letursins sé að finna í handritum frá tíundu og elleftu öld. 147 147 Ibid., 60.


NÚTÍMATÚLKANIR





Myndlýsingarnar í greininni eru eftir Kolbein Jara Hamíðsson. Þær byggja á rannsókn hans á hástöfum í leturgerð langbarða og áhuga á sögu leturs og týpógrafíu. „Gott dæmi um notkun á fagurfræði Langbarðaleturs er leturgerðin Minotaur sem gefin var út árið 2014 af frönsku letursmiðjunni Production Type,“ segir Kolbeinn og bætir við að Minotaur sé afar vel teiknað steinskriftarletur sem hefur vaxið fiskur um hrygg frá upprunalegri útgáfu þess og er það nú til í mörgum þykktum og útgáfum. Árið 2015 kom út leturgerðin Minotaur Lombardic sem skartar einstaklega vel heppnuðum Langbarðahástöfum. „Í raun eru engar bogadregnar línur í letrinu heldur er mörgum litlum línum beitt þannig að þær mynda boga. Þetta er óhefðbundið og nútímalegt tilbrigði við hefðbundið germanskt útlit Langbarðaletursins.“148 148 Ibid.

Nú þegar vinsælt þykir að endurvinna efnivið úr sögu leturgerðar á borð við hástafi langbarðaletursins er mikilvægt að hafa þessa gagnrýni Goudy í huga og forðast ofhlæði og prjál. Sterk karaktereinkenni Langbarðaletursins eru kjörin efniviður í leturtilraunir. „Með því að halda í eitt eða tvö einkenni frumgerðarinnar er hægt að breyta letrinu nánast algjörlega án þess að tengingin við uppruna þess tapist. Ekki eru til dæmi um mörg letur sem geta staðið af sér slíkar breytingar án þess að verða óþekkjanlegar,“ segir Kolbeinn sem útskrifast af braut grafískrar hönnunar vorið 2019.

JAFNLANGAR LÍNUR

Saga og staða aljöfnunar og vinstrijöfnunar frá miðöldum til síðnútímans
Elín Edda Þorsteinsdóttir




„Eins og sjómaðurinn þráir örugga höfn við lok ferðalags síns, þráir skrifarinn síðasta orðið,“ ritaði maður nokkur að nafni Georg aftan við meginmál miðaldahandrits sem hann hafði nýlokið við. Georg starfaði sem skrifari á miðöldum og átti, eins og fleiri skrifarar á þeim tíma, eftir að setja mark sitt á það hvernig bækur og prentaður texti lítur út nú á tímum.149 149 Philip B. Meggs, A History of Graphic Design (New York: Van Nostrand Reinhold, 1983), 50.

Það að skrifa upp handrit var mikið verk því strangar kröfur voru gerðar um útlit textans. Ein slík krafa var sú að textinn væri aljafnaður, það er að segja að allar línur áttu að vera jafn langar. Handrit voru verðmætari eftir því sem betur tókst að aljafna þau. Þess vegna urðu aljöfnuð handrit fyrirmyndir að fyrstu bókunum sem prentaðar voru með hinu hreyfanlega letri Gutenbergs um 1450. Þær bækur urðu aftur fyrirmyndir að bókum samtímans.

Jöfnun texta er mikilvægur þáttur í ásýnd samfellds ritmáls. Hún getur haft mikil áhrif á það hvort fólki líði vel við lestur og langi yfir höfuð að lesa textann. Enn þann dag í dag eru flestar bækur sem gefnar eru út aljafnaðar. Greinilegt er að flestir sem gefa út prentaðan samfelldan texta telja að fólk kjósi aljöfnun umfram aðrar jafnanir – til að mynda vinstrijöfnun. En er eðlilegt að bækur á síðnútíma styðjist við nánast sömu fagurfræðilegu staðla og miðaldahandrit? Mun samfelldur textaflötur einkennast af samhverfum rétthyrningi um ókomna tíð?

HVAÐ ER
JÖFNUN TEXTA?






Jöfnun texta snýst um það hvernig samfellt ritmál situr á blaðsíðu eða fleti. Latneskt letur er yfirleitt jafnað við vinstri brún þar sem það er lesið frá vinstri til hægri. Það auðveldar augunum að finna upphaf næstu línu fljótt og örugglega. Að jafna texta við vinstri brún hefur auk þess þann kost að hægt er að auðkenna skiptingu á milli efnisgreina með inndrætti.

Í vinstrijöfnun er ritað mál einungis jafnað við vinstri brún en því leyft að vera ójafnt hægra megin. Aðrar gerðir jöfnunar texta eru aljöfnun, miðjujöfnun og hægrijöfnun. Við hægrijöfnun er textinn hafður jafn við hægri mörk en ójafn við þau vinstri. Miðjusettur texti er samhverfur um miðju, með ójafnar brúnir báðum megin. Hins vegar snýst aljöfnun um það að allar línur textans séu jafn langar, það er að textinn sé jafn við bæði mörk dálksins. Miðjusetningu og hægrijöfnun er ekki algengt að sjá notaðar í samfelldum texta en þær eru hins vegar gjarnan notaðar í fyrirsagnir og annars konar texta.

Það er vandasamt að aljafna texta vegna þess að teygja eða stytta þarf eðlilega lengd línunnar svo að allar línur textadálksins verði jafn langar. Bilið sem myndast við enda hverrar línu í vinstrijöfnun er þá notað til að jafna út orðabilin. Stundum er bilið svo langt að fyrsta orð í setningu er tekið upp í næstu línu fyrir ofan, eða þá að orði er skipt og orðabilin þannig minnkuð.150 150 Hochuli, Detail in Typography, 34. Bókahönnuðurinn Jost Hochuli segir í bók sinni Detail in Typography að „orðabil megi ekki vera of löng, það er að segja að lína þurfi að virðast jöfn, og í góðu jafnvægi sem heild.“151 151 Ibid., 32. Aljafnaður texti verður hins vegar oft gisinn að innan, annaðhvort með of stórum eða mislöngum bilum. Í þessu samhengi tala þeir sem vinna með letur oft um „lit“ blaðsíðunnar. Markmiðið er alltaf fólgið í því að ná jöfnum lit yfir blaðsíðuna en það er erfiðast í aljöfnuðum texta.152 152 Viðtal 1 / Interview 1 (10. 11. 2017). Viðtal höfundar við Birnu Geirfinnsdóttur / Author’s interview with Birna Geirfinnsdóttir. Misstór orðabil geta til að mynda valdið mismunandi áherslum við lestur á orðum.153 153 Robin Kinross, Unjustified Texts: Perspectives on Typography (London: Hyphen, 2002), 289. Aljöfnun getur því bæði valdið erfiðleikum við lestur og ankannalegri ásýnd texta.

LESANLEIKI TEXTA





Upphaf týpógrafíu er miðað við byrjun prentunar um 1450, þegar Johannes Gutenberg fann upp hreyfanlegt letur.154 154 Stephen Fry, „Stephen Fry and the Gutenberg Press,“ (vid. 58:45), (s./a.) 12. 11. 2017, youtube.com/watch?v=8svE2AjQWYE. Beatrice Warde, rithöfundur og sérfræðingur í týpógrafíu, segir í grein sinni „The Crystal Goblet“ að „það mikilvægasta við prentun er að hún miðlar hugsunum, hugmyndum og myndum frá einum huga til annars.“155 155 Beatrice Warde, „The Crystal Goblet,“ Typographers on Type: An Illustrated Anthology from William Morris to the Present Day, (ritstj./Ed.) Ruari McLean, 73–77 (New York: Norton, 1995), 74–75. Þessa fullyrðingu kallar hún „„aðaldyr“ vísinda týpógrafíunnar.“156 156 Ibid.

Í greininni líkir Warde týpógrafíu við kristalsglas. Kristalsglasið á að „sýna fremur en að fela fallega hlutinn sem því er ætlað að innihalda.“157 157 Ibid., 74. Skáletrun höfundar / Author’s italics. Út frá þessari líkingu skilgreinir hún hugtökin lesanleika og læsileika:

Ef bækur eru prentaðar til að vera lesnar verðum við að gera greinarmun á lesanleika og því sem sjóntækjafræðingurinn myndi kalla læsileika. Blaðsíða sem er sett í fjórtán punkta feitletraðri steinskrift er samkvæmt rannsóknum „læsilegri“ en blaðsíða sett í ellefu punkta Baskerville. Á sama hátt er ræðumaður „heyranlegri“ þegar hann rymur. En góð talrödd er rödd sem heyrist ekki sem rödd.158 158 Ibid., 75.

Týpógrafía sem unnin er af kostgæfni veldur samkvæmt þessu því að letrið sjálft verður ósýnilegt. Góð týpógrafía miðlar innihaldi texta vel á sama hátt og góð talrödd flytur efni án þess að vekja athygli sem rödd. Breski týpógraferinn og rithöfundurinn Walter Tracy segir að í týpógrafíu merki læsileiki þann eiginleika að auðvelt sé að ráða úr og skilja letur.159 159 Walter Tracy, „Legibility and Readability,“ Typographers on Type, 170–172: 170. Læsileika er hægt að mæla með því að athuga hversu hratt er hægt að bera kennsl á tiltekinn staf. 160 160 Ibid., 171. Aftur á móti stendur lesanleiki í týpógrafíu fyrir að auðvelt sé að lesa texta í nokkurn tíma án þess að þreytast eða erfiða við lesturinn. Tracy lýsir lesanleika sem „sjónrænni vellíðan við lestur.“ 161 161 Ibid. Lesanleiki er því mikilvægur þegar lesa þarf langa texta en læsileiki vegur þungt í styttri og hnitmiðaðri textum eða skilaboðum, eins og til dæmis á umferðarskiltum.162 162 Ibid.

LESTRARERFIÐLEIKAR





Margir þættir hafa áhrif á lestrargetu, fólk á misauðvelt með lestur og margir glíma við lestrarerfiðleika. Almennt er talið að um 15–20 prósent mannkyns hafi einhver einkenni lesblindu en þær tölur ríma ágætlega við niðurstöður kannana á Íslandi.163 163 „Dyslexia Basics,“ International Dyslexia Association, (s./a.) 12. 10. 2017, dyslexiaida.org/dyslexia-basics & Freyr Gígja Gunnarsson, „Fimmtungur á erfitt með að lesa sér til gagns,“ RÚV, (s./a.) 17. 10. 2017, ruv.is/frett/fimmtungur-a-erfitt-med-ad-lesa-ser-til-gagns.

Eitt af því sem talið er að geti hjálpað lesblindum við lestur er ásýnd textans. Í skýrslu eftirlitsstofnunar menntamála í Ástralíu frá árinu 2015 um læsileika og umbrot er mælt með því að vinstrijafna texta fyrir lesendur. Ástæðan er sú að misjöfn stærð bila er erfið fyrir augu lesenda sem neyðast til að hoppa á milli orða í stað þess að fylgja línunni. Í skýrslunni er einnig fjallað um svokallaðar hvítar ár (e. rivers of white) sem myndast gjarnan í aljöfnuðum texta þegar nokkur stór bil raðast hvert á eftir öðru, línu eftir línu (sjá mynd C). Misstór orðabil valda auk þess gjarnan sjónrænni truflun sem gerir lesendum enn erfiðara fyrir við lestur.164 164 „NAPLAN Online Research and Development: Readability and Layout Study,“ National Assessment Program, (s./a.) 2. 11. 2017, nap.edu.au/online-assessment/research-and-development/readability-and-layout.


ER HÆGT AÐ MÆLA
LESANLEIKA TEXTA?





Það mætti halda að texti sem er lesanlegur fyrir lesblinda henti líka þeim sem glíma yfirleitt ekki við lestrarerfiðleika. Flestir sem rannsakað hafa lesanleika telja að hægt sé að mæla hann á hlutlægan hátt. Það gæti þýtt að texti sem er lesanlegur fyrir einn sé lesanlegur fyrir alla. Þrátt fyrir að flest bendi til þess að lesanleiki sé að mestu hlutlægur hefur gengið erfiðlega að mæla hann. Eitt meginvandamálið er að flestir sem rannsaka lesanleika, hafa litla sem enga þekkingu á týpógrafíu og eru jafnvel tortryggnir í garð hennar. Í fæstum rannsóknum á lesanleika er áhrifum mismunandi jöfnunar texta gefinn gaumur. Fæstar rannsóknir um efnið eru marktækar þótt margar þeirra geti vissulega gefið einhverjar vísbendingar.165 165 Elín Edda Þorsteinsdóttir, Jafnlangar línur: Saga og staða aljöfnunar og vinstrijöfnunar frá miðöldum til síðnútímans, (leiðb./Superv.) Birna Geirfinnsdóttir (ritg./Thes. BA, Listaháskóli Íslands, 2017), skemman.is/handle/1946/30984.

HVERNIG LÍTUR
LESANLEGUR TEXTI ÚT?





Þótt ekkert liggi fyrir um það hvers konar leturmeðferð leiði af sér lesanlegasta textann eru margar skoðanir á lofti þar um. Þannig eru flestir lesendur íhaldssamir þegar kemur að útliti texta. Þeim líkar ekki tilraunir með letur eða leturmeðferð og þeir hafa hvorki áhuga á týpógrafíu né útliti stafanna. Innihald textans skiptir þá mestu máli.166 166 Hochuli, Detail in Typography, 10. Ljóst er að aljöfnun er algengari en aðrar jafnanir vegna þess að nánast hver einasta skáldsaga og fræðigrein er aljöfnuð. Það bendir til þess að aljöfnun sé það sem almennir lesendur óski eftir í samfelldum texta. Þetta gæti þýtt að þar sem almennir lesendur eru vanir að lesa aljafnaðan texta finnist þeim hann lesanlegri.

Í greininni „The End of the Line: A Survey of Unjustified Typography“ ræðir kennarinn, týpógraferinn og hönnunarsagnfræðingurinn, Paul Stiff, meðal annars um vaxandi vanda þess að týpógraferar miðli ekki þekkingu sinni á málefnum eins og jöfnun texta til almennings. Prentun og týpógrafía fellur nefnilega oft í hendur fólks sem ekki er menntað í leturfræðum, meðal annars vegna tilkomu heimilistölvanna.167 167 Paul Stiff, „The End of the Line: A Survey of Unjustified Typography,“ Information Design Journal 8, #2 (1996): 125, DOI: 10.1075/idj.8.2.03sti. Stiff telur að týpógraferar þurfi að fræða almenning svo fólk eigi auðveldara með að móta sér skoðanir og taka afstöðu í flóknum álitamálum er varða týpógrafíu.168 168 Ibid., 126.

Jöfnun texta er eitt þeirra óljósu deiluefna í grafískri hönnun sem kæmi sér vel að varpa frekara ljósi á. Þögn hönnuða um málefnið hefur valdið því að vinstrijöfnun er oft talin óviðunandi á stöðum þar sem hún gæti leyst ýmis vandamál, t.d. í þröngum dálkum þar sem færri orð komast fyrir í línu og orðabilin verða því yfirleitt breiðari við aljöfnun. Vinstrijöfnun er þar af leiðandi fágæt í útgáfu og prentun texta. Flestir standa í þeirri trú að nauðsynlegt sé að aljafna rit til að þau virðist formleg og varanleg.169 169 Ibid., 129. Jöfnun texta snýst því um formlegheit og tengsl við aðra formlega texta ásamt fagurfræðilegum skoðunum. Stiff telur að „val týpógrafera sé skorðað af strangri venju, sem virðist banna víðtæka notkun vinstrijöfnunar í ákveðinni tegund skjala.“ Hann telur vinstrijöfnun yfirleitt tákna „hið hverfula, hið óformlega, það sem er annars flokks.“170 170 Ibid., 127.

UPPHAF
ALJÖFNUNAR





Robin Kinross, breskur rithöfundur og sér-fræðingur í týpógrafíu, segir í bók sinni Unjustified Texts: Perspectives on Typography að aljöfnun hafi verið almenn meðhöndlun texta frá því árið 1450, þegar hið hreyfanlega letur Johannesar Gutenbergs kom fram á sjónarsviðið.171 171 Kinross, Unjustified Texts, 289. Kinross bendir jafnframt á enska merkingu orðsins að aljafna (e. justify), en það hefur aukamerkinguna að réttlæta, rökstyðja, verja, afsaka og að veita aflausn, sem eru lagaleg og guðfræðileg hugtök.172 172 Ibid. Í orðinu er því ef til vill falin smávægileg vísbending um hið nánast guðlega gildi aljöfnunar.

Það ber strax á aljöfnun í handritum frá miðöldum. Í gotneskum bókum hagræddu skrifarar efni textans til að aljafna hann. Auk þess tóku þeir stundum upp á því að bæta við punktum í enda hverrar línu til að búa til sem jafnasta kanta og fylltu oft endalínuna með skrauti.173 173 Stiff, „The End of the Line,“ 129–130.

Vönduðustu miðaldahandritin voru línustrikuð til að auðvelda skrifaranum að skrifa beinar línur sem mynda fullkominn ferhyrning. Línustrikin, sem bæði voru lóðrétt og lárétt má enn sjá í sumum handritum. Vinstri brún handritanna var alltaf þráðbein en hægri brúnin ekki eins slétt. Stundum gerðu skrifararnir sérstakt skraut til að fylla út í bilin í lok línunnar. Þetta var ekki einungis gert í Evrópu heldur líka í Norður-Ameríku nýlendutímans. Þar voru lóðrétt línustrik notuð til að hjálpa skrifaranum að fylla upp í dálkinn. Því mikilvægari sem bókin þótti – þeim mun jafnari voru brúnirnar og handritin betur línustrikuð. Ólínustrikuð handrit voru ódýrari og þóttu síðri í útliti. 174 174 Martin Jamison, „The Changeable Course of Typographic Justification,“ Journal of Scholarly Publishing 29, #2 (1998), 71–81, search.proquest.com/docview/213896243?accountid=11553.

ALJÖFNUN MEÐ
HREYFANLEGU LETRI





Það má segja að hið hreyfanlega letur Gutenbergs hafi leyst skrifara handritanna af hólmi. Prenttækni hans er ein merkasta uppfinning sögunnar enda gerði hún fjöldaframleiðslu á bókum mögulega í fyrsta sinn. Nú var hægt að prenta bækur í milljóna tali á aðeins örfáum árum. Þótt fyrstu bækurnar hafi verið dýrar voru þær ekki nærri því eins dýrar og handritin. 175 175 Fry, „Stephen Fry and the Gutenberg Press.“

Fyrstu prentararnir tóku miðaldahandritin til fyrirmyndar og þá sérstaklega aljöfnunina. Fyrir lok Fimmtándu aldar voru jafnlangar línur í prenti því orðnar að viðtekinni venju. Hreyfanlega letrið gerði fullkomna aljöfnun mögulega í fyrsta sinn. Setjarar gátu með notkun þess búið til texta með þráðbeinum mörkum. Í setjarastétt var vel menntað fólk sem gat lesið hratt og nákvæmlega. Setjarar urðu að rannsaka vel hverja línu til að ákvarða hvert ætti að dreifa bilunum og hvort skipta þurfti orðum á milli lína.176 176 Jamison, „The Changeable Course of Typographic Justification.“

Þegar Gutenberg prentaði Biblíuna notaði hann að minnsta kosti 270 tegundir af stöfum. Ástæða þess er sú að hann notaði mismunandi breiddir af sömu stöfunum til að aljafna fullkomlega (sjá mynd D).177 177 Fry, „Stephen Fry and the Gutenberg Press.“ Setjarar nútímans þurfa ekki eins mikið magn af stöfum en geta þess í stað átt við breidd stafa þegar þeir aljafna.178 178 Viðtal 1 / Interview 1.

„HVERS VEGNA GERÐUR PRENTARAR
ALJÖFNUN AÐ VIÐTEKINNI VENJU?“ 179 179 Frans A. Janssen, „The Rectangle in Typography,“ Quaerendo 40, #1 (2010): 24, DOI: 10.1163/001495210X12561886980310.





Þótt fullkomin aljöfnun hafi orðið töluvert auðveldari með tilkomu hreyfanlegs leturs var hún óhagkvæmari en vinstrijöfnun. Frans A. Janssen veltir því fyrir sér í ritgerð sinni „The Rectangle in Typography“ hvers vegna prentarar hafi ekki tekið til greina að vinstrijafna texta. Vinstrijafnaður texti var í þá daga mun ódýrari aðferð við uppsetningu leturs. Prentarar voru líka kunnugir vinstrijöfnun í ljóðum. „Hver sem nokkurn tímann hefur sett upp texta með málmletri veit að aljöfnun hans er erfitt og tímafrekt verk,“ skrifar Janssen. Í lok hverrar línu þarf að stækka eða minnka bil á milli orðanna og ef gerðar eru smávægilegar breytingar á textanum getur þurft að laga heilar efnisgreinar.180 180 Ibid., 24.

Jansson bendir þó á að ekki hafi allar bækur þessa tíma verið fullkomlega aljafnaðar. Stundum reyndi setjari að spara tíma með því að skilja eftir bil í enda línu. Jansson telur að þetta hafi ekki verið tilraun til vinstrijöfnunar heldur einungis leti af hálfu uppsetjarans. Vinstrijöfnun var einfaldlega ekki stunduð á þessum tíma.181 181 Ibid. Janssen telur að möguleg ástæða þess að prentarar hafi haldið áfram að aljafna sé tengsl aljafnaðs texta við vald, formleika og varanleika.182 182 Ibid., 25.

FYRSTU UMMERKI
VINSTRI-JAFNAÐRAR TÝPÓGRAFÍU





Fram að árinu 1914 höfðu prentgripir ávallt einkennst af samhverfri týpógrafíu sem fól í sér aljöfnun. Það var þetta ár sem fútúristarnir gerðu atlögu að samhverfunni, í Stefnuyfirlýsingu fútúrista eftir Filippo Tommaso Marinetti birtist óhefðbundin týpógrafía sem byggði á merkingarfræði textans. Áður höfðu nokkrir úr Art Nouveau hreyfingunni hörfað lítillega frá samhverfunni en það voru fútúristarnir sem afneituðu henni alfarið og lögðu hana að jöfnu við kyrrstöðu og deyfð. 183 183 Wim Crouwel, „Typography:A Technique of Making a Text‘Legible’,“ Processing of VisibleLanguage I, (ritstj./Eds.) PaulA. Kolers, Merald E. Wrolstad& Herman Bouma, 151–164(New York: Plenum, 1979),154.

MÓDERNISMI





Grundvöllur hugarfarsbreytinga sem þessarar í garð aljöfnunar var innreið nýaldarinnar (e. modernity) sem Robert Kinross tímasetur um 1700, um tvöhundruð og fimmtíu árum eftir að hreyfanlegt letur Gutenbergs kom til sögunnar. 184 184 Robin Kinross, Modern Typography: An Essay in Critical History (London: Hyphen, 2004), 14.37 Ibid., 14–15. Fram til þess tíma höfðu prentarar einir þekkingu á týpógrafíu og það var þeim ekki í hag að deila fróðleik sínum.185 185 Ibid., 14–15 Smám saman byrjaði týpógrafía að skilja sig frá prentlistinni og var í fyrsta sinn sinnt á sérstökum skrifstofum en ekki í prentsmiðjum. Við það dreifðist þekking prentlistarinnar sem hafði hingað til aðeins verið að finna innan prentsmiðjanna.186 186 Ibid., 15. Eftir því sem nýöldinni fleygði fram fóru menn að kenna ákveðin straumhvörf við tímabilið og módernismi í týpógrafíu kom fram á sjónarsviðið. Fyrst um sinn var módernisminn aðallega áberandi á meginlandi Evrópu og menn byrjuðu að tala um nýja týpógrafíu eins og Jan Tschichold í riti sínu, Die Neue Typographie (1928), sem má segja að sé einskonar handbók hinnar módernísku týpógrafíu. Tschichold hafði áhuga á andstæðum í týpógrafíu fremur en jafnvægi og samhverfu.187 187 39–40 Ibid., 103.

Ummerki módernismans mátti sjá snemma hjá þýskum prenturum sem notuðu til dæmis tvo dálka fremur en einn. Þá var þeim einnig umhugað um andstæður umfram samhverfu, rétt eins og Tschichold. Greinilegar breytingar urðu á týpógrafíu á nítjándu öld þegar ný leturform urðu til og nýjar aðferðir við eftirprentun komu fram á sjónarsviðið, svo sem ljósmyndun og steinprent.188 188 Ibid. Nýja týpógrafían snerist um tilgang, notagildi, stöðlun (til dæmis á pappírsstærð) og lesanleika. Fólk sem aðhylltist hana vildi losa sig við allan óþarfa. Þess vegna varð einkennisleturgerð nýju týpógrafíunnar steinskrift. Hana var til dæmis ekki hægt að tengja við neitt þjóðerni, ólíkt mörgum eldri leturgerðum.189 189 Ibid.,106.

Drifkraftur Tschicholds og annarra framúrstefnumanna í Evrópu var byggður á „bjartsýni á hreinsandi nýtt augnablik, sem hæfði nýju tímabili sem byrjaði við lok heimsstyrjaldarinnar fyrri,“ útskýrir Christopher Burke í bók sinni um Jan Tschichold, Active Literature.190 190 Christopher Burke, Active Literature: Jan Tschichold and New Typography (London: Hyphen, 2007), 29.

LÝÐRÆÐISLEG
VINSTRIJÖFNUN





Willem Sandberg var módernisti og einn af brautryðjendum í notkun vinstrijafnaðs texta. Hann hóf tilraunir sínar með vinstrijöfnun þegar hann hjálpaði við ólöglega prentun hollensku andspyrnuhreyfingarinnar í heimsstyrjöldinni síðari. Vinstrijafnaður texti einkenndi síðar meir alla hans týpógrafíu. Robin Kinross telur að í vinstrijafnaðri týpógrafíu Sandbergs sé falin félagsleg hugsun, hún snúist um hreinskilni, jöfnuð, ófullkomnun, óformleika og samtal.191 191 Kinross, Unjustified Texts, 297. Mörgum módernistum þótti vinstrijafnaður texti bæði gagnlegri og greinanlegri en aljafnaður. Vinstrijafnaður texti var opinn, lýðræðislegur og til vitnis um „áframhald mótspyrnuandans í eftir-stríðs heiminum.“192 192 Kinross, Modern Typography, 125.

Annar brautryðjandi vinstrijöfnunar var hollenski týpógraferinn, Piet Zwart. Hann var mikill áhugamaður um nýju týpógrafíuna og skrifaði um hana meðal annars:193 193 Burke, Active Literature, 83–84.

Á meðan gamla týpógrafían var samhverf […] setur nýja týpógrafían línur sínar með ójafnri brún, jafnar þær við vinstri brún og leyfir þeim að enda þar sem þær geta, eða með því að stjórna línuskiptingu til að búa til ákveðna spennu í textanum.194 194 Ibid., 84.

Af þessu er ljóst að Zwart þótti vinstrijafnaður texti mikilvægur þáttur í nýju týpógrafíunni. Á þessum tíma höfðu fáir áttað sig á þessu mikilvægi. Þeirra á meðal var Jan Tschichold sem var ekki tilbúinn að stíga skrefið til vinstrijöfnunar. Hann notaði ekki vinstrijöfnun og mælti aldrei með notkun hennar þrátt fyrir að vera á tímabili einn helsti talsmaður ósam-hverfrar týpógrafíu. Eins og Christopher Burke bendir á í bók sinni um Tschichold var vinstrijafnaður texti „rökrétt niðurstaða kenningarinnar um ósamhverfa týpógrafíu, en það hefði verið nokkuð umdeilt að krefjast vinstrijöfnunar af setjara í prentsmiðju á þriðja og fjórða áratugnum.“195 195 Ibid.

SVISS-TÝPÓGRAFÍA





Það kom í hlut Svisslendinga að taka næsta skrefið í nýju týpógrafíunni. Á tímum efnahagslegrar útþenslu í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar kom helsta fyrirmynd nútímatýpógrafíu frá Sviss, svokölluð Sviss-týpógrafía. Sennilega náðu Svisslendingar forskoti í áframhaldandi þróun týpógrafíunnar vegna hlutleysis síns í seinni heimsstyrjöldinni.196 196 Kinross, Modern Typography, 146. Sviss-týpógraferar töldu sig ekki fást við fagurfræði eða stíl, þeir höfðu ekki áhuga á því sem tengdist ekki beint tilgangi eða innihaldi textans. Þeir áttuðu sig ef til vill ekki á því, að slík nálgun er fagurfræðileg í sjálfri sér. Stíllinn einkenndist af einföldum myndum og samspili texta og myndar og naut mikilla vinsælda á sínum tíma. Letur fékk oft hlutverk myndar og öfugt. Á þeim tíma má segja að týpógrafía og grafíklist hafi runnið saman í eitt og í því samhengi kom hugtakið „grafísk hönnun“ fram í fyrsta sinn.197 197 Ibid., 146.

Josef Müller-Brockmann var einn helsti boðberi Sviss-týpógrafíunnar. Hann birti í riti sínu Gestaltungsprobleme des Grafikers lögmál svokallaðrar nýrrar grafíklistar. Hún snerist um hlutlægni og hið ópersónulega. Það átti að taka burt allt skraut og alla tjáningu og þjóna einungis þörfum miðlunarinnar. Týpógrafían einkenndist af niðurnjörvaðri grind, fáum leturstærðum og leturgerðum (aðallega steinskrift) og vinstrijöfnuðum texta.198 198 Ibid., 148.

PÓSTMÓDERNISMI





Viðhorfsbreytingar í garð vinstrijöfnunar hófust því ekki fyrir alvöru fyrr en á miðri síðustu öld. Þá tóku sífellt fleiri upp vinstrijöfnun texta. Nú á dögum – í síðnútímanum – er vinstrijöfnun til dæmis oft notuð í barnabókum og flestir telja viðeigandi að vinstrijafna texta í þröngum dálkum – til dæmis í dagblöðum.199 199 Janssen, „The Rectangle in Typography,“ 19. Þó er vinstrijöfnun enn þann dag í dag sjaldan notuð í skáldsögum og fræðilegum texta og mun sjaldgæfari en aljöfnun í prentuðum samfelldum texta.200 200 Ibid., 28.

Aukin notkun vinstrijöfnunar sýnir að hún er ekki einungis tengd módernisma og Sviss-týpógrafíu. Ósamhverf týpógrafía fann sér áframhaldandi farveg í póstmódernisma síðnútímans, en á þeirri stefnu fór að bera á áttunda áratugnum. Póstmódernismi í grafískri hönnun birtist í upphafi einkum í verkum hönnuða sem lærðu og þróuðu áfram svissneska stílinn. Það sem er einkar áhugavert við póstmódernisma í grafískri hönnun er að hann byggir á innsæi og leik, umfram notagildi. Huglægni og sérviska eru líka áberandi í póstmódernískri hönnun.201 201 Ibid Þannig voru til dæmis sum atriði „nýju týpógrafíunnar“, sem byggðist aðallega á nytsemd, notuð sem skraut í grafískri hönnun póstmódernismans.202 202 Meggs, A History of Graphic Design, 490.

Eitt af því sem er eftirtektarvert í grafískri hönnun síðnútímans eru vísanir í gamla stíla og stefnur. Tilhneigingin er ekki ný af nálinni og hún hefur sérstaklega verið áberandi í auglýsingahönnun þar sem gömul fagurfræði er notuð, til dæmis til að sýna fram á rótfestu og stöðugleika fyrirtækja.203 203 Steven Heller, „The Time Machine,“ Looking Closer: Critical Writings on Graphic Design, (ritstj./Eds.) Michael Bierut, William Drenttel, Steven Heller & DK Holland, 34–38 (New York: Allworth, 1994), 35. Þetta stafar af því að form grafískrar hönnunar geta haft pólitíska og félagslega merkingu.204 204 Meggs, A History of Graphic Design, 490. Þessi pólitíska og félagslega merking kann hugsanlega ennfremur að vera ástæða þess að aljöfnun er notuð jafn mikið og raun ber vitni í prentgripum samtímans. Jöfnun texta hefur pólitíska og félagslega merkingu eins og aðrir þættir hönnunar.

ALJÖFNUN
Á ÍSLANDI





Hefðin spilar stórt hlutverk í óvinsældum vinstrijöfnunar. Á Íslandi er aljöfnun langalgengasta meðferðin á samfelldum prentuðum texta. Þá skiptir oftast ekki máli hvort um er að ræða klassískar bókmenntir eða nútímaskáldskap. Í svörum bókaútgefenda við spurningum sem bornar voru upp við gerð ritgerðarinnar, sem þessi grein er unnin úr, kemur fram að flestar bækur sem þeir gefa út hér á landi eru aljafnaðar. „Við jöfnum alltaf texta í útgefnum bókum – skáldsögum – af því okkur finnst það fallegra. Og við reynum að láta fegurðina ráða för,“ segir í svari Benedikts bókaútgáfu.205 205 Viðtal 2 / Interview 2 (23. 11. 2017). Viðtal höfundar við Guðrúnu Vilmundardóttur / Author’s Interview with Guðrún Vilmundardóttir. Jafnframt var tekið fram að þau vinstrisetji „ljóðabækur ef línur eru stuttar, maður les jú frá vinstri til hægri.“ 206 206 Ibid.

Bjarni Þorsteinsson hjá Bjarti segir að það „sem ræður þegar ákvörðun er tekin um jöfnun er einkum þrennt; fagurfræði, hefðir og eðli textans.“ Þá segir Bjarni að „ef efni textans er á einhvern hátt óvenjulegt getur komið til greina að undirstrika það með vinstrijöfnun. Einnig kemur fyrir að valin er vinstrijöfnun til að fækka orðskiptingum milli lína og á það einkum við bækur fyrir yngstu lesendurna og einnig námsbækur fyrir ung börn. Markhópurinn skiptir þarna máli – þ.e.a.s. börnin.“ 207 207 Viðtal 3 / Interview 3 (24. 11. 2017). Viðtal höfundar við Bjarna Þorsteinsson / Author’s Interview with Bjarni Þorsteinsson. Aðspurður um hvaða áhrif hann telji önnur hvor jöfnunin hafi á sölu segir hann:

Vinstrijöfnun á texta þar sem hefðin er aljöfnun getur truflað sölu – það gæti t.d. gert kaupanda tortrygginn á hefðbundna skáldsögu ef hún er með óhefðbundinni jöfnun. Ef sagan er hins vegar mjög óhefðbundin og tilraunakennd er ólíklegra að það trufli kaupandann að eingöngu sé jafnað vinstra megin. Aðrir þættir [umbrotsins] væru þá líklega einnig óhefðbundnir með einhverjum hætti. Að sama skapi getur það truflað kaupanda á bók fyrir yngstu lesendurna að sjá aljöfnun og mörgum orðum skipt milli lína.208 208 Ibid.

Að hanna þýðingar

Hvað gerum við þegar við þýðum tungumál? Við tökum hugsun, setningu, sjónarhorn og við finnum hugsuninni eða sjónarhorninu stað í nýju málkerfi, innan nýrrar málfræði.
 

Samkvæmt hefðbundnum skilningi hefur þýðing engin alvarleg áhrif á inntak texta, Biblían á grísku er eins og Biblían á ensku sem er eins og Biblían á íslensku.Það er að minnsta kosti það sem við teljum okkum trú um.

Raunin er aftur á móti sú að inntakið er aldrei stöðugt frá einu tungumáli til annars. „Í upphafi var Orðið,“ stendur til að mynda í upphafi Jóhannesarguðspjalls. „Orðið“ er í þessu tilfelli þýðing á gríska hugtakinu„logos“, sem hefur miklu breiðari skírskotun og merkir hluti á borð við „skynsemi“ og „skipulag“, auk þess sem það lýsir „guðlegri skynsemi sem er til staðar í heiminum, kemur á hann skipulagi og gefur honum form og merkingu.“209 209 “Logos,” Encyclopædia Britannica, (s./a.) 12. 11. 12, 2018, britannica.com/topic/logos. Þetta er augljóslega talsvert merkingarþrungnara en íslenska orðið „orð“. Til þess að flækja málin ennfrekar þá merkir orðið „orðið“ (með greini), sum sé bæði orð í tungumáli og eitthvað sem hefur þegar átt sér stað. Þannig að merking þessara örfáu orða, „í upphafi var Orðið,“ er á töluvert meira flökti en góðu hófi gegnir og getur einnig þýtt eitthvað í líkingu við: „Í upphafi hafði þegar eitthvað átt sér stað.“
Þetta er svosem alveg nógu pirrandi, en það sem meira er, þá er ekkert upprunalegt tungumál til sem getur skorið úr um hinstu merkingu orða. Vonin um eitt grundvallartungumál er tjáð með sterkum hætti í sögunni af Babelsturninum, þar sem Guð refsar mannkyninu – sem átti eitt sameiginlegt tungumál – með því að fjölga tungumálunum í heiminum og gera fólk þannig háð þýðingum. En raunin er að sjálfsögðu sú að mannfólk hefur ætíð þurft að þýða því að merking er engan veginn stöðugt fyrirbæri! Hver einasta (mannleg) þýðing flöktir og umbreytist með ólíkum sjónarhornum, og bognar með tímanum, á milli þýðingar núna og þýðingar þá. Við rannsökum og upplifum heiminn í kringum okkur með ólíkum skynfærum og um leið og við reynum að skilja það sem við skynjum þá erum við þegar farin að þýða. Þýðingar eru nátengar merkingarframleiðslunni sjálfri.

MA Hönnun: Könnunarleiðangrar og þýðingar er nafnið á meistaranámi í hönnun við braut hönnunar og arkitektúrs sem þeir Garðar Eyjólfsson og Thomas Pausz endurskipulögðu á árunum 2016 og 2017. Eins og nafnið gefur til kynna er meðal annars fengist við rannsóknir á þýðingum sem hluta af verkfærakistu hönnuða. Ef við skiljum þýðingar sem merkingarsköpun, þá fæst hönnun einmitt við að efnisgera merkingu, möguleika, hugsanir og sjónarhorn með ólíkum hætti á ólíkum tíma. Hönnuðir þýða í þeim tilgangi að gera merkingu aðgengilega nýjum viðtakendum og miðla einhverju sem birtist á sviði skynjunarinnar en krefst umbreytingar svo hægt sé að skilja eða tileinka sér það. Hönnuðir þýða þó yfirleitt ekki á milli tungumála, öllu heldur þýða þeir uppgötvanir, virkni, málefni, vonir og drauma, kerfi, þarfir, viðbrögð og veruleika. Við skulum huga að tveimur verkefnum eftir Garðar og Thomas, dæmi um tvær þýðingar, gáskafullar tilraunir sem efnisgera möguleika, hugsanir og sjónarhorn úr samtíma okkar.

Í verkefninu Tegundir án rýma fæst Thomas Pausz við að þýða og enduruppgötva tegundatengsl í leit að nýjum siðferðilegum víddum. „Hönnuðir eru í fararbroddi þess að skapa og eiga við myndir, form og goðsagnir,“fullyrðir Thomas sem vonast eftir því að gera skynjun okkar á náttúruheiminum „villta á nýjan leik,“ eins og hann kemst að orði sjálfur. Með hönnun hluta og kvikmyndasýningum leitast Thomas við að grafa undan viðteknum leiðum okkar til að sjá heiminn utan við manninn. Hann telur þann heim meðal annars birtast á póstkortum, hefðbundnum landslagsmálverkum og í því hvernig náttúruútsýnisbyggingar eru reistar. Kjarni þessara tilrauna með birtingarmyndir er að velta upp viðteknum flokkum og stigveldi tegunda.

Hér leikur Thomas sér í talsverðu návígi við hugmyndir bandaríska heimspekingsins Donnu Haraway sem hefur beint spjótum sínum að hugmyndum um að maðurinn sé frábrugðin öllum öðrum lífverum. Hugmyndir Haraway hafur borið á góma í MA náminu, meðal annars sú uppástunga hennar að þau hugtök sem við notum til að hugsa um hinn náttúrulega heim séu „alvarlega óhugsandi,“ það sé „ómögulegt að hugsa með þeim.“210 210 Donna Haraway, „Tentacular Thinking: Anthropocene, Capitalocene, Chthulucene,“ E-Flux Journal #75 (2016), e-flux.com/journal/75/67125/tentacular-thinking-anthropocene-capitalocene-chthulucene. Um er að ræða útdrátt Haraway úr samnefndum 2. kafla í / This text is an edited extract from a synonymous 2. chapter in: Donna Haraway, Staying With the Trouble: Making Kin in the Chthulucene, 30–57 (Durham: Duke University, 2016). Haraway setur slíka gagnrýni fram í samhengi þeirra loftlagsbreytinga sem orðið hafa á síðustu öldum og eru yfirleitt taldar vera af mannavöldum. Sumir vísindamenn hafa gengið svo langt að tala um nýtt jarðsögulegt tímabil sem kallað er mannöld. Hugtakið lýsir jarðfræðilegu tímabili þar sem „áhrif manna á hnattrænt umhverfi eru […] orðin svo mikil og virk að þau jafnast á við alvarlegustu áhrif náttúruaflanna á starfsemi kerfa Jarðarinnar.“8fn]Will Steffen, Jacques Grinevald, Paul Crutzen & John McNeill, „The Anthropocene: Conceptual and Historical Perspectives,“ Philosophical Transactions of the Royal Society A: Mathematical, Physical and Engineering Sciences, #369 (2011): 842, DOI: 10.1098/rsta.2010.0327.[/fn] Haraway mótmælir slíkri skilgreiningu með ofureinföldum rökum – hvernig geta hnattrænar hamfarir verið á ábyrgð heillrar tegundar? Slík hugmynd skellir skuldinni á fjölda einstaklinga sem hafa aldrei haft nokkuð vald til þess að raska einu né neinu.


Tilgátuverkefni Garðars Eyjólfssonar, Barbara er tilraun til að skapa samtal um framtíðina án þess að verða vonleysinu að bráð.  
Garðar Eyjólfsson’s speculative design project Barbara is an attempt to open a dialogue about the future without losing hope.  

Annar hluti í röksemdafærslu hennar er sú sýn hennar að sagan um mannöldina sé einfaldlega ekki gagnleg, það er að segja að sú saga geti ómögulega náð til allra sem vettlingi geta valdið. Þegar ég frétti af „kolefnisbanninu“ sem tengdamóðir mín lagði á tengdaföður minn, því hún var orðin svo þreytt á því að heyra hann tala um ógnir loftslagsbreytinga út í eitt, þá varð mér hugsað til þessarar gagnrýni. Donna Haraway leggur áherslu á mikilvægi fjölröddunnar og fjölbreyttra frásagna sem stuðlað geti að samlífi á tímum sem eru „enn í húfi“, eins og hún kemst að orði.211 211 Ibid. Hún heldur mikilvægi þess á lofti að við segjum sögur sem leyfa okkur að takast á við þær erfiðu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir, án þess að glata voninni og verða kaldhæðni eða forlagahyggju að bráð.212 212 Ibid.

„Það er afskaplega auðvelt að verða kaldhæðinn á okkar tímum,“ segir Garðar Eyjólfsson, fagstjóri í MA námi í hönnun sem telur að boðskapur Donnu Haraway sé jákvæð áminning um að halda áfram að takast á við heiminn. Undir slíkum formerkjum varð tilgátuhönnunarverkefnið Barbara til. Þar veltir Garðar fyrir sér þeim möguleikum sem fólgnir eru í erfðatækni og spyr hvort mögulegt sé að nýta slíka tækni til að sniðganga hefðbundna textílframleiðslu í heiminum. Barbara hefur nefnilega tekið að sér að rækta sinn eigin textíl sjálf – á eigin líkama. Barbara á heima í náinni framtíð sem hefur orðið fyrir skaðlegum áhrifum hnattrænnar offramleiðslu á textíl. Garðar lítur ekki á verkefnið sem fullunna frásögn, heldur tilraun til að skapa samtal um framtíðina. „Barbara er fyrsta skrefið í ákveðinni rannsóknarvegferð. Um er að ræða byrjun eða upphaf, skissu jafnvel eða prótótýpu. Í sjálfu sér er myndmálið kannski aukaatriði en mér finnst mikilvægt að láta reyna á hugmyndir þó þær séu ekki fullbúnar. Ég hef nefnilega ákveðnar efasemdir um réttmæti þeirrar hugmyndar að eitthvað sé nokkurn tímann fullklárað.“

Bitnami